Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 23:01:12 (2538)

1996-12-19 23:01:12# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, PHB
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[23:01]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna. Skuldbinding þessara tveggja sjóða ásamt skuldbindingu Lífeyrissjóðs þingmanna og ráðherra óx um 9 milljarða á árinu 1995 eða 25 millj. á dag eða 1 millj. á klukkutíma dag og nótt, sunnudaga sem aðra daga. Svo eru menn að ræða hér um einhvers konar tölur fyrir refaveiði, 9 millj., þ.e. sem sagt níföld aukning af skuldbindingunni. Það er einkennandi fyrir vinnubrögð hv. Alþingis að þetta frv. er tekið til 2. umr. kl. 11 að kvöldi og á að ræðast um nótt, þetta frv. sem að mínu mati skiptir verulegu máli.

Í blaðagrein gat ég þess að þessi skuldbinding væri meira en verðmæti fasteignamats allra íbúða og bílskúra frá Borgarnesi vestur til Vestfjarða, allt Norðurlandið, Akureyri meðtalin, Austurlandið og svo vestur til Víkur í Mýrdal.

Ég fékk fyrirspurn um daginn á internetinu um það hvenær afhending íbúðanna hæfist. Ég svaraði því til að fyrst þyrftu íbúarnir að borga niður skuldirnar vegna þess að þessi skuldbinding á við skuldlausar eignir. Þetta er auðvitað grátt gaman en lýsir því hve stór skuldbindingin er. Fyrir þessa skuldbindingu mætti byggja 10 álver. Þetta er eins og verðmæti 4--5 Landsvirkjana svo þetta er ekki lítið mál.

Þessi áfallna skuldbinding er 4.000 millj. kr. á ári í 40 ár. Niðurstaða tryggingafræðinganna sýndi að þetta er nokkurn veginn stöðug tala, 4.000 millj. kr. í 40 ár. Við erum sem sagt búin að veðsetja börnin okkar fram til ársins 2035 og þá eru 25 milljarðar eftir. Þetta eru tölurnar án vaxta og svo er þetta vaxtað niður með 3,5% vöxtum og þannig fáum við út 110 milljarða.

Við erum flækt í neti loforða og skuldbindinga. Við getum ekki lækkað vinnuletjandi skatta, jaðarskatta svokallaða, þetta er vítahringur. Við erum búnir að lofa svo miklu með erlendum skuldum, með þessum skuldbindingum og öðrum skuldbindingum að við getum okkur ekki hreyft. Þetta er ákveðinn vítahringur og þetta skerðir samkeppnisstöðu Íslands. Þessar 4.000 millj. kr. eru tæp 20% af launum þeirra sem greiddu í þessa sjóði, 20% af dagvinnulaunum er þessi skuldbinding á hverju ári.

Hver vinnandi Íslendingur, kjósendur okkar hv. þm., skuldar Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins 850 þús. kr. Þetta eru skattar sem gleymst hefur að innheimta, en auðvitað verður það gert fyrr en seinna því að menn eru allir sammála um að þessi skuldbinding sé lögvarinn eignarréttur opinberra starfsmanna. Þetta verður greitt. Hver opinber starfsmaður á 3--4 millj. inni hjá ríkinu. Reyndar kom fram í tryggingafræðilegu úttektinni að 300 opinberir stafsmenn eiga meira en 20 millj. í skuldbindingum hjá ríkinu. Það er eins og skuldfrítt, gott og stórt einbýlishús. Það er ekki lítið. Reyndar voru 130 með yfir 25 millj.

Við erum hér að tala um mjög mikla skuldbindingu í mjög langan tíma. Það geta liðið 80 ár þar til tvítugur opinber starfsmaður, ef hann nær 100 ára aldri, tekur síðustu krónuna út úr lífeyrissjóðnum, jafnvel pínulítið meira. Við erum að tala um 80 ára skuldbindingu.

Herra forseti. Hvað erum við eiginlega að borga? Hvað skyldum við vera að borga? Ég stundaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík 1960--1965 og þá voru öðlings kennarar sem kenndu mér en það gleymdist að borga launin fyrir kennsluna. Það er ekki búið að borga launin fyrir kennsluna enn þá. Þessir ágætu kennarar mínir eru nefnilega sumir hverjir enn þá vinnandi. Þeir eiga eftir að fá lífeyri og þeir eiga eftir að fá lífeyrisrétt fyrir þennan tíma sem þeir kenndu mér. Það á eftir að borga þetta. Það hefur gleymst. Við eigum eftir að borga velferðarkerfið áratugi aftur í tímann.

Margir hv. þm. eru enn þá svo ungir að það ágæta fólk sem aðstoðaði þá inn í heiminn, þ.e. ljósmæður, læknar, sjúkraliðar og fleiri, er enn að störfum. Það á eftir að gera upp laun þessa fólks. Fæðingarkostnaður umræddra hv. þm. er enn þá að hluta til ógreiddur. Þetta er sú skuldbinding sem við erum að gera upp. Við höfum verið að reka velferðarkerfið, en ekki greitt fyrir það. Við ætlum að láta börnin okkar greiða það.

Herra forseti. Við ræðum hér frv. sem byggir á samningi sem fjmrn. gerði við fulltrúa opinberra starfsmanna. Samningurinn sem gerður var tekur ekkert á þessari skuldbindingu. Hún heldur áfram að vaxa. Hún er ekki stöðvuð. Það er ekki þannig að nú sé slegið strik yfir þetta og byrjað upp á nýtt, nei, nei. Í B-deildinni verður haldið áfram að safna skuldbindingum, þangað verður borgað 10% iðgjald af dagvinnulaunum í staðinn fyrir 26% sem þyrfti. Þar verður haldið áfram að safna skuldbindingum. Þessar skuldbindingar munu hrannast upp í 20--30 ár í viðbót ef ekkert verður að gert.

