Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 22:47:39 (2537)

1996-12-19 22:47:39# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[22:47]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum við frv. til laga um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins, 108. mál. Breytingartillögurnar eru á þskj. 432 og nefndarálitið á þskj. 431. Við venjulegan meiri hluta í efh.- og viðskn. hefur bæst liðsauki í þessu máli og einn hefur gengið úr skaftinu því að undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Ágúst Einarsson, með fyrirvara, Gunnlaugur Sigmundsson, Steingrímur J. Sigfússon, Valgerður Sverrisdóttir, Jón Baldvin Hannibalsson, með fyrirvara, Einar Oddur Kristjánsson, með fyrirvara, og Árni R. Árnason.

Ég geri nú grein fyrir þeim breytingartillögum sem þessi meiri hluti leggur til við frv. en fyrst vil ég fjalla aðeins almennt um þau sjónarmið sem liggja að baki þeim breytingum sem gerðar eru tillögur um í frv. Gengið er út frá þeirri meginforsendu að kostnaður ríkissjóðs við nýja lífeyriskerfið verði jafnmikill og kostnaður við núverandi kerfi. Nú er staðan sú að kostnaður við myndun lífeyrisskuldbindinga er færður til gjalddaga í ríkisreikningi. Enn fremur er í efnahagsreikningi ríkissjóðs gerð grein fyrir þeim skuldbindingum sem á ríkinu hvíla vegna lífeyrisréttinda starfsmanna. Fyrir Alþingi liggur frv. um fjárreiður ríkissjóðs þar sem gert er ráð fyrir því að í fjárlagafrv. og fjárlögum hverju sinni verði talin til gjalda myndun lífeyrisskuldbindinga sem hvíla á ríkissjóði. Þetta mun því koma fram á fjárlögum og hækka gjöld ríkissjóðs. Því liggur fyrir að við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni mun kostnaður ríkissjóðs af lífeyriskerfi starfsmanna sinna verða sýnilegur og iðgjaldaþörf ríkissjóðs vegna þessara lífeyrisréttinda liggja fyrir á hverjum tíma. Það hljóta því að verða verkefni okkar þingmanna á næstunni að endurskipuleggja núverandi lífeyrissjóðakerfi með þeim hætti að það sé gengið formlega frá skuldbindingum ríkissjóðs við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og að undirbúa að greitt verði í sjóðinn, sem fylgir núv. kerfi, samhliða myndun skuldbindinganna.

Í 1. lið brtt. eru gerðar tillögur til breytinga á 3. gr. frv. eins og getið er á þskj. 432. Í a-lið eru lagðar til orðalagsbreytingar á 1. efnismgr. og smávægilegar breytingar á 2. mgr. í b-lið. Í c-lið að í 3. mgr. komi nánari ákvæði sem kveði á um að um aðild skuli fjallað í samþykktum sjóðsins.

Nefndin fjallaði ítarlega um 3. gr. frv. með tilliti til athugasemda sem fram höfðu komið þess efnis að 4. mgr. hennar kynni að opna fyrir víðtækari aðild að sjóðnum fyrir starfsmenn sem ekki eru í stéttarfélögum opinberra starfsmanna en nú. Samkvæmt því sem fram hefur komið og upplýst hefur verið er megintilgangur 4. mgr. fyrst og fremst sá að tryggja ýmsum þeim áframhaldandi aðild að sjóðnum sem nú greiða til hans en eru ekki í stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Er þar m.a. um að ræða ýmsa starfsmenn ríkisins og ríkisstofnana sem hafa ákveðið að vera utan stéttarfélaga og hafa á grundvelli ákvæða í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna selt það í hendur fjmrh. að ákveða launakjör sín. Falla þeir því hvorki undir 1. né 3. mgr. 3. gr.

Enn fremur er þessu ákvæði ætlað að taka til starfsmanna ýmissa aðila, hálfopinberra stofnana og samtaka sem samkvæmt 4. gr. núgildandi laga hafa fengið heimild til að vera í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Núverandi starfsmönnum þessara aðila er tryggð áframhaldandi aðild að B-deild sjóðsins með 5. mgr. 4. gr. og þeir sem eru innan opinberra stéttarfélaga en eiga kost á aðild að A-deildinni samkvæmt 3. mgr. 3. gr. Hluti starfsmanna þessara aðila er hins vegar utan opinberra stéttarfélaga og ætti því ekki kost á að færa sig í A-deild sjóðsins.

Tilgangur ákvæðis 4. mgr. 3. gr. er þannig fyrst og fremst að tryggja sömu aðild að sjóðnum og áður var og koma í veg fyrir misræmi innan stofnana sem hafa verið aðilar að sjóðnum. Þær takmarkanir sem málsgreinin setur gera það að verkum að ekki á að vera hætta á að skörun verði á aðildarrétti gagnvart lífeyrissjóðum almennu stéttarfélaganna. Samkvæmt lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, er félögum í þeim skylt að vera í lífeyrissjóði innan sinnar starfsstétta. Málsgreinin útilokar þannig aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins fyrir einstaklinga úr stéttarfélögum með lögbundna lífeyrissjóðsaðild. Þá áskilur greinin samþykki viðkomandi launagreiðenda. Má því telja ljóst að málsgrein þessi breytir ekki núverandi aðildarrétti að neinu marki.

