Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 18:07:02 (2496)

1996-12-19 18:07:02# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[18:07]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér hafa staðið umræður linnulitlar frá því kl. 14 í dag. Þær hafa allar snúist um þetta tiltekna frv. sem hér liggur undir sem er frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég hélt hér ræðu og ætlaði mér ekki að halda aðra ræðu. Sú ræða stóð í 55 mínútur. Í henni fór ég efnislega yfir þann þátt frv. sem varðar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Ég ræddi hverja einustu grein ítarlega. Ég varpaði fjölmörgum spurningum til hæstv. heilbrrh., einni spurningu til hæstv. forsrh. Ég geri enga sérstaka kröfu til þess að hæstv. forsrh., þó hann sé flutningsmaður málsins, svari þeirri spurningu vegna þess að hún laut að mjög skyldu efni og þær spurningar sem ég varpaði til hæstv. heilbrrh. Þessar spurningar sem ég varpaði til fagráðherrans hæstv. lutu m.a. að skilgreiningum. Þær lutu að því hvað ákveðnar greinar þýddu. Ég benti á að ekki var hægt að fá tilteknar upplýsingar um ákveðna hluti innan nefndarinnar og það kemur meira að segja fram í áliti meiri hlutans. Er það virkilega ætlunin að ljúka þessari umræðu án þess að hæstv. heilbrrh., sem ber hina faglegu ábyrgð á þeim kafla sem er umdeildastur í þessu frv., svari spurningum sem til hennar er beint, að hún leyfi sér að yfirgefa þessa umræðu án þess að svara einni einustu spurningu frá form. heilbr.- og trn.? Ég verð að segja það, herra forseti að þetta er ekki bjóðandi. Það er ekki hægt af stjórnarliðinu að ætlast til þess að menn komi hérna undirbúnir eftir að hafa starfað vel að þessu máli í fagnefndinni og spyrji hæstv. ráðherra spurninga ef ráðherrann lætur sig síðan hverfa og kemur ekki nálægt málinu. Herra forseti. Er virkilega ætlunin að gera Alþingi bara að ómerkilegum stimpli fyrir ríkisstjórnina? Ég ætla stjórnarliðinu það ekki. Ég veit að í stjórnarliðinu er margt valinkunnra sæmdarmanna sem hafa fyrir sitt leyti staðið hér í málefnalegri umræðu. Hv. form. nefndarinnar hefur t.d. svarað þeim spurningum öllum sem til hans hefur verið varpað. Ég spurði hæstv. heilbrrh. sérstaklega hvort hún væri reiðubúin til að lýsa því yfir að ákveðnar skoðanir stjórnarliðanna sem hér hafa komið fram væru rangar, hvort að skoðun fjárlagaskrifstofu fjmrn. sem hefur opinberan stimpil eins af kollegum hennar í ríkisstjórninni, hæstv. fjmrh., væri röng, en það kemur fram í áliti þessarar skrifstofu að tvær tilteknar lagagreinar hérna snerta ríkismálin ekki neitt. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort hún væri, í ljósi breyttrar stöðu og þeirrar ákvörðunar sem hún sjálf hefur tekið um breytingar á sparnaðaráformum varðandi dreifbýlissjúkrahúsin, reiðubúin til þess að fresta gildistöku 19. gr. Og er það ætlun stjórnarliðsins að þessari umræðu ljúki bara með því að hæstv. heilbrrh. sitji og brosi fallega í heilan dag og hlusti á menn halda málefnalegar ræður en svari engri spurningu? Ef það er ætlunin, herra forseti, þá verð ég auðvitað að kveðja mér hljóðs og halda þessa ræðu aftur.