Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 20:50:12 (2508)

1996-12-19 20:50:12# 121. lþ. 51.6 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv. 160/1996, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[20:50]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu hefur verið beint til mín nokkrum fyrirspurnum sem ég vil leitast við að svara þar sem ég hygg að það sé komið nokkuð nærri lokum umræðunnar. (SJS: Það er nógu mikið eftir.) Já, hvort sem það er nú óskhyggja eða ekki, þá leyfi ég mér að vona það.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi hér, eins og reyndar hv. síðasti ræðumaður, um tekjuskatt af fyrirtækjum. Reyndar svaraði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sjálfum sér þegar hann benti á þær skýringar sem fram hafa komið um breytingar á áætlun vegna tekna af tekjuskatti fyrirtækjanna. En það má ekki gleyma því að fyrir einu eða tveimur árum síðan, samkvæmt ríkisreikningi, voru tekjur af tekjuskatti fyrirtækja einungis rúmir 3 milljarðar. Í áætlun yfirstandandi árs og reyndar í áætlun sl. árs voru þannig verulegar hækkanir sem komu fram í tekjuskatti fyrirtækjanna svo mjög miklar að stjórnarandstæðingar á þeim tíma bentu á að það hlyti að hafa verið vanáætlaðar tekjurnar af sköttum á fyrirtækin. Þannig var það fyrir ári síðan. Nú snýst málflutningurinn alveg við. Það er alveg rétt hjá hv. stjórnarandstæðingum að það þarf að breyta þessum áætlunum vegna þess að sjálfsagt hefur það gerst við undirbúning fjárlagagerðarinnar að menn hafa áætlað nokkuð ríflega tekjuskattinn. Við höfum verið að breyta núna fyrir næsta ár og um það hefur verið fjallað í umræðunum um tekjuskatt og eignarskatt fyrr á haustþinginu. Verið er að gera breytingar á lögunum um tekjuskatt fyrirtækja. Þar á meðal er verið að lengja í fyrningarfresti og gefa meiri sveigjanleika til þess að fyrirtækin geti lagað afkomu sína innan hagsveiflunnar á hverjum tíma og einnig með því að lengja heldur í yfirfæranlegum tapsfrádrætti. Þetta verða menn að hafa í huga. Og alveg eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson benti réttilega á, þá hefur það gerst hér á landi, og sjálfsagt er það eitt mesta afrek þeirrar stjórnar sem þá sat, að hafa lagað þannig stöðu fyrirtækjanna að hér framkallaðist ekki nálægt því eins mikið atvinnuleysi og í nágrannalöndunum sem hafa svipaða uppbyggingu, eins og önnur lönd á Norðurlöndum og einnig hitt að núna hafa fjárfestingar þessara fyrirtækja aukist svo mikið að fjárfesting hér á landi, sem hefur legið í láginni á nokkrum undanförnum árum, hefur tekið slíkan kipp að á næsta ári er gert ráð fyrir því að fjárfestingarhlutfall af vergri landsframleiðslu fari upp fyrir meðaltalið hjá OECD ef okkur tekst að laða til okkar það álver sem um hefur verið rætt.

Hv. þm. vék síðan að virðisaukaskattinum og fannst bogið við það hvernig áætlanir hefðu lækkað varðandi virðisaukaskattinn. Þá verð ég enn að rifja upp að á síðari hluta ársins í fyrra kom í ljós einmitt um það leyti sem fjárfestingar voru að aukast í fyrirtækjunum að virðisaukaskatturinn skilaði nettó inn í ríkissjóð minna en búist hafði verið við á árinu 1995. Þegar verið var að áætla fyrir árið 1996 var sett inn í tekjuáætlun fjárlaga yfirstandandi árs veruleg upphæð til viðbótar vegna þess að menn töldu að það væri skammtímatöf í kerfinu. Nú kemur í ljós á yfirstandandi ári að töfin er lengri.

