Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 17:59:59 (2493)

1996-12-19 17:59:59# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[17:59]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir viss sjónarmið eða sumt af því sem fram kom í máli hv. þm. í sambandi við nauðsyn á rannsókn á því hvert raunverulegt tjón er af völdum refa en komi ekki til jafnvel af öðrum ástæðum, en nánar ætla ég ekki að fara út í það. Ég vek hins vegar athygli á áliti 1. minni hluta umhvn. um þetta mál þar sem kemur fram mjög ákveðið það sjónarmið að hrófla sem minnst við gildandi kerfi. Undir það ritar fulltrúi Alþfl. í umhvn., hv. þm. Gísli S. Einarsson, og kann það að þykja dálítið sérstakt að úr þeirri átt komi fram svo ákveðið sjónarmið eins og þar liggur fyrir í þessu nál. að því er varðar þátttöku ríkisins í refaveiðum. En ég held að það hafi komið fram í umræðum og máli fulltrúa umhvrn. sem mætti á fund umhvn. að hið eina tjón sem vitað væri um --- það hafði bara á einum stað verið metið tjón af völdum refa svo ráðuneytinu væri kunnugt, þ.e. á einum stað. Það var nú það veganesti sem þaðan kom --- hafði verið á Vesturlandi í kjördæmi hv. þm. Gísla S. Einarssonar. Svo það hefur e.t.v. verið ástæðan fyrir því að svo skarplega var til orða tekið að þessu leyti og lagst eindregið gegn því að fallast á tillögu ráðuneytisins. Aðrir höfðu vissulega fyrirvara en þetta voru einna ákveðnustu andmælin við því sem fyrir lágu.