Það var sagt að markmiðið með þessum samningi væri að tryggja samtímagreiðslur, þ.e. að launagreiðendur mundu greiða þá skuldbindingu sem starfsmenn þeirra yllu sjóðnum. Annað markmið var að ná því að vinnumarkaðurinn yrði ein heild, að fólk væri með sambærileg lífeyrisréttindi alls staðar. Hvorugt markmiðið náðist. Í B-deildinni verður áfram borgað 10% af launum. Það er gersamlega óklárt hver ber skuldbindinguna af því, hver á að borga hana, hvort það er ríkið eða aðrir launagreiðendur, SPRON eða sveitarfélögin, stjórnmálaflokkarnir o.s.frv. Þetta markmið náðist ekki. Viðbrögð aðila vinnumarkaðarins segja okkur að þetta frv. virkaði eins og sprengja inn á vinnumarkaðinn. Það náðist ekki fram það markmið. Við erum ekki búnir að ná fram sambærilegum lífeyriskjörum. Það er alls ekki sambærilegt að fá lífeyri 65 ára eða sjötugur, það er ekki sambærilegt.

Herra forseti. Ef ég væri opinber starfsmaður, og ég er reyndar tryggður í þessum sjóði, þá hefði ég dálitlar efasemdir um þessa skuldbindingu. Ég hefði ákveðinn ugg í brjósti um það að þessi skuldbinding yrði greidd. Einhvern tíma í framtíðinni, eftir 10, 15 ár, einhvern tíma, geta komið erfiðir tímar. Það getur orðið verðfall á útflutningsvörum, það getur orði fiskileysi o.s.frv. og þá verður þessi skuldbinding skert. Það er mjög hætt við því. Ég hefði af því áhyggjur ef ég væri opinber starfsmaður og ég hef af því áhyggjur sem þingmaður.

Hér var gerður samningur og þegar menn gera einhvern samning fær annar þetta og hinn fær hitt. Opinberir starfsmenn fengu réttindin negld niður. Þessi áunnu réttindi er negld niður og auk þess réttur til að halda áfram að ávinna sér réttindi. Hvað höfum við fengið í staðinn? Hvað fengu samningamennirnir okkar? Ekki neitt, minna en ekki neitt. Þeir verða að borga fyrir það að gera þennan samning. Þeir verða að borga fyrir það að tryggja opinberum starfsmönnum þann rétt að halda áfram að ávinna sér rétt. Komið hefur í ljós við skoðun hv. efh.- og viðskn. að það að mega velja úr B-deild í A-deild kostar 4--5 þús. millj. kr. Það er tæplega eigið fé Landsbankans, svo að nefnd séu einhver hlutföll. Þetta borgaði samninganefndin okkar fyrir samninginn.

Hvert er samkomulagið? Í stuttu máli er það óbreytt fyrir núverandi starfsmenn, ekki haggað við neinu, ekki hreyft við neinu. Nýir starfsmenn .... (Gripið fram í: Þeir fá betri réttindi.) Nýir starfsmenn fá jafngóð að sagt er. (Gripið fram í: Betri.) Nei, þeir fá jafngóð. En valið gefur mönnum kost. Þeir starfsmenn sem eru t.d. með mikla yfirvinnu og illa tryggðir geta valið og þeir munu bæta sinn hag á kostnað ríkisins og þangað munu fara inn hátekjumennirnir. Það eru hátekjumennirnir sem munu hagnast á þessu. Það er nefnilega málið. Þessi samningur er ekki einu sinni félagslegur, enda kannski ekki við að búast. Það er talið að tæplega helmingur starfsfólks ríkisins muni flytja sig. Hinir verða áfram í B-deildinni með fornfáleg yfirréttindi sem ég kem að á eftir. Þetta eru fornfáleg réttindi, ákaflega slæm á allan máta. (Gripið fram í: ... Kaupþing.) Nei, hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna. (Gripið fram í.) Ég sé ekki hvað það kemur málinu við, hv. þm. (ÖJ: Jú, þetta er hagsmunabarátta.) Hér eftir sem hingað til verða fornfálegu yfirréttindi opinberra starfsmanna til samanburðar á almennum markaði, í 30--40 ár héðan í frá.

Það sem munar á þessum lífeyrissjóði og öðrum lífeyrissjóði á markaðnum, ef menn eru að stefna að því að hafa þetta sambærilegt, er það að hér er breytilegt iðgjald og föst réttindi á meðan í öllum öðrum lífeyrissjóðum er iðgjaldið fast og réttindin breytileg. Ef illa gengur, ef örorkan vex, ef vextirnir detta niður, fara niður fyrir 3,5%, þá verður fólk í almennu sjóðunum að sætta sig við skerðingu og fólk hefur orðið að sætta sig við umtalsverða skerðingu í öðrum lífeyrissjóðum, sérstaklega í makalífeyri. Það er sagt að þetta sé eitthvað sambærilegt, það er það ekki. Auk þess er iðgjaldið 15,5%, sem væntanlega verður 17% með tímanum, samanborið 10%. Það er ekki sama iðgjaldið, það hlýtur hver einasti maður að sjá.

65 ára ellilífeyrisaldur borinn saman við 70, það er heldur ekki það sama, þetta er engan veginn sambærilegt. Þetta er félagslegt sprengiefni til skamms tíma. Réttindi opinberra starfsmanna eru sýnd, þau eru 15,5 upp í 18%, ef allir flyttu eða 26% af dagvinnulaunum. Þau eru sýnd en þau eru ekki jöfnuð. Þau eru ekki skert eins og eðlilegt hefði verið talið til framtíðar.

Herra forseti. Metur fólk yfirleitt lífeyrisréttindi? Opinber starfsmaður sem fær þessi góðu lífeyrisréttindi hvort sem hann vill eða ekki segir að sjálfsögðu að hann sætti sig ekki við lægri laun. Hann vildi bara ekki þessi lífeyrisréttindi. Hann segir: Ég vil fá laun eins og hver annar. Ég kæri mig ekkert um þessi lífeyrisréttindi. Þeim er þröngvað upp á mig og hann fær að sjálfsögðu sín laun. Að láta sér detta það í hug, eins og hæstv. fjmrh. lýsti yfir, að menn geti sætt sig við lægri laun af því að hann hafi góð lífeyrisréttindi, ég á eftir að sjá það.

Áður en ég varð þingmaður, var ég starfandi sem leiðbeinandi af því að ég er ekki með kennsluréttindi. Ég kenndi stærðfræði og af því að ég var leiðbeinandi var ég í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda þangað sem var borgað 10% iðgjald og án ríkisábyrgðar. Kennararnir sem unnu við hliðina á mér, sem höfðu þessi frægu kennsluréttindi en minni menntun sumir, borguðu í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Það var ekki talað um að ég fengi hærri laun fyrir bragðið, ekki til í dæminu.

