Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 18:30:10 (2500)

1996-12-19 18:30:10# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[18:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að teygja þennan lopa lengur. Hæstv. heilbrrh. fær ekki nema hálfa stjörnu fyrir viðleitnina. Ég varpaði fram mjög ítarlegum spurningum og þar af einni lykilspurningu og það fékkst ekki svar við henni.

Ég vek eftirtekt á því að ég bað um skilgreiningu á tilteknum hlut sem varðar 15. gr. Því var ekki svarað, en ég tel þó að í því svari hafi það falist að ekki sé heimilt að sameina undir eina stjórn sjúkrahús og fleiri en eina heilsugæslustöð. Ég tel sem sagt að í þessu svari og miðað við það að orðið heilsugæslustöð er í eintölu í 15. gr. sé bara verið að tala um eina heilsugæslustöð í tilteknu byggðarlagi og sjúkrahús. Það sé ekki heimilt að taka undir eina stjórn sjúkrahús og heilsugæslustöð og síðan heilsugæslustöð í öðru byggðarlagi. Ef hæstv. ráðherra er annarrar skoðunar finnst mér að hún ætti a.m.k. að gefa það til kynna hér og nú.

Ég spurði líka um 19. gr. sérstaklega og spurði í fullri vinsemd hvort það væri til umræðu í ljósi breyttrar afstöðu ráðuneytisins að fresta gildistöku 19. gr. vegna þess að það liggur fyrir að við höfum allt næsta þing til þess að fara í gegnum þetta. Það kom ekkert svar við þeirri spurningu sem er lykilspurning og ég ætlast ekki lengur til þess að hæstv. ráðherra svari henni, en ég mun inna hana eftir svörum við því á morgun í ítarlegri ræðu minni um þessi mál.

Ég vek líka eftirtekt á því að hæstv. ráðherra féllst á að það sem ég hef haft fram að færa um 20. gr. um að hún tengist ekki ríkisfjármálunum. Hún orðaði það svo: Þar má segja, sagði hún, að formaður heilbrn. tali með nokkrum rökum. Ég get ekki annað en dregið af þessu þá ályktun að hún sé mér að allmiklu leyti sammála. Hver er þá niðurstaðan af því ef hæstv. ráðherra hefur rökræna hugsun í lagi, sem ég efast ekki um, að hún fallist á það sem ég hef verið að segja að þetta eigi ekki heima í frv.? Ég ætlast ekki til þess að hún svari því.