Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 17:20:27 (2481)

1996-12-19 17:20:27# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[17:20]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að halda því til haga að þetta þjóðmenningarhús eða verkefni þess hafa aldrei verið rædd sérstaklega á Alþingi og það er satt að segja dálítið merkilegt að á sama tíma og flestar menningarstofnanir kvarta vegna skorts á fjármunum --- það koma fréttir um að handritin liggi undir stórkostlegum skemmdum vegna þess að ekki séu til peningar til að verja þau eða forverja eins og það heitir --- er skyndilega tekin um það ákvörðun og send um það tilkynning til allra fjölmiðla að það hafi verið stofnuð þjóðmenningarstofnun í Landsbókasafninu. Það er dálítið sérkennilegt satt best að segja. Og það er dálítið sérkennilegt hvernig að því er staðið að velja stjórn þeirrar stofnunar, afar sérkennilegur hlutur og full ástæða til þess, úr því að hæstv. menntmrh. óskar beinlínis eftir því að það mál verði rætt við 3. umr. fjárlaga á morgun alveg sérstaklega.

Varðandi niðurskurðinn á menningarsjóðnum eða Endurbótasjóðnum sérstaklega, af því að hann er í Reykjavík, þá ætla ég að segja alveg eins og er að ég tel að hæstv. menntmrh. hafi engin rök í þessum efnum. Það hefur verið dálítið fróðlegt að fylgjast með því hvernig núv. ríkisstjórn hefur viljað beita sér gegn borgarstjórn Reykjavíkur í sambandi við framkvæmdir og fleira þar sem hæstv. menntmrh. er algerlega þversum miðað við flokksmenn sína í borgarstjórn Reykjavíkur sem hafa kvartað undan því að framkvæmdir í Reykjavík á vegum meiri hlutans séu allt of litlar. Ég held því að það væri skynsamlegt af hæstv. menntmrh. að bera sig saman við flokkssystkini sín sem hann átti síðast þegar ég frétti handan við götuna í ráðhúsinu í Reykjavík.