[23:15]

Ég vil velta upp þeirri spurningu hvort opinbert starfsfólk hafi nokkurn tíma verið spurt að því hvort það vilji fórna einum mánaðarlaunum á ári alla starfsævina til þess að geta farið á lífeyri 65 ára í staðinn fyrir 70 ára. En það er meginmunurinn á þessum tveimur kerfum, að geta farið á lífeyri 65 ára eða 70 ára plús náttúrlega ýmis minni atriði. Ég spyr: Hví skyldi fólk ekki mega velja um góð lífeyrisréttindi og lægri laun eða venjuleg lífeyrisréttindi og hærri laun? Fá betri lífskjör fyrir sig og börnin sín á meðan það starfar og er að koma yfir sig húsnæði og falla frá þessum súperréttindum í ellinni. Treysta forustumenn opinberra starfsmanna ekki dómgreind síns eigin fólks? Treysta þeir því ekki að opinberir starfsmenn geti valið? Þurfa þeir að velja fyrir þá? Ég spyr.

Herra forseti. Hver verða áhrif þessa frv. á vinnumarkaðinn til skamms tíma? Það er annað sprengiefnið. Í fyrsta lagi: Inn í þetta frv. var laumað því að BHM, Bandalag háskólamanna, fengi aukinn aðildarrétt þannig að allir félagsmenn í BHM geta fengið rétt að þessum sjóði ef launagreiðendurnir samþykkja það. Það er verið að hleypa inn í sjóðinn menntuðu hátekjufólki yfirleitt, verkfræðingum, arkitektum, tæknifræðingum, og tölvunarfræðingum, hugsanlega. Það er verið að hleypa þeim inn ef launagreiðendur þeirra samþykkja það. Fólk sem hefur aldrei unnið hjá opinberu fyrirtæki og vinnur þar ekki heldur núna. Þetta fólk fær að koma inn í sjóðinn. Það er blíðunnar aðnjótandi. Það mun að sjálfsögðu þrýsta á sína launagreiðendur að samþykkja nú 15,5% iðgjald og veita þessi góðu réttindi.

ASÍ-fólkið hins vegar, sem er eitthvað um 7--8 þúsund manns, það eru opinberir starfsmenn, þeir vinna hjá hinu opinbera, en þeir flokkast ekki undir opinbera starfsmenn. Þeir fá ekki réttindi eins og aðrir opinberir starfsmenn. Þeir fá venjuleg lífeyrisréttindi: 10% iðgjald og ellilífeyrisaldur við sjötugt o.s.frv. Þetta er yfirleitt lágtekjufólkið, þetta er Sóknarfólkið. Það fær ekki inngöngu í sjóðinn. Það nýtur ekki blíðunnar.

Það sem mun gerast á vinnumarkaðinum er að BHM-félagar munu planta sér með réttindin á vinnumarkaðinn og það kemur allt í einu í ljós að maðurinn við hliðina er í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, hjá einhverju einkafyrirtæki. Og þá segja aðrir starfsmenn: Af hverju er ég ekki í þessum ágæta Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins? Ég vil fá sömu réttindi, ég heimta sömu réttindi. Og svo hins vegar ASÍ-fólkið sem vinnur hjá ríkinu, sem er opinberir starfsmenn. Það mun segja: Við viljum fá þessi sömu réttindi. Þessi krafa er þegar komin fram. Hún kom fram hjá hv. efh.- og viðskn. (Gripið fram í: Skiljanlega.) Skiljanlega, já. Þeir munu vilja fá þessi réttindi. Þá kemur í ljós að annað fólk í þessum stéttarfélögum, sem ekki vinnur hjá ríkinu, mun segja: Við viljum að sjálfsögðu fá sömu réttindi og þetta fólk sem vinnu hjá ríkinu. Og þetta mun planta sér svona yfir allan vinnumarkaðinn. (Gripið fram í.) Get ég fengið hljóð? Það yrði 15,5% iðgjald á allan vinnumarkaðinn. Þetta er sprengjan. Það er nefnilega þannig að einhver verður að borga þessar ágætu gjafir. Það verður einhver að borga þær.

Það kom fram hjá hv. efh.- og viðskn. að þessi réttindi munu kosta atvinnulífið 8.000 milljónir á ári. Og þeir munu ekki geta borgað þær 8.000 milljónir í laun, það segir sig sjálft. Það er ekki notaður sami peningurinn tvisvar, mér er alla vega ekki kunnugt um það. Þannig að þetta kemur niður á einhverjum. Og hver skyldi það nú vera? Það skyldi ekki vera fólkið sjálft sem á að fara gefa gjafirnar af því það getur ekki fengið hærri laun?

Launafólkið borgar að sjálfsögðu allt iðgjaldið. Það er enginn vandi að hækka bara laun allra Íslendinga um framlag atvinnurekandans, sem er skattfrjálst og 4% framlag launþegans er líka skattfrjálst. Það er enginn vandi að hækka launin um framlag atvinnurekandans og láta launþegann borga allt iðgjaldið sjálfan og það breytist akkúrat ekki neitt. Fyrirtækið hefur nákvæmlega sömu útgjöld, launþeginn hefur nákvæmlega sömu tekjur eftir sem áður. Þetta er rökstuðningur fyrir því að launþeginn borgar alltaf allt iðgjaldið. Hann á líka öll réttindin. Það er enginn sem á réttindin í lífeyrissjóðnum annar en launþeginn.

Herra forseti. Hvaða áhrif mun þetta hafa á lífeyriskerfi landsmanna? Þetta frv., sem við ræðum hérna kl. tuttugu mínútur yfir ellefu, hvað áhrif hefur það á lífeyriskerfi landsmanna? Eins og ég gat um áðan mun þetta smitast yfir allan vinnumarkaðinn, 11,5%, framlag launagreiðanda, samtals 15,5%. Hefur einhver hugleitt hvort við viljum það? Hefur einhver hugleitt þessa stefnu? Hér er verið að leggja stefnu í mjög stórum lagabálki og því er bara slysað inn nánast án umræðu. Hvað erum við að velja? Við erum að velja 10% iðgjald og ellilífeyrisaldur 70 ára eða 18--20% iðgjald, því þannig endar það, og 65 ára aldur. Þetta er stefnan sem við höfum.