Nú gætu menn spurt: Hvernig stendur á því að menn geta ekki reiknað þetta einfaldlega út í fjmrn.? Ástæðan er sú að þetta kerfi er nýtt og í raun og veru höfum við aldrei búið fyrr við virðisaukaskattskerfi með innskatti og útskatti í uppsveiflu þar sem fjárfesting hefur verið að aukast. Þetta er áreiðanlega meginskýringin á því hvers vegna virðisaukaskatturinn er minni samkvæmt þessari tekjuáætlun heldur en gert hafði verið ráð fyrir. Ég minni á að áætlunin fyrir yfirstandandi ár var stórkostlega aukin vegna þess að menn bjuggust við því að þetta mundi skila sér. Nú er verið að leiðrétta til baka. Ég verð hins vegar að segja það eins og hv. þm. að mér finnst full ástæða til þess, og hef gert ráðstafanir til þess að það verði gert, að kanna þetta mjög nákvæmlega með því að gera stikkprufur hjá virðisaukaskattsgreiðendum og kanna hvort hér sé eingöngu á ferðinni auknar fjárfestingar eða hvort skýringanna er að leita í því yfirliti sem er að finna á bls. 265 og 266 í fjárlagafrv. þar sem eru gefnar einar þrjár eða fjórar skýringar á því hvernig á þessu getur staðið. Ég tek undir það með hv. þm., og reyndar öðrum hv. þingmönnum sem hafa rætt þetta mál, að það er fyllsta ástæða fyrir skattyfirvöld og fjmrn. að fylgjast mjög náið með því hvaða breyting er að eiga sér stað í virðisaukaskattinum.

Ég vil taka það fram að þetta er ekki bundið við Ísland. Það virðist hafa gerst og vera alþjóðleg þróun að menn eru annaðhvort að læra betur á þessa skattheimtu, koma fjárfestingunum og innskattinum sem fer til frádráttar betur fyrir. Þetta þarf auðvitað að kanna mjög rækilega og ég tek undir það. Það er skylda yfirvalda að reyna að komast til botns í því máli. Þó meginskýringin sé náttúrlega ljós, þá kunna að vera aðrar skýringar einnig sem við þurfum að leita eftir að geta svarað.

Hv. þm. spurðist síðan fyrir um það hvort tekjuáætlun fjárlaga stæðist. Ég hygg að það sé erfitt að svara þeirri spurningu nú. Þetta er áætlun og verður ekkert nema áætlun. Það sem á eftir að hafa áhrif á þessa áætlun er fyrst og fremst tvennt: Annars vegar kjarasamningar og hins vegar fjárfestingar erlendra aðila sem hugsanlega koma hingað til landsins. Hvort tveggja getur haft veruleg áhrif á tekjuáætlun fjárlaga. Kjarasamningar vegna þess að ef um verulegar tekjubreytingar verður að ræða hjá fólki mun það örugglega framkalla meiri tekjur eins og hér hefur verið bent á. Og í raun alveg burt séð frá því hvort einhver innstæða er til þess að greiða slík laun þá mun ríkissjóður hagnast á því ef tekjur einstaklinga munu hækka verulega á næsta ári. Eins er ljóst að ef um væri að ræða fjárfestingar við orkuver og iðjuver, þá mun það auðvitað auka veltu. Það mun þess vegna auka skatta. Þótt erfitt sé að gera nákvæmlega grein fyrir því, þá hygg ég að það megi slá á tölur eins og 500 millj. til 1 milljarðs eða einhvers staðar á því bili ef af því verður. Þetta er allt reyndar innan skekkjumarka þegar það er haft í huga að við erum að tala um heildarupphæð sem er vel yfir 100 milljarðar, kannski 120 milljarðar kr. Menn sjá að hér er verið að tala um eitthvað innan við 1% af heildartölunni.

Síðan kem ég að því sem menn hafa gert mest úr og af því að umræða hefur orðið nokkur um skattamál undir þessum lið, sem kannski er ekkert óeðlilegt og ekkert við því að segja. Menn hafa verið að halda því fram að það sé verið stela einhverju af fólki, það sé verið að stela einhverju og hækka skatta viljandi á fólki. Annaðhvort er vísvitandi verið að beita blekkingum eða þá fólk áttar sig ekki á því hvað er að gerast. Það sem málið snýst um er ósköp einfaldlega að í stað þess, sem hugsanlega var hægt, að hækka persónuafsláttinn um 2% sem nemur um það bil áætlaðri verðbreytingu á milli ára, er hugmyndin sú að það verði kannað með hliðsjón af starfi nefndar sem fjallar um jaðarskattinn m.a. hvort skila eigi skattinum til baka í persónuafslætti og öðrum afsláttum eða með því að draga úr tekjutengingu í skattkerfinu. En það liggur algerlega fyrir, þótt annað sé gefið í skyn og nú heyrði ég síðast einn af verkalýðsforkólfum þessa lands, formann Rafiðnaðarsambandsins fjalla um þetta mál, mér liggur við að segja af slíkri fáfræði að annað eins hefur bara ekki heyrst lengi, að það er áætlað að þessu sé skilað og þess vegna eru tekjurnar í tekjuáætluninni ekki hækkaðar upp að sama skapi. Hvað felst í því? Í því felst yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og reyndar meiri hlutans, verði fjárlögin samþykkt eins og þau eru, að þessu fjármagni verði skilað. Það liggur fyrir.

