Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 18:22:09 (2499)

1996-12-19 18:22:09# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[18:22]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. formanni heilbr.- og trn. fyrir hans ágætu störf í heilbr.- og trn. og hans ágætu ræðu sem hann hefur flutt hér í dag. (Gripið fram í: Tvisvar.) Já, tvisvar sinnum. Honum finnst hann ekki hafa fengð nægileg svör við sínum spurningum og þess vegna finnst mér rétt að fara yfir þau mál sem hann hefur tilgreint sérstaklega. Hann sagði að honum þætti rétt að fresta þeim greinum sem væru boðaðar í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum þar sem hann teldi að það tengdist ekki ríkisfjármálunum beint. Allar þessar greinar tengjast ríkisfjármálunum beint eða óbeint. Sú eina grein sem hv. þm. og formaður heilbrn. taldi með nokkrum rökum að tengdist ekki ráðstöfunum í ríkisfjármálum er 20. gr. um formennskuna í sjúkrastofnunum.

Ég sagði í fyrri ræðu minni að ég teldi nauðsynlegt að heilbrrh. ætti einn fulltrúa í stjórn þessara sjúkrastofnana, sjúkrastofnana sem velta 16 milljörðum árlega. Hv. þm. talaði um það áðan að réttara væri að koma með sérstakt frv. um slíkt mál. Ég tel að það sé bitamunur á því hvernig þetta mál er lagt fram, enda finn ég að það er mikil samstaða um þetta atriði. Menn sjá að auðvitað er það rétt að heilbrrh. eigi einn fulltrúa í þessum stjórnum en eins og þetta er í dag á hann engan fulltrúa. Auðvitað er það rétt að hann eigi formennskuna. Og þó það sé ekkert eitt atriði sem ég vil benda á að hafi orðið tilefni þessarar greinar í frv., ég hef átt ágæta samvinnu við þá formenn sem Alþfl. skipaði á sínum tíma, er verið að hugsa til framtíðar. Þetta er þannig að ekkert er eðlilegra en málum sé háttað með slíkum hætti.

Aðrir þættir frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum tengjast allir fjárlagafrv. og ég hef margoft farið yfir það. Ég tel að hv. þm. hafi fengið fullnægjandi skýringar á hverri þeirri grein sem hér er til umræðu, en ég skal fara yfir það einu sinni enn í fullvissu um að hv. þm. mun í andsvari á eftir lýsa stuðningi við þessar greinar frv.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að hægt sé að sameina stjórnir heilsugæslustöðva. Af því er sparnaður og það er greinilegt að hægt er að ná betri tökum með færri stjórnum en nú er. Hv. þm. talaði sérstaklega um það áðan hvað átt væri við með því að heilsugæsla og sjúkrahús væru rekin sem ein heild. Þar sem sjúkrahús og heilsugæsla er í starfstengslum er oft og tíðum sama starfsfólkið við stofnanir og því eðlilegt að ein yfirstjórn sé yfir slíkri stofnun. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að stofnanir geti verið jafnréttháar, að sjúkrahúsið sé ekki stjórnandi yfir heilsugæslunni heldur sé heilsugæslan jafnrétthá og sjúkrahúsið. Þarna er verið að tala um litlar stofnanir sem reknar eru úti á landi.

Eitt atriði sem hv. þm. gerði eðlilega að umræðuefni er sameining heilbrigðisþjónustusvæða og þær 160 millj. sem ráðgert er að spara á sjúkrahúsum úti á landi. Eins og hv. þm. veit hefur nefnd verið að störfum síðan í haust sem fékk það verkefni að samhæfa þjónustu sjúkrastofnana úti á landi. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu að það væri hægt að ná þeim sparnaði sem ríkisstjórnin lagði til, en lagði jafnframt til að þessi sparnaður næðist á þrem árum í stað einu ári. Aðalröksemdin fyrir því er sú að það sé vænlegra til árangurs að fá heimamenn til samstarfs. Það er gert ráð fyrir því að inn í þær verkefnastjórnir sem munu vinna þetta mál komi heimamenn að málum og þannig náist betra samkomulag og betri árangur en ella hefði náðst.

Ég tel mig hafa skýrt þær greinar sem hér liggja fyrir, enda ekki flóknar eða margvíslegar þannig að ég býst við því að hv. formaður heilbr.- og trn. geti sæmilega við unað. En af því að hann hefur gert að umtalsefni nokkrum sinnum að einn hv. stjórnarliði og fleiri stjórnarandstæðingar, aðallega hefur hann talað um hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur, efuðust um 19. gr. frv., þá er það þannig þegar margir koma saman að það er alveg pláss fyrir fólk þó svo það greiði ekki atkvæði eins og allur þorri þingmanna. Það kom fyrir síðast í dag að einn hv. stjórnarliði greiddi atkvæði gegn máli sem enginn stjórnarandstæðingur greiddi atkvæði á móti. Þannig er það í lýðræðisþjóðfélagi og það er mjög eðlilegt að menn viðri skoðanir sínar og sannfæringu og fari eftir þeim. Ég virði skoðanir hv. þm. Láru Margrétar þó að ég sé ekki sammála þeim.