Við höfum ákveðnar líffræðilegar staðreyndir. Við höfum dánarlíkur, örorkulíkur og annað slíkt sem við breytum væntanlega ekki. Við getum breytt reglunum um lífeyri. Við erum að búa til kerfi sem allt í einu leggur miklu þyngri álögur á hinn vinnandi mann sem er að koma upp sínum börnum, sem er að koma sér upp húsnæði, sem er í atvinnurekstri og til þess að bæta stöðu hans þegar hann verður gamall.

Þetta er kerfi sem Evrópuþjóðirnar tóku upp fyrir löngu síðan og eru í standandi vandræðum með vegna þess að hinn vinnandi maður segir: Ég get ekki unnið, ég get ekki borið þessar byrðar. Það er búið að lækka ellilífeyrisaldurinn allt niður í 62 ára hjá Þjóðverjum. Þetta er kerfi sem gengur bara illa upp. Ég vil að menn geri sér grein fyrir því áður en þeir taka svona ákvörðun, áður en þeir gera svona samkomulag og áður en þeir taka svona ákvörðun sem smitar út á allan vinnumarkaðinn. Við erum í rauninni að velja það hvort fólk vilji fórna einum mánaðarlaunum á ári, það eru þessi 8%, 9%, alla starfsævina til þess að geta farið fimm árum fyrr á lífeyri. Þetta er spurningin.

Sumir hafa sagt: Það er fínt mál að fá svona mikil iðgjöld inn í lífeyrissjóðina, það eykur sparnað, minnkar þenslu o.s.frv. En þetta er þvingaður sparnaður. Minn flokkur, Sjálfstfl., hefur ekki verið hlynntur miðstýringu og kvöðum á einstaklingana. Við viljum sjá fólk spara þegar það vill spara en ekki þannig að það spari af því krónan er rifin úr vösunum á því og stungið ofan í einhvern annan vasa. Það höfum við ekki viljað sjá. Minn flokkur hefur ekki viljað sjá svona miðstýringu og skyldusparnað. (Gripið fram í: Þar til nú.) Ég er ekki viss um að hann átti sig á því. Ég get ekki tekið undir með þeim sem vilja blása út þvingaðan sparnað og sæi heldur umgjörð sem hvetti til frjáls sparnaðar. En það er náttúrlega ljóst þegar við þvingum svona mikinn sparnað af fólkinu þá getur það ekki sparað frjálst. Það er bara ekki til í dæminu, það hefur ekki lengur sparnaðarmátt. Svo ég tali nú ekki um þegar iðgjaldið er komið í 15,5% þá er ég hræddur um að einhvers staðar fari að kikna.

Vandi kerfisins er sá að 1974 voru sett alveg ótrúleg lög á Alþingi og þau voru ítrekuð 1980. Það var ein lítil setning sem sagði: Öllum launþegum er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Punktur, basta, ekkert meir. Þar með voru allir Íslendingar skyldaðir til að borga í lífeyrissjóði en það voru engin lög um þessa sömu lífeyrissjóði, ekki til í dæminu. Þetta er vanþróuð lagasetning sem mest má vera. Og eftir þessu höfum við starfað til dagsins í dag. Í þróuðum löndum taka menn 3--4 ár í að þróa breytingar á lífeyriskerfi. Hér var slengt inn, væntanlega rétt fyrir kl. 12 á miðnætti, einhverri breytingu sem skyldar alla til að vera í lífeyrissjóði.

Hvað hafa menn gert? Menn hafa skyldað suma til að fara í lífeyrissjóði þar sem meðalaldurinn er hár, eins og í Lífeyrissjóði verkstjóra, sem reyndar er búið að sameina núna. Það fólk fékk lakari lífeyrisrétt bara af því félagarnir í sjóðnum sem voru með þeim voru gamlir. Aðrir voru skyldaðir til að fara í aðra lífeyrissjóði eins og í Lífeyrissjóði garðyrkjumanna, þar sem er ungt fólk. Þeir fengu miklu meiri lífeyrisrétt bara af því félagarnir með þeim voru ungir. Lífeyrissjóður verslunarmanna stendur alveg dúndurvel af því það er ungt fólk í þeim lífeyrissjóði, bara út af því. Hvers slags kerfi er þetta eiginlega? Að skylda menn til að borga í lífeyrissjóði þar sem er algjör tilviljun hvort þeir standa vel eða illa.

Þetta er kerfið sem við búum við. Það er nefnilega þannig að þegar við erum með raunvexti í gangi eins og 3,5% sem reiknað er með þá ættu réttindi 30 ára manns að vera tvöföld réttindi 50 ára manns af því það er styttra þangað til 50 ára maðurinn fer á lífeyri og það eru hærri dánarlíkur hjá honum. Réttindi tvítugs manns ættu að vera þreföld réttindi fimmtugs manns. Svona höfum við þetta ekki á Íslandi. Við erum með öll réttindi eins. Maðurinn sem er tvítugur er að borga fyrir gamla manninn sem er fimmtugur í réttindum. Það er ástæðan fyrir öllum þessum vanda þegar verið er að sameina lífeyrisréttindi. Kerfið sem við búum við er orðið mjög illa farið og það þarfnast uppskurðar.

Herra forseti. Stjórnarandstaðan fagnaði þessum samningi og þessu frv. við 1. umr. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon óskaði opinberum starfsmönnum til hamingju. Það var mikill fagnaður. Aðspurður, af mér, hver borgaði gjafir hæstv. fjmrh. sagði hann að það væru einhver vesöl sveitarfélög og svo garmurinn hann ríkissjóður. En það væri nú sko allt í lagi. Og þegar hann var spurður: Og hver borgar þeim? Þá var eitthvað svona ja, ja, sem svar. Það var ekkert almennilegt svar.

