Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 17:50:28 (2488)

1996-12-19 17:50:28# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[17:50]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að vekja athygli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar á brtt. á þskj. 417 við 26. gr. frv., en hún er frá meiri hluta efh.- og viðskn. og fram komin einmitt vegna framhaldsmeðferðar á málinu í efh.- og viðskn.

Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. að ekki er eðlilegt að hið háa umhvrn. hafi mikið um veiðar á ref að segja ef ábyrgðin á þeim og kostnaður vegna þeirra á alfarið að falla á sveitarfélögin. Nú er því breytt samkvæmt þeirri tillögu sem liggur fyrir frá meiri hluta nefndarinnar þannig að ekki er gert ráð fyrir að ríkið hætti þátttöku í kostnaði vegna veiðanna og þá er líka eðlilegt að einhver bönn eða viðmiðunarreglur séu vegna þess kostnaðar sem hið háa ráðuneyti þarf þá að samþykkja.

Ég get alveg tekið undir með hv. þm. að nauðsynlegt er að heimildasöfnun sé í lagi vegna þeirra veiða sem stundaðar eru þannig að það geti nýst til rannsókna á þessu sviði. Ég held að ég geti þó sagt það fyrir hönd nefndarinnar að ástæðan fyrir því að leggja áherslu á áframhaldandi þátttöku ríkisins í þessum veiðum sé sú að menn hafi talið að það væri óeðlileg byrði fyrir lítil sveitarfélög að standa ein undir þeim kostnaði sem veiðunum fylgir. Sú byrði væri það þung að hún væri í rauninni ekki í nokkrum takt við fjárhagslega getu eða tekjumöguleika viðkomandi sveitarfélaga og þess vegna er nauðsynlegt að ríkið haldi að einhverju leyti áfram að taka þátt í kostnaðinum.