[21:00]

Annars hefðum við auðvitað sett þetta inn í tekjuáætlunina, hækkað hana um 800 millj. og komið út með fjárlög sem hefðu skilað meiri afgangi en gert er ráð fyrir. Því miður er sá afgangur allt of lítill. Þetta verða menn að hafa algerlega í huga. Svo segja menn: Það er verið að selja eitthvað tvisvar eða þrisvar. Það er alveg hárrétt að þegar rætt var um hlutabréfaafsláttinn voru okkar áætlanir á þann veg að reyna að nýta þá fjármuni sem þar spöruðust fyrir jaðarskattanefndina. Nú vita hv. þingmenn, sérstaklega þeir sem töluðu áðan, að fyrstu hugmyndir ríkisstjórnarinnar sem komu fram í því frv. urðu ekki að lögum. Vegna þess að menn ákváðu að fresta því að draga niður hlutabréfaafsláttinn af þeim ástæðum að menn töldu að það stæðist kannski ekki lög vegna afturvirknissjónarmiða. Þess vegna gerist það á næsta ári að menn geta ekki nýtt þann sparnað sem þá verður. Það liggur náttúrlega alveg í augum uppi, enda hefði hann aldrei komið fram fyrr en 1998, menn hljóta að sjá það og sá sparnaður, eða meiri tekjur ríkisins, verða ekki til ráðstöfunar fyrr en í fyrsta lagi á árunum 1998--2000 þegar þetta kemur inn í nokkrum þrepum. Þetta bið ég menn að hafa í huga.

Ég vil benda á það líka að í umræðum í þessari svokölluðu jaðarskattanefnd hafa menn verið að velta fyrir sér fleiri atriðum. Þar hafa menn verið að velta því upp hvort ekki eigi að skoða aðra afsláttarliði. Ég tel eðlilegt að það gerist. Menn hafa líka verið að kanna hvort ástæða sé til þess að skattleggja bæturnar í skattkerfinu vegna þess að með því fengju menn ekki þessi snöggu jaðaráhrif sem nú eru í kerfinu. Þetta hefur verið skoðað af hagfræðingum sambandanna á vinnumarkaði og eins fjmrn. til þess að kanna hvort við gætum eytt jaðaráhrifunum eða a.m.k. mýkt þau með slíkum aðgerðum.

Ég vil enn fremur benda á að menn hafa jafnframt verið að kanna í þessu kerfi hvort ástæða sé til þess að hafa þrep í tekjuskattinum, hverfa jafnvel alveg frá persónuafslættinum en hafa tvö eða þrjú þrep. Vandamálin við það eru hins vegar svo mikil að ég tel að það sé meira en að segja það vegna þess að með því erum við nánast að koma í veg fyrir það að hægt sé að greiða tekjuskatt í staðgreiðslu. Eins og allir muna sem voru á þingi þegar verið var að breyta tekjuskattslöggjöfinni, þá var það meginatriðið til þess að hægt væri að taka upp staðgreiðslu í tekjuskattinum að skattþrepið væri eitt. Nógu erfitt væri að halda úti svokölluðum hátekjuskatti sem er lagður á, þ.e. 5% fyrir ofan ákveðin tekjumörk. Þetta finnst mér vera ástæða til þess að minna á af því að ég heyrði í útvarpinu að menn eru ekki alveg klárir á þessu hvað eru tekjur og gjöld. Það er ekki verið að tala um að stofna til útgjalda. Það er verið að tala um að lækka tekjur þegar við erum að tala um þennan skatt.

Það er þannig í bókhaldi fjárlaganna að það eru nettótölur bæði gjalda- og teknamegin og allir afsláttar- og frádráttarliðir í tekjuskattskerfinu koma fram sem lægri tekjur en ekki sem útgjöld þótt það kunni að breytast að nokkru marki ef fjárreiðufrv. verður að lögum. Það er rangt sem kom fram í útvarpinu að það ætti að auka útgjöld sem þessu nemur. Menn eru að tala um að lækka tekjur sem þessu nemur. Það er mikilvægt að þeir sem fjalla um þessi mál, hvort sem þeir eru á fjölmiðlum eða á þingi, glöggvi sig á svona hlutum því að hér er um flókna hluti að ræða og viðkvæma og það er auðvitað ekki gott þegar menn eru að koma röngum skilaboðum út í þjóðfélagið. Af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fjallar af dálítilli léttúð um þessi mál, eins og það sé í fyrsta skipti sem menn eru að tala um persónuafsláttinn, þá langar mig til að rifja það upp hvernig þetta var þegar hann var í ríkisstjórn. (Gripið fram í: Gerðu það.)

Það er nefnilega þannig (Gripið fram í.) að í frv. til fjárlaga --- ég heyri að hv. þm. verður heldur ókyrr í sæti sínu, já, já, það heyrist, það brakar í stólnum. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 var fjallað mjög ítarlega um þetta mál. Þar er rifjað upp hvað gerðist í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar á árunum 1988--1991. Og Steingríms Sigfússonar. Það sem gerðist þá var að skatthlutfallið jókst um 4,3%. Og hvað gerist þegar skatthlutfallið hækkar? Það sem gerist þá, ef persónuafslátturinn er fastur eða fylgir eingöngu verðlagi, er að þá dragast frítekjumörkin niður. Þetta er augljóst. Með því að hækka tekjuskattinn stórkostlega, halda persónuafslættinum á verðlagsbreytingum en engu öðru, þá breytti sú ríkisstjórn sem þá sat skattleysismörkunum gífurlega. Svo segja menn: En hvað hefur síðan gerst? Hvað hefur gerst í fjármálaráðherratíð þess sem stendur hér? Hefur ekki skatthlutfall tekjuskattsins stórkostlega hækkað? Við skulum kanna það.

Skatthlutfallið hækkaði um 0,35% þegar virðisaukaskatturinn var tekinn af matvælum, úr 24,5% niður í 14, 0,35%, en síðan kom fram 1,7% lækkun þegar það var ákveðið að 4% iðgjöldin í lífeyrissjóðina yrðu frádráttarbær. Það sem núv. ríkisstjórn hefur með öðrum orðum gert í tekjuskattinum er að lækka tekjuskattshlutfallið. Hins vegar hefur það gerst að útsvörin hafa hækkað. Og af hverju hækkuðu útsvörin? Vegna þess að við tókum af sveitarfélögunum tekjustofna eins og aðstöðugjaldið, en bættum þeim upp að stórum hluta til í gegnum útsvarið.

Það er ekki víst að allir átti sig á því að þótt ríkið taki þrisvar sinnum hærra hlutfall í staðgreiðslunni en sveitarfélögin, þá fá sveitarfélögin hér um bil helmingi hærri tekjur úr staðgreiðslunni heldur en ríkið nettó. Ríkið þarf að greiða sveitarfélögunum til baka útsvar af öllum tekjunum, líka þeim tekjum sem liggja undir skattleysismörkunum, sem ríkið fær frá fólki sem koma fyrir ofan skattleysismörkin. Þetta er meginskýringin. Nú þegar það er að gerast vegna yfirfærslu grunnskólans að útsvarið er að hækka verulega og tekjuskatturinn er aftur að lækka, ég hef ekkert fjallað um það, þá erum við komin í alveg nýja stöðu í tekjuskattsmálum þjóðarinnar.

Ég bið menn um að hugleiða að það kann að vera svo komið nú að nauðsynlegt sé að staldra við, íhuga hvort við séum á réttri leið og hvort þessi tekjustofn sé til framtíðar nægilega góður fyrir ríkið. Vegna þess, virðulegi forseti, að íslenska skattkerfið er svo gífurlega tekjujafnandi að eftir því sem hlutföllin lækka hjá ríkinu, þeim mun erfiðara er að koma allri tekjujöfnun til skila án þess að jaðaráhrifin verði óþolandi. Þetta þurfa menn að ræða við aðila vinnumarkaðarins og það hefði verið fyllsta óráð að ríkisstjórnin tæki fram fyrir hendur á nefndinni og ákvæði nú: Við skulum bara hækka persónuafsláttinn um 2%. Það var miklu eðlilegra, þrátt fyrir það að engar launabreytingar hefðu orðið í landinu, að líta þannig á: Við skulum bíða en við gefum út þá yfirlýsingu að jafngildi þessarar fjárhæðar mun fara í að lækka tekjuskatta.

Það er auðvitað snjallt í áróðrinum að segja: Sjáið þið fjmrh. Hann er þjófur. Hann er að stela. Hann er að hækka skattana. En menn verða að vera sanngjarnir og viðurkenna það sem er staðreyndin í þessu máli og það er að í fjárlagafrv. er ákvæði um að skila þessum fjármunum til baka og því er lýst og það hefur enginn dulið neinn nokkurs í þessu máli.

Þetta held ég, virðulegi forseti, að sé nauðsynlegt að komi fram vegna þess hve umræðurnar hér hafa orðið miklar um tekjuskattinn. Ég vil hins vegar í lokin þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu. Út af fyrir sig ætla ég ekki að bera mig undan því að taka þátt í henni. Hún er mikilvæg, en það er jafnframt afar mikilvægt að hinir réttu hlutir komist skýrt til skila en valdi ekki upplausn og óánægju þegar engin þörf er á slíku.