Auðvitað borga skattgreiðendur þeim. Á hverju skyldu ríkissjóður og sveitarfélög lifa? Á skattgreiðendum, á fólkinu í landinu. Á þessu sama fólki og á að fara gefa réttindi núna. Ja, miklar eru gjafirnar. Stjórnarandstaðan stóð að áliti meiri hluta hv. efh.- og viðskn. sem er mjög óvenjulegt. Þeir vilja láta þetta frábæra kerfi ná til allrar þjóðarinnar og tóku það sérstaklega fram. Miklar eru gjafirnar. Mín persóna virtist vera leiðinlegi gesturinn í fagnaðinum, talandi um einhverjar leiðinlegar skuldbindingar, að gjafirnar kosti eitthvað. Og að sá sem fái gjafirnar verði að borga þær sjálfur. Þetta eru nú bara leiðinlegheit. Lifum heldur í sætum draumi á ljósrauðum skýjum. Raunveruleikinn er svo ósköp leiðinlegur.

Þessi afstaða stjórnarandstöðunnar er mjög oft uppi á borðinu á hinu háa Alþingi. Það er fullt af góðum málum, bara að nefna það. Snjóflóðavarnir, sjálfsagt mál. Í Reykjavík þótti sjálfsagt að taka upp holræsagerð, að sjálfsögðu. Allt bráðnauðsynleg og góð mál, ekki spurning. Þangað til kemur að því að borga dýrðina. Þá fer að verða leiðinlegt. Og svo hittir maður fólkið niðri á jörðinni. Þar púlar fólkið, púlar atvinnulífið og kveinkar sér undan sköttunum. Skolpskatturinn í Reykjavík. Snjóflóðaskatturinn, tvö þús. kr. á íbúð, það er svo sem ekki neitt, tvö þúsundkall --- hvað er nú það? En þegar það kemur ofan á allt hitt þá munar aldeilis um það. Allt eru þetta góð mál.

Ég fór í heimsókn í Granda um daginn. Þar hitti ég fólk sem er ákaflega duglegt og vinnur hratt og vel. Hefur líka tiltölulega góð laun. Í fyrra kom loðna, sem við vonum að komi aftur núna í vetur. Fólkið vann þarna, sagði það mér dag og nótt í sex vikur, sá ekki börnin sín, og vann allar helgar, vann mikið starf. En þegar farið var að telja upp úr buddunum þá var heldur lítið eftir og svo þegar barnabæturnar komu sem voru tekjutengdar og allt hitt dótið sem er tekjutengt, vaxtabæturnar o.s.frv. þá var bara ekkert eftir. Það sagði ein konan við mig þarna niður frá: Ja, þeir skulu bara finna einhvern annan en mig til að vinna í loðnunni núna í vetur, ég stend ekkert í því. Þarna er skattlagningin. Þarna er verið að borga gjafirnar. Það er verið að klyfja þetta hross enn frekar. Það er gott. Gefum öllum góð lífeyrisréttindi. Hrói höttur nútímans gefur hinum fátæku gjafir, hinum ríku líka en hann tekur ekki gjafirnar frá hinum ríku. Nei, hann tekur af þeim sem hann gefur þær og vill fá þakklæti fyrir. Það er hinn nútíma Hrói höttur.

Herra forseti. Núverandi kerfi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er með fádæmum flókið. Það er fádæma flókið. Ég skil það yfirleitt aldrei nema rétt þegar ég er að lesa það. Og ég hefði þurft sennilega eins og einn mánuð eða tvo til að skilja þetta frv. til hlítar. Ég fékk bara ekki þann tíma og samt er ég búinn að vera að dunda í þessu fagi í ein 20 ár. Hvað þá um aðra þingmenn sem koma frískir að þessu, nýir, og átta sig ekkert á þessu. Ég vorkenni þeim.

Það eru eiginlega þrjár reglugerðir í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ein er 2% réttindaávinningur á ári, 1% þegar iðgjaldafrelsi er eftir 32 ár. Það er borgað iðgjald í 32 ár og svo er iðgjaldafrelsi þá er 1%. Lífeyrisaldur 65 ára og lífeyririnn fer eftir launum eftirmanns, 10% iðgjald. Þetta er fyrsta regla. Næsta regla er 95 ára reglan og 10% iðgjald. Ég ætla ekki að lýsa henni, hún er svo flókin. Það er þegar lífaldur og starfsaldur er 95 ár o.s.frv. og menn geta hafið töku lífeyris allt niður í 60 ára aldur. Þriðja reglan er vaktavinnukerfið, það er stigakerfi eins og í almennu sjóðunum með 2% réttindavinnslu á ári og 1% fyrir makalífeyrir og 10% iðgjald. Svo á að fara að bæta A-deildinni við núna, fjórðu reglugerðinni í sama lífeyrissjóðnum. Reyndar eru kennarar líka með sérákvæði, ég ætla ekki að fara inn á það. Þar er 1,9% réttindavinnsla fyrir hvert ár, makalífeyrir er 0,95%, ellilífeyrisaldur 65 ára og ef menn fresta töku lífeyris hækkar hann um 0,8% fyrir hvern mánuð, eða tæp 10% á ári. Það þýðir það að réttindavinnsla manns sem er búinn að vinna til sjötugs er 2,81% miðað við alla starfsævina. Það berum við saman við 1,8% hjá almennu sjóðunum þegar menn fá lífeyri um sjötugt. Og iðgjaldið er 15,5% að sagt er fyrstu árin en verður meira.

[23:30]

Valið úr B-deild í A-deild kostar 5 milljarða, 5.000 millj. kr., og til þess að ná því niður var samið um að lækka þessa réttindaávinnslu úr 0,8% í 0,5%, þ.e. 10% fyrir hvert ár niður í 6% og það var sagt að það yrði jafngilt. Ég trúi því ekki. Ég er tryggingafræðingur og ég mundi aldrei komast að þessari niðurstöðu. Vegna þess að ég veit að þegar fólkið hefur ekki eins mikið upp úr því að fresta töku lífeyris þá hefur það töku lífeyris 65 ára og það heldur bara áfram að vinna. Það er ekkert í þessari nýju deild, A-deild, sem bannar mönnum að vinna eftir að þeir hefja töku lífeyris. Þeir eru þannig með tvöföld laun og leggja launin inn, kaupa spariskírteini fyrir það sem eftir stendur eftir skattinn. Þegar þeir eru síðan komnir yfir sjötugt byrja þeir að taka lífeyri og hætta að vinna. Þá nota þeir spariskírteinin sem uppbótarlífeyri. Þetta kemur betur út fyrir opinbera starfsmenn. Þannig að þetta er ekki jafngilt.

