Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 18:02:12 (2494)

1996-12-19 18:02:12# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[18:02]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Í ljósi þeirra upplýsinga sem hv. þm. flytur hingað af borði hv. umhvn. má öllum ljóst vera til hvers á að verja fjármagni til að skera refina. Ég held að það sé alveg ljóst að að stórum hluta er þetta gert til þess að halda uppi atvinnu í fámennum sveitarfélögum. Og ef hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er þeirrar skoðunar að það sé rangt hjá mér þá held ég að menn eigi bara að gera reka að því að ganga úr skugga um þetta með því að kanna það. Þá skal ég fallast á niðurstöðuna. Það er hins vegar annars konar óbeint tjón sem ekki varðar beinlínis hlunnindi sem hægt er að mæla í krónum og aurum sem refirnir eru taldir valda. Það er tjón á varpi hvers konar fugla sem hafa verið gildur partur af lífríki náttúrunnar og menn hafa ánægju af og geta notið fegurðarinnar af fuglasöngnum og af því að horfa á fuglana að leik og lífi úti í náttúruinni. Auðvitað er það líka hlutur sem ber að taka tillit til. Það eru að ég hygg engar klárar rannsóknir sem hníga að því að refurinn sé mikill skaðvaldur þarna en það eru uppi ásakanir um það. Hvers vegna þá ekki að rannsaka það núna þegar liggur fyrir að það er markaður tekjustofn til þess að rannsaka villt dýr sem menn stunda veiðar á? Ég held að menn ættu að gera það ef það hefur ekki þegar verið ráðist í þessa tegund refarannsókna sem eru nú þegar talsvert umfangsmiklar fyrir. En ég vek athygli á því sem ég sagði áðan að ég held ekki, hvort sem umhvrn. kemur að þessum kostnaði eða ekki, að menn þurfi að óttast að ekki verði hægt að fylgjast með umfangi veiðanna. Það er hægt. Að því er varðar upplýsingar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson taldi nauðsynlegar og vissulega er æskilegt að hafa, þ.e. upplýsingar um frjósemi og afkomu dýranna eftir árum, þá held ég að það væri mjög auðvelt að samtvinna rannsóknir á refum, t.d. háskólans og Líffræðistofnunar, við veiðar, jafnvel þó að umhvrn. komi ekki að þeim. En ég ítreka að ég hef aldrei séð rök sem hníga að því að nauðsynlegt sé að vera með þetta mikla átak í refaveiðum.