Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 21:57:56 (2520)

1996-12-19 21:57:56# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[21:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða hinn illræmdi fallskattur Björns Bjarnasonar, hæstv. menntmrh., sem hæstv. ráðherra hefur reyndar reynt að bera á móti að sé slíkur fallskattur, en enn hefur ekki tekist að sanna að það séu ekki aðallega þeir sem falla á prófum sem þurfa að endurtaka þau. (ÖS: Hann féll á því prófi.) Ég held, herra forseti, að það hljóti að vera leitun að annarri eins hugkvæmni í skattlagningu yfirleitt um lönd og álfur bæði innan lands og utan eins og segir í lánsfjárlögunum, að skattleggja sérstaklega námserfiðleika, að skattleggja sérstaklega aðstöðu þess fólks sem af einhverjum ástæðum ræður ekki við áfanga í sínu námi og þarf að endurtaka þá. Ég óska hæstv. menntmrh. innilega til hamingju með það að eiga höfundarréttinn að þessu merka fyrirbæri, þessum fallskatti, og segi nei.