Í 2. lið brtt. eru gerðar tillögur til breytinga á 4. gr. Þar er lagt til að vilji sjóðfélagar í B-deild sjóðsins flytja sig yfir í A-deild þurfi þeir að hafa tilkynnt sjóðnum þá ákvörðun sína að skipta um deild fyrir 1. desember 1997.

Í 3. lið brtt. er gerð tilraun til breytinga á 7. gr. þess efnis að stjórn lífeyrissjóðsins skuli móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Þetta er sérstaklega mikilvægt vegna þess að réttindin sem sjóðnum er ætlað að standa undir eru bundin, en iðgjaldaprósentan ákveðin með hliðsjón af þeim og þess vegna er nauðsynlegt að sjóðurinn sé ávaxtaðar eins hagkvæmt og unnt er.

Í 4. lið brtt. er verið að gera leiðréttingar vegna þess að í frv. hafði láðst að tilgreina tvær greinar sem falla brott vegna ákveðinna starfsmanna sem eru starfsmenn Sjúkrahúss Reykjavíkur en störfuðu áður hjá St. Jósefsspítala í Reykjavík.

Í 5. lið brtt. er fjallað um að sjóðfélagar og launagreiðendur þeirra beri eigi ábyrgð á skuldbindingum deildarinnar er nemi iðgjöldum sínum. Þetta þýðir að sú ákvörðun sem tekin er á hverjum tíma um iðgjöld til sjóðsins og greiðslu samkvæmt því fullnustar þeirri ábyrgð sem á launagreiðendum og sjóðfélögum hvíla á hverjum tíma. Komi til þess að sjóðnum verði lokað fylgir því engin frekari ábyrgð.

Í 6. lið brtt. er fjallar um 27. gr. Þar er gert ráð fyrir því að frestunarprósenta, sem lýsir því hversu mikið lífeyrir hækkar við að fresta lífeyristöku frá 65 ára aldri upp að allt að 70 ára aldri, lækkar úr 0,8% í 0,5%. Þessi breyting er nauðsynleg með hliðsjón af því markmiði sem í upphafi var getið, að hið nýja fyrirkomulag mundi kosta ríkissjóð það sama og núverandi fyrirkomulag. Því er nauðsynlegt að lækka þessa prósentu úr 0,8 niður í 0,5.

Í 8. lið brtt. er ákvæði til bráðabirgða sem tengist þessu ákvæði í 6. lið sem segir: ,,Eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku laga þessara skal stjórn sjóðsins ákvarða nýja hækkunarprósentu skv. 4. mgr. 15. gr. laganna í samræmi við tillögur tryggingafræðinga, þó aldrei hærri en 0,8%. Við þá tillögugerð skal viðbótarkostnaður vegna tilfærslu sjóðfélaga úr B-deild sjóðsins í A-deild skv. 4. og 5. mgr. 4. gr. laganna útreiknaður og metinn til breytingar á annars ákveðinni prósentu.`` Ég vek athygli á þessari brtt., hæstv. forseti, sem tengist brtt. í 6. lið.

Í 7. lið brtt. er breyting á 28. gr. þar sem orðið ,,ekki`` er fellt niður en það hafði gerbreytt þeirri meiningu sem upphaflega var ætlað að væri í textanum. Síðan er í b-lið tilvísunarbreytingar.

Í 8. lið eru ákvæði til bráðabirgða. Annað hef ég skýrt en hitt ákvæði til bráðabirgða segir að iðgjald launagreiðanda í A-deild sjóðsins skuli vera 11,5% á árunum 1997--1999. Þetta er til þess að koma í veg fyrir það að iðgjaldaprósentan verði fyrirsjáanlega ákveðin allt upp í 18% þegar sjóðurinn tekur til starfa í stað þeirra 15,5% sem menn telja að sé iðgjaldaprósentan til lengri tíma út frá forsendum um 3,5% vexti. Með þessu er reiknað með því að á næstu þremur árum muni það margir nýir starfsmenn ganga til liðs við sjóðinn og einnig að hærri ávöxtun heldur en viðmiðunarávöxtun gerir ráð fyrir verða til þess að prósentan sem verður ákveðin eftir þrjú ár verður í námunda við þau 15,5% sem gengið er út frá í reikningum um sjóðinn.

Í 9. lið brtt. er ákvæði um fjárfestingarstefnu Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga og það er til samræmis við fjárfestingarstefnu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

[23:00]

Í 10. lið brtt. eru tillögur um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga sem eru samhliða samsvarandi breytingum sem gerðar eru vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ágúst Einarsson og Jón Baldvin Hannibalsson skrifa undir þetta álit með fyrirvara sem gerð er grein fyrir í nefndarálitinu en ég vænti þess að þeir munu gera frekari grein fyrir sínum fyrirvörum. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ritar einnig undir álitið með fyrirvara og mun gera væntanlega grein fyrir því síðar í umræðunni.