Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 17:26:52 (2484)

1996-12-19 17:26:52# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[17:26]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel tvímælalaust að okkur beri skylda til þess að verja handritin skemmdum, jafnt skinnhandrit sem pappírshandrit. Hins vegar er varðveisla pappírshandrita fyrir marga og í augum margra óvinnandi vegur á heimsvísu því að enn hafa ekki verið fundnar upp þær aðferðir sem tryggja að okkur takist að verja öll pappírshandrit sem til eru. En við eigum að leggja okkar af mörkum og ég tel að það beri að búa þannig um hnúta fyrir Landsbókasafn -- Háskólabókasafn að það geti sinnt þessu. Hvernig stjórn þess ver þeim auknu fjármunum sem samþykktir hafa verið, þar af 12 millj. kr. náttúrlega í ritakaup eins og við vitum en rúmum 15 millj. til þess að styrkja rekstur safnsins, ætla ég að láta henni eftir, en hún hlýtur að fylgjast með þeim áherslum sem fram hafa komið núna á lokadögum fjárlagaafgreiðslunnar.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það veiti ekki af þeim fjármunum sem eru í Endurbótasjóði til þess að verja mannvirkin þannig að þau séu í sómsamlegu horfi og er þess vegna ekki tilbúin að samþykkja að lögum um sjóðinn verði breytt á þann veg að það beri að verja fé úr honum til þess að vernda minjarnar sjálfar, heldur verði Alþingi að taka ákvarðanir um slíka hluti eða fjárveitingarvaldið þegar rætt er um rekstrarkostnað þessara stofnana. Það er unnt líka að hugsa sér samstarf, sjóði og aðra sjóði heldur en Endurbótasjóð til þess að vinna að slíkum framkvæmdum. Ég veit að af hálfu Landsbókasafns -- Háskólabókasafns hefur m.a. verið hugað að samskiptum við erlend söfn um varðveislu á handritum þó ekki sé það kannski í þeirri mynd sem handritin eru heldur með nýrri tækni, upplýsingatækni þannig að þessar minjar eyðist ekki þó pappírinn eyðist. Það eru því margar leiðir í sjálfu sér færar til að vernda þennan menningararf og gera það þannig að hann verði eilífur og viðvarandi miðað við þá tækni sem við höfum.