Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 20:47:55 (2507)

1996-12-19 20:47:55# 121. lþ. 51.6 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv. 160/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[20:47]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. verði líka að hugsa sín mál. Það er alveg greinilegt hvað hér er verið að gera. Það á að nota persónuafsláttinn sem skiptimynt í samningum. Það er alveg augljóst og þarf ekkert að vera að bera á móti því. Það er upplegg ríkisstjórnarinnar við þessa útfærslu því það hefur ekki verið gert áður með þessum hætti að persónuafsláttur og barnabætur verða óbreyttar. Það er dýrara að láta börn komast af á næsta ári heldur en á þessu ári vegna þess að það er verðbólga í landinu, herra forseti, sem hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni ætti að vera ljóst. Það þarf ekki að ræða það, þetta er alveg augljóst.

Hitt málið sem hann nefndi og ég hef dregið fram í dagsljósið er varðandi 6 milljarða tekjuaukningu ríkissjóðs á þessu ári. 4 milljarðar af því eru vegna aukningar á tekjuskatti einstaklinga. (Gripið fram í.) Það er vegna þess að tekjur í landinu hafa hækkað verulega á þessu ári. Mun fleiri einstaklingar lenda í hærra skattþrepi en áður. Það er á sama tíma og við þurfum að endurmeta ríkisstjórnaráætlanir. Í hvert skipti sem kemur að endurskoðun þarf að hækka tekjuskatt einstaklinganna. En á sama tíma þarf alltaf að endurmeta tekjuskatt fyrirtækjanna. Hvar er góðærið gagnvart þeim? Af hverju borga þau þá ekki hærri tekjuskatt fyrst það er svona mikið góðæri og tekjuaukning í landinu? Það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur haft þá stefnu að láta einstaklingana bera þyngri hlut af útgjöldum ríkisins á sama tíma og hún léttir þessum útgjöldum af fyrirtækjunum. Það hefur verið lykilatriði í stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún á bara að standa hér upp og segja: Þetta hefur verið okkar stefna. Hún hefur gengið upp. Það eru meiri álögur á einstaklinga núna heldur en var fyrir einu og hálfu ári þegar þeir tóku við og það eru léttari álögur á fyrirtækin heldur en þau voru fyrir einu og hálfu ári. Þetta hefur verið stefnan og þannig hefur hún komið fram og þeim hefur tekist þetta ætlunarverk sitt.

Við í stjórnarandstöðunni erum andvígir þessari stefnu, en það eru tölurnar sem tala sínu máli um stefnu ríkisstjórnarinnar. Þessi aðferð að koma svona lúalega aftan að launþegum í sambandi við þá kjarasamninga sem menn eiga eftir að gera í janúar/febrúar finnst mér vera fyrir neðan allar hellur, herra forseti.