Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 17:56:00 (2491)

1996-12-19 17:56:00# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[17:56]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo lengi sem ríkið er þátttakandi á annað borð er auðvitað mjög eðlilegt að litið sé til fjárhagsgetu og aðstæðna. Það finnst mér ofur eðlilegt út af fyrir sig. Hitt mætti kannski spyrja um, og þá er ég að velta upp atriði sem ég hef ekki fært inn í umræðuna sérstaklega en það er hvort ekki er það mikill áhugi á skotveiðum að kannski mætti snúa dæminu við, svipað og verið er að gera varðandi veiðar á hreindýrum, að menn þurfi að kaupa sér veiðileyfi til að skjóta fjallref og þannig verði aflað tekna til málsins miðað við þann mikla áhuga sem víða er í löndum á veiðiskap. Hugsanlega væri hægt að gera þetta í sambandi við ferðamennsku hér á landi og afla tekna með því móti. Ég býst hins vegar við að þá þurfi einnig að fylgja aðstoðarmaður til að auðvelda mönnum leit að grenjum og þess háttar. Ég nefni þetta atriði vegna þess að hver veit nema sá tími renni upp að heimildir til veiða á fjallref verði eftirsóttar og menn reiðubúnir að borga ríflega fyrir að fá að stunda slíkar veiðar.