Fjmrh. er sem sagt að borga fyrir þennan samning, það verður niðurstaðan. Við munum borga fyrir þennan samning. Við munum borga opinberum starfsmönnum fyrir það að negla niður þau réttindi sem þeir hafa þegar áunnið sér og leyfa þeim að halda áfram að ávinna sér réttindi. Það er borgað fyrir það slík ósköp. Ég spyr hvers vegna í ósköpunum.

Ég nefndi það í upphafi að þessar reglur hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins væru bæði gamaldags og úreltar. Í fyrsta lagi örorkulífeyririnn. Hann er mjög lélegur. Menn fá örorkulífeyrir miðað við áunninn rétt. Þannig að maður sem búinn er að vinna í fimm ár fær sáralítinn örorkulífeyri. Hann er lakur og lélegur. Þessu á að halda áfram. Síðan eru dagvinnulaunin tryggð en ekki heildarlaunin. Það kom fram að opinberir starfsmenn eru með 43% eftirvinnu ofan á dagvinnulaun. Einn þriðji af launum opinberra starfsmanna er eftirvinna og hún er ekki tryggð. Margir sem eru með mikla eftirvinnu, eins og sumir sjómenn á varðskipunum þar sem eftirvinnan getur farið upp í tvöföld dagvinnulaun, eru nánast ótryggðir. Þetta heldur áfram, nema þeir munu að sjálfsögðu skipta.

Svo er merkilegt ákvæði í þessum reglum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins að menn borga iðgjald í 32 ár. Maður spyr hvers vegna í ósköpunum? Tvítugur maður sem byrjar í sjóðnum borgar til 52 ára aldurs. Þá er hann kominn úr skuldum, búinn að koma upp börnunum, og þá hættir hann að borga iðgjald. Ég spyr hvers vegna í ósköpunum? Þetta er eitthvað fornfálegt.

Makalífeyririnn er mjög ríflegur. Makinn byrjar með 20% eins og við þekktum hjá varaþingmönnunum áður en þessu var breytt á síðasta þingi. Hann byrjar með 20% þannig að ellilífeyrisþegi sem hefur unnið í 10 ár hjá ríkinu fær 20% af launum, en makinn fær 25% af launum ef ellilífeyrisþeginn fellur frá. Lífeyristekjur fjölskyldunnar hækka við það að annað hjónanna fellur frá. Hver er rökstuðningurinn á bak við þetta? Ég hef aldrei getað skilið þetta. Er það til að makinn geti skemmt sér eða hvað? Hann fær meira til ráðstöfunar fyrir sig einan heldur en hjónin höfðu bæði áður. Þetta er náttúrlega fráleitt.

Makalífeyrir er auk þess mjög ríflegur. Hann er borgaður öllum. Það hefur komið í ljós að velflestir Íslendingar eiga sinn eigin ellilífeyrisrétt. Það er ekki lengur þörf á þessum makalífeyrisrétti eins og var hér 1930 en þaðan koma þessar reglur. Þær eru orðnar svo gamlar að þær eru löngu orðnar úreltar. Segjum að þrítugur karlmaður falli frá, opinber starfsmaður. Hvers vegna á að borga konunni hans, sem er 29 ára, lífeyri til æviloka og ekkert barn og ekki neitt? Hvaða vit er í þessu?

Svo er ellilífeyrisaldurinn 65 ár enn þá eins og var fyrir 40 árum, þrátt fyrir að fólk búi við mikið betri heilsu og það sé ekki saman að líkja hvað sjötugur maður lítur betur út í dag en á þeim tíma. Svo er meira langlífi auk þess.

Þessum fáránlegu, úreltu og gamaldags reglum er öllum haldið í B-deildinni, öllum haldið, engu breytt. En það er eitt merkilegt við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem kemur sjaldan fram. Hann er óverðtryggður. Hann borgar óverðtryggðan lífeyri. Launagreiðandinn borgar verðbætur á lífeyrinn. Það er sem sagt háð verðbólgu og launahækkun eftirmannsins hvað launagreiðandinn borgar mikið í eftirlaun. Segjum að stofnun sé með einhvern mann í vinnu. Svo fer hann á eftirlaun og við tekur einhver háskólamaður sem er með tvöfalt hærri laun. Þá menntast menn eftir að þeir eru komnir á eftirlaun. Þeir fá allt í einu helmingi hærri laun, af því að eftirmaðurinn hefur betri menntun. Þetta er náttúrlega alveg ótrúlegt kerfi, alveg ótrúlegt.

Þessar verðbætur launagreiðandans koma þannig út að þegar það er mikil verðbólga og miklar launahækkanir þá stendur sjóðurinn ljómandi vel því þá borgar atvinnurekandinn nánast allan lífeyrinn. Fyrir nokkrum árum borguðu atvinnurekendur, launagreiðendur, þar á meðal ríkið, 80% lífeyrisins vegna þess að lífeyririnn rýrnaði svo hratt. Núna borga þeir 25%. Og hlutur launagreiðandans lækkar óðfluga vegna þess að verðbólgan er svo lítil. En þá stefnir líka í vandræði hjá lífeyrissjóðnum.

Ég þekki dæmi um að lífeyrissjóðurinn borgar 2.500 kr. í makalífeyri en atvinnurekandinn borgar 122.500 kr. í verðbætur. Samtals fær gamla konan 125.000 kr. í lífeyri. Það þýðir að lífeyrissjóðurinn borgar nánast ekkert af þessum lífeyri, nánast ekki neitt út af þessum furðulegu reglum.

Herra forseti. Hvernig gætum við leyst þetta öðruvísi? Þar er ég með lausn. Við metum aukaiðgjaldið umfram 10% af öllum launum sem yrði svona 16--17% fyrir allan sjóðinn. Síðan bjóðum við núverandi starfsfólki varanlega launahækkun sem nemur aukalífeyrisiðgjaldinu og segjum þeim að velja sér einhvern sjóð úti í bæ. Það mætti borga mönnum þarna um 7% launahækkun. Þetta væri algjörlega valkvætt. Það er enginn þvingaður inn í þetta, ekki einn einasti maður. Margir mundu velja þetta að sjálfsögðu og við erum búin að losna við skuldbindinguna af þeim alla vega. Nýtt fólk fengi strax launahækkun. Það er líka valkvætt því fólkið veit að hverju það gengur. Það getur líka hætt við að ráða sig hjá ríkinu. Það veit að hverju það gengur. Það fær þessa launahækkun og borgar í venjulegan lífeyrissjóð. Ef enginn lífeyrissjóður er til þá er alltaf til Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda sem tekur á móti öllum sem ekki eiga heima annars staðar. Þetta yrði ákaflega einföld lausn.

Svo er það samningsatriði við stéttarfélögin hvort þetta yrði gert á einstaklingsbasís þannig að sumir fengju meiri launahækkun heldur en aðrir. Eða hvort þetta yrði gert á félagabasís eða hvort þetta yrði gert fyrir allan hópinn í einu. Það yrði samkomulagsatriði.

Svo mætti hugleiða það að leyfa mönnum að selja þessi áunnu yfirréttindi sem ég gat um áðan, réttindi upp á 20 millj. kr. Leyfa þeim að selja það sem er umfram þessi venjulegu réttindi.

Þetta er lausn sem kæmi til greina og hún var til umræðu en stéttarfélögin vildu hana ekki. Af hverju vildu þau hana ekki? Af því að þá er komið val fyrir sjóðfélagana. Val sem þeir treysta ekki sínum eigin sjóðfélögum til að takast á við. Þeir treysta ekki sínu eigin fólki til að velja að vera með venjuleg lífeyrisréttindi eins og fólk á almennum vinnumarkaði eða að vera með þessi góðu réttindi. Þeir treystu því ekki. En það sem mundi gerast er náttúrlega það, að um leið og fólkið er komið út úr þessum lífeyrissjóði og er farið að borga í annan lífeyrissjóð, þá er það ekki lengur samningsatriði stéttarfélaganna. Það er kannski það. Það er verið að halda sálunum saman. Ég hef grun um að það sé ástæða þess að þeir völdu ekki þessa leið. Þeir völdu heldur að hafa þetta allt óbreytt, með kolrugluðum og úreltum reglugerðum eins og er í B-deildinni, og halda áfram að hlaða upp skuldbindingu sem hugsanlega gæti sprungið einhvern tímann.

Herra forseti. Ég hef flutt hér brtt. við þetta frv. og ég ætla að leyfa mér að fara í gegnum einstakar greinar. Í þessu frv. reyni ég að bjarga því sem bjargað verður í þessu samkomulagi, þ.e. að reikna upp skuldbindingu fyrir B-deildina. Mér finnst alltaf að menn eigi að borga sínar skuldir, jafnt ríkissjóður sem aðrir. Gera upp skuldbindinguna við B-deildina og þá er komið í ljós hvað hver launagreiðandi skuldar. Taka út ákvæðin um að launagreiðandi borgi verðhækkanir á lífeyri og reikna út hvað iðgjaldið þarf að vera hátt. Það þarf sennilega að vera um 18% af öllum launum. Eða 26% af dagvinnulaunum, eitthvað á því róli. Þetta er fyrsta skrefið.

Annað skrefið er að reikna út nauðsynlegt iðgjald fyrir B-deildina, þ.e. að menn fari virkilega að borga inn. Póstur og sími borgi þarna inn 26% af dagvinnulaunum síns fólks. Það er engu breytt gagnvart réttindum opinberra starfsmanna, ekki neinu. Þetta eru bara reiknikúnstir launagreiðendanna til að meta skuldbindinguna og gera hana upp. Ég er viss um að opinberir starfsmenn yrðu mjög hrifnir af þessu. Þá er komið í ljós að það er búið að borga skuldbindinguna með skuldabréfi frá ríkissjóði sem er með ríkisábyrgð að sjálfsögðu og sú skuldbinding sem myndaðist yrði alltaf borguð jafnóðum. Þegar búið er að reikna út svona breytilegt iðgjald í B-deildinni þá getum við afnumið ríkisábyrgðina nákvæmlega eins og í A-deildinni, því breytilega iðgjaldið dekkar ríkisábyrgðina.

Þetta eru þær brtt. sem ég er að gera hér við þetta frv., hæstv. forseti, og þar er ég að reyna að bjarga því sem bjargað verður. En af hverju geri ég þetta? Vegna þess að þá er þetta orðið sýnilegt. Það er orðið sýnilegt hvert iðgjaldið þarf að verða og þetta er orðið að einhverju leyti sambærilegt við almenna markaðinn. Það er orðið sýnilegt hvert iðgjaldið þarf að vera. Og menn geta sagt: Opinberir starfsmenn eru með þetta mikið hærri laun, þ.e. 8%. Þeir verða þá bara hreinlega að sætta sig við það lægri laun. Síðan kemur maður að sjálfsögðu með hugmyndir um að leyfa mönnum að velja en það kemur seinna.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að fara í gegnum rökstuðning fyrir þeim brtt. sem eru á þskj. 434, sem eru brtt. við frv. til laga um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins.

Í fyrstu brtt. er lagt til að tryggingafræðingur reikni út nauðsynlegt iðgjald fyrir báðar deildir sjóðsins í staðinn fyrir að reikna iðgjaldið aðeins fyrir A-deildina. Aðferðin við útreikning á iðgjaldi B-deildarinnar er sú sama og við iðgjald A-deildar. Ferlið er það að tryggingafræðingurinn hafi lokið útreikningum sínum fyrir 1. maí ár hvert, stjórnin hafi síðan tíma til 1. júní til að ákveða og tilkynna iðgjaldið og það taki gildi frá 1. júlí. Iðgjaldið yrði í námunda við næsta hálft prósent af launum sem þýðir að iðgjaldið getur aðeins tekið heil og hálf tölugildi, t.d. 11%, 11,5%, 12,5% o.s.frv. 11,264% yrði 11,5% en 11,246% yrði 11%, lækkaði niður. Þetta er gert til þess að það sé ekki eilíft verið að hringla með þetta iðgjald. Það er bara þegar komið er yfir þessi þrep sem því verður breytt. Annars mundum við sjá breytingar á hverju einasta ári.

Í öðrum lið er felld niður ábyrgð ríkissjóðs eins og ég gat um áðan til greiðslu lífeyris samkvæmt lögum þessum, enda fellur ábyrgðin á ríkissjóð og aðra launagreiðendur með breytilegu iðgjald samkvæmt 11. gr. frv. sem ég var að leggja til hérna áðan.

Í þriðja lið er tekið skýrt fram að fullt og rétt iðgjald skuli reiknað af þeim launum sem tryggð eru hjá B-deildinni í fullu samræmi við sambærilegt ákvæði í A-deildinni í 4. mgr. 25. gr. frv. Iðgjaldið standi undir þeim réttindum sem sjóðurinn veitir. Með því að taka upp greiðslur launagreiðanda á áfallinni skuldbindingu og sýna og fá greitt nauðsynlegt iðgjald til sjóðsins er staða sjóðsins sýnd á hverjum tíma. Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt þarf þetta iðgjald að vera 26% af dagvinnulaunum í dag. Enn fremur er hér tekið fram að atvinnurekandinn greiðir 4% iðgjaldið fyrir launþegann eftir að hann hættir að greiða iðgjaldið eftir 32 ár, til viðbótar við iðgjald sem menn borga samkvæmt 3. gr. Hér er sem sagt lagt til að þegar iðgjaldagreiðslunni lýkur, þá borgi launagreiðandinn iðgjaldið fyrir launþegann. Þannig að það breytist ekki neitt.

[23:45]

Í 4. lið er lagt til að iðgjald af vaktavinnu, sem ég gat um áðan að er eitt kerfi þarna í sjóðnum, verði það sama og annað iðgjald, enda eru réttindin svipuð, 2% fyrir hvert ár, 1,9 í A-deildinni og 2% í B-deildinni, nema makalífeyririnn er lakari í vaktavinnukerfinu.

Fimmti liðurinn fjallar um það að fella niður skyldu launagreiðanda til þess að greiða hækkanir sem verða á lífeyri eftir að hann hefur verið úrskurðaður. Þetta er afar óskynsamlegt ákvæði eins og það er í dag þar sem greiðslur launagreiðenda eru háðar launahækkunum eftirmanna lífeyrisþega, en þær eru svo aftur háðar verðbólgu. Lífeyrissjóðurinn greiðir óverðtryggðan lífeyri eftir að taka hans er hafin. Þannig er það í dag. Afleiðingin er sú að fyrir nokkrum árum greiddu launagreiðendur yfir 80% af lífeyri sjóðsins en núna 20 eða 25%. Ef verðbólgan er mikil, þá greiðir launagreiðandi nánast allan lífeyri starfsfólksins og launagreiðandinn er með manninn áfram í vinnu í rauninni. Til hvers er þá lífeyrissjóðurinn? Þegar verðbólgan minnkar og launahækkanir verða skaplegar minnkar þessi þáttur launagreiðanda og staða sjóðsins hríðversnar eins og núna.

Í liðnum er fellt niður sérákvæði um kennara og skólastjórnendur grunnskóla, en samkvæmt því skyldu sveitarfélögin greiða 15,5% iðgjald vegna þessara starfsmanna sinnar til viðbótar 4% iðgjaldi starfsmanna sjálfra, eða alls 19,5%. Þetta er reglan sem átti að taka upp. Ég hef ekki enn þá fengið útskýringu á því af hverju þetta fólk þarf að borga 19,5% iðgjald. Það er ekki einu sinni víst að þetta iðgjald nægi. Það er eðlilegt að leiða fram þá raunverulegu skuldbindingu, sem réttindi þessara starfsmanna valda. Þessi breyting kann að valda einhverri röskun á fjármálasamningi ríkis og sveitarfélaga um flutning grunnskólans. Hins vegar er æskilegt að ekki séu skildar eftir óljósar ógreiddar skuldbindingar hjá sjóðnum og þetta er hluti af því að taka það allt undir meðaliðgjaldið.

Í sjöunda lið er sama ákvæðið, þ.e. að reikna iðgjald af dagvinnulaunum fyrir B-deild eins og var í A-deild.

Í áttunda lið er kannski meginatriðið. Hér er lagt til hvernig staðið skuli að uppgjöri áfallinna skuldbindinga við gildistöku laga þessara. Nauðsynlegt er að ganga frá og skilgreina hver bera skuli þá miklu skuldbindingu sem hlaðist hefur upp. Nú er það allsendis óljóst hver ber skuldbindinguna og fer það nokkuð eftir launabreytingum í framtíðinni eins og ég gat um áðan. Það verður að teljast ófullnægjandi fyrir launagreiðendur að þeir vita ekki hver skuldbindingin verður. Hún er háð því hvað launahækkanir verða miklar í framtíðinni. Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að launagreiðendur greiða það sem stendur eftir af áunninni skuldbindingu vegna núverandi starfsmanna umfram núvirka eign sjóðsins í hlutfalli við réttindavinnslu sjóðfélaga hjá launagreiðanda. Það er sem sagt fundið út hver er réttindavinnsla ákveðins sjóðfélaga hjá ákveðnum launagreiðanda. Sem dæmi má taka einstakling sem vann í 20 ár hjá fyrirtæki A og fær fyrir það 40% rétt. Þá vann hann 20 ár hjá fyrirtæki B og er iðgjaldafrjáls í 8 ár. Hann er búinn að borga í 32 ár og þá hættir hann að borga iðgjöld og þá vinnur hann sér inn 1% fyrir hvert ár þannig að hann fær ekki nema 32% hjá launagreiðanda B þó að hann hafi borgað nákvæmlega í jafnlangan tíma þar og hjá fyrirtæki A og verið jafnvel með sömu laun. Skuldbindingin milli þessara tveggja launagreiðanda skiptist þá í hlutföllunum 40:32.

Eign sjóðsins skal nú vera þannig að hún gefi að jafnaði 3,5% ávöxtun miðað við vísitölu neysluverðs eftir núvirðinguna. Þetta eru þær reglur sem Félag tryggingafræðinga hefur lagt til. Þannig yrðu öll skuldabréf sem eru verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs núvirt miðað við 3,5% ávöxtunarkröfu og við þetta hækkar eign sjóðsins. Aðrar eignir, hlutabréf, fasteignir og annað slíkt yrðu metnar á sambærilegan hátt miðað við arðgjöf. Greiðslur vegna áunninna skuldbindinga falla nokkuð jafnt á næstu 40 árum, eða um það bil 4 milljarðar á ári. Þar sem tryggingafræðilