Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 17:22:27 (2482)

1996-12-19 17:22:27# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[17:22]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi Safnahúsið þá hafa verið teknar ákvarðanir um það núna að unnið verði að því að tæma húsið, taka úr því þau skjöl sem tilheyra Þjóðskjalasafninu og bækur sem tilheyra Landsbókasafni -- Háskólabókasafni þannig að þessi skjöl og bækur komist í varanlega geymslu. Það hefur engum manni nokkru sinni dottið í hug að Safnahúsið yrði geymslusafn fyrir leifar af Þjóðskjalasafninu eða leifar af Landsbókasafninu. Það er meginákvörðunin sem hefur verið tekin og þannig var valið í stjórn þessarar stofnunar sem hv. þm. orðaði svo, sem er í raun og veru ekki annað en hússtjórn: Það eru formaður stjórnar Landsbókasafnsins -- Háskólabókasafnsins, þjóðskjalavörður og síðan fyrrv. forseti Alþingis sem sitja þar í stjórn og sé ég ekki að það sé í sjálfu sér ámælisvert miðað við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið.

Jafnframt hefur verið ákveðið að húsið verði undir forsjá forsrn. og þegar þessum framkvæmdum er lokið, að tæma húsið og taka þessi skjöl úr því og þessar leifar safnanna, þá verði unnt að hafa þar aðstöðu til þess að sýna ýmsa þjóðardýrgripi og nýta það til þess að efla þjóðmenningu Íslands og það sem við viljum helst halda á loft til sýnis fyrir okkur og aðra. Ég held að þessar hugmyndir séu ekki mjög frumlegar því að þær hafa legið fyrir lengi og að því er stefnt að árið 2000 verði þetta komið til framkvæmda. Síðan hefur verið ákveðið að leggja fjármuni úr Endurbótasjóði til þess að hefja brýnustu viðgerðir á húsinu að utan og það var ekki seinna vænna að gera það miðað við stöðu hússins.

Þetta eru þær ákvarðanir sem teknar hafa verið. Ég er tilbúinn til að ræða það frekar við 3. umr. fjárlaga ef menn vilja, en hér hafa staðreyndirnar verið skýrðar.