Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 18:33:02 (2501)

1996-12-19 18:33:02# 121. lþ. 51.6 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv. 160/1996, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[18:33]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1997. Nál. er á þskj. 326 og brtt. á þskj. 327.

Nefndin hefur fjallað allítarlega um þetta mál og fengið aðila á sinn fund sem getið er á þskj. 326. Nefndin gerir nokkrar breytingartillögur við frv. sem eru í fimm liðum og mun ég gera grein fyrir þeim.

Í 1. lið brtt. er lagt til að upphæðir samkvæmt 1. gr. frv. breytist úr 12 í 11,8 milljarða. Það mun væntanlega verða lögð til frekari breyting á þessari upphæð við 3. umr. Þessi tala tekur mið af því hver verður niðurstöðutala fjárlagafrv.

Í 2. lið brtt. eru lagðar til breytingar við 3. gr. lagafrv. Í fyrsta lagi er lagt til að talan 6.183 millj. kr. lækki í 5.983. Þetta er samtala þeirra liða sem heyra þarna undir. Í b-lið er lagt til að lánasjóðurinn lækki úr 3.970 millj. í 3,8 milljarða. Það er vegna þess að fjárþörf sjóðsins hefur verið endurreiknuð og því er möguleiki á því að lækka þessa tölu.

Í c-lið er gert ráð fyrir því að lántökuheimild vegna Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar lækki úr 1.950 millj. í 1.420. Það er lagt til vegna þess að það stendur ekki til að fara í nýja byggingu á næsta ári. Hins vegar er reiknað með því að lagt verði í breytingar á innritunarsal og önnur tengd verk. Áætlaður kostnaður við þær breytingar nemur allt að 120 millj. og þær breytingar verða fjármagnaðar að hálfu af tekjum flugmálaáætlunar og af hálfu tekjum fríhafnarinnar eða úr ríkissjóði.

Það var rætt allmjög um málefni flugstöðvarinnar í nefndinni. Það er skoðun meiri hlutans að það sé mjög mikilvægt að gengið verði í það að leysa fjárhagsvandræði stöðvarinnar til lengri tíma.

Þá er í d-lið lagt til að við bætist nýr töluliður sem verður þá 6. tölul. og þar komi að það megi lána til iðnaðarsvæðisins á Grundartanga allt að 500 millj. kr.

í 3. lið brtt. er lögð til sú breyting að Landsvirkjun geti tekið allt að 9 milljarða kr. að láni á næsta ári sem er breyting úr 4,8 milljörðum sem voru í frv. Ástæðan fyrir aukinni lánsfjárþörf er áform um virkjanaframkvæmdir á árinu 1997 í þágu fyrirhugaðs 60 þúsund tonna álvers Columbia Ventures Corporation á Grundartanga sem áætlað er að hefji starfsemi um mitt ár 1998 og stækkun Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga sem áætlað er að verði lokið haustið 1999. Nefndin fjallaði ítarlega um þessar fyrirhuguðu framkvæmdir svo sem fram hefur komið í fjölmiðlum. Það er búið að ganga frá meginatriðum samnings milli ríkisins og Columbia Ventures Corporation um málið og allt það sem hefur gerst hefur bent til þess að af þessari framkvæmd verði. Columbia Ventures Corporation er því nú að leita fjármögnunar á fjárfestingu sinni og er áætlað að því verki verði lokið í marsmánuði 1997.

Skilningur nefndarinnar er sá að framkvæmdir við virkjanir muni ekki hefjast nema fyrir liggi verklokaábyrgð vegna byggingar álverksins og er lánsheimildin til Landsvirkjunar veitt í því ljósi. Nefndin mun jafnframt taka málið til umfjöllunar á nýjan leik þegar fjármögnunarvinnu Columbia Ventures Corporation er lokið þannig að hún getur þá lagt mat á stöðu málsins áður en Landsvirkjun hefur framkvæmdir og tekur lán vegna þeirra. Þannig vill nefndinn ganga úr skugga um að þær forsendur standist sem upphaflega eru lagðar til grundvallar lánsheimild til Landsvirkjunar.

Nefndin vekur sérstaklega athygli á því að framkvæmdartími Landsvirkjunar vegna nýs álvers og stækkunar Járnblendiverksmiðjunnar er þrjú ár og framkvæmdakostnaður er alls um 19 milljarðar kr. á vegum Landsvirkjunar. Þetta er að sjálfsögðu áhætta sem nefndin telur að sé hægt að taka. Það sem fyrir liggur er að það verður ekki lagt í virkjanaframkvæmd nema verklokaábyrgð vegna álversframkvæmdanna sé til staðar og jafnframt að hið nýja álver muni geta framleitt á kostnaðarstigi sem liggur fyrir neðan miðju í hópi þeirra álvera sem nú selja framleiðslu sína á álmörkuðum. Það er afar mikilvægt að álverið sé hagkvæmt í rekstri og bendir allt til þess að svo verði og því mun þessi framkvæmd á vegum Landsvirkjunar fyllilega vera áhættunnar virði.

Í 4. lið brtt. er lagt til að í fyrsta lagi fái hafnarsjóður Grundartangahafnar allt að 200 millj. kr. ábyrgð vegna framkvæmda við höfnina. Í öðru lagi er verið að veita Vatnsveitu Akureyrar allt að 2.100 millj. kr. ábyrgð vegna skuldbreytingar eldri lána. Í þriðja lagi er verið að veita lyfjabúð Háskóla Íslands allt að 35 millj. kr. ábyrgð vegna endurbóta á fasteigninni Austurstræti 16. Greinargerðin með þessu er í nefndaráliti meiri hlutans.

Í 5. lið brtt. er lagt til að fjmrh. verði heimilt að ábyrgjast mögulegar skaðabótakröfur vegna notkunar lyfsis Thalidomide. Vegna auka- og hliðarverkana lyfsins afgreiðir framleiðandi þess það ekki nema viðkomandi ríki veiti slíka ábyrgð auk þess sem tilvonandi neytendur eru látnir undirrita skjal þess efnis að þeir muni ekki hafa uppi neinar bótakröfur vegna hugsanlegra aukaverkana lyfsins, hvorki á hendur framleiðanda né ríkissjóði.

Hæstv. forseti. Meiri hlutinn hyggst gera frekari brtt. við 3. umr. Þær felast í því að stilla af töluna í 1. gr. frv. Auk þess er framlenging á heimildum ríkissjóðs til skuldabréfaútgáfu sem tengist starfsemi þess á fjármagnsmarkaði en mun verða mælt fyrir því við 3. umr. málsins.