Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 22:15:52 (2532)

1996-12-19 22:15:52# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[22:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta er fráleit lagasetning sem hér er að eiga sér stað. Í raun og veru er verið að fela hæstv. heilbrrh. með þessari einu grein svo mikið og víðtækt alræðisvald að það mætti að ósekju fella niður öll önnur lagaákvæði um heilbrigðismál úr lagasafninu því hér eftir ræður heilbrrh. því sem hann vill ráða um heilbrigðismál. Þessi afgreiðsla er enn fráleitari í ljósi þess að yfir vofir óútskýrður niðurskurður upp á tugi millj. kr., til að mynda 60 millj. kr. á sjúkrahúsum á landsbyggðinni á næsta ári. Það er með ólíkindum að það skuli eiga að bjóða Alþingi upp á að afgreiða málin þannig að niðurskurðurinn sé ákveðinn fyrst og síðan standi til að reyna að útfæra hann einhvern veginn og ganga í leiðinni frá alræðisvaldi til handa hæstv. heilbrrh. til að gera það sem hæstv. ráðherra sýnist í þessum efnum. Þetta eru fullkomlega óeðlilegir stjórnsýsluhættir. Þetta er ómannúðleg framkoma við það fólk sem starfar á þessum stofnunum. Ég segi mjög harkalega nei, herra forseti.