Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 21:10:29 (2509)

1996-12-19 21:10:29# 121. lþ. 51.6 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv. 160/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[21:10]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil að það sé alveg ljóst í þessari umræðu að hæstv. fjmrh. er að slá ryki í augun á fólki í sambandi við sína framsetningu. Fyrir ári lagði þessi ríkisstjórn fram frv. um að hækka persónuafslátt, barnabætur, barnabótaauka og fleiri liði sem tengjast álagningu skatta. Hún gerði það vitaskuld svipað og launin, sama ákvörðun og hefur oft verið tekin í íslensku þjóðlífi. Nú hækkar ríkisstjórnin ekki barnabætur. Við skulum láta persónuafsláttinn aðeins liggja á milli hluta. Hún hækkar ekki barnabótaukann. Þetta eru einfaldar tölur sem fólkið fær. Það fær sömu barnabætur og barnabótaauka á næsta ári og á þessu ári þrátt fyrir verðbólgu. Fjmrh. segir, og ég ætla ekkert að efast um það: Ég ætla að skila þessu aftur. Ég tel mig þurfa að eiga svigrúm við samninga. Það verðum við að draga fram. Fjmrh. er að gera þetta í fyrsta skipti, hann gerði þetta ekki í fyrra þó það væru samningar. Hann er núna að leggja inn til að eiga fyrir kjarasamningunum sínum og koma að þeim eins og hann lýsti hér áðan.

Ég hef áhyggjur af því, og það getur vel verið að fjmrh. sé ekki sammála mér í því, hvað tekjuskatturinn er orðinn hár í okkar þjóðfélagi. Hann er 43 milljarðar. Það fara í kringum 23 til ríkisins og 20 til sveitarfélaganna og svo getur maður fært 6 milljarðana á milli í sambandi við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Þar eru 16--17 milljarðar en það er eðlilegt við samanburð milli ára að bæta við 6 milljörðum vegna þessa flutnings því að skattur ríkisins hefur náttúrlega lækkað. Um þetta þurfum við í sjálfu sér ekki að deila. Ég hef hins vegar áhyggjur af þessu. Tekjuskatturinn er orðinn næstum jafnhár og virðisaukaskatturinn. Fólk er að lenda í hærra skattþrepi og hærri jaðarsköttum. Þetta mun hugsanlega leiða til þess að fólk fari meira í neðanjarðarhagkerfið. Við í þingflokki jafnaðarmanna erum að vinna að tillögum til að takast á við þennan vanda. Ef til vill er fjmrh. að því líka en það var ekki það sem málið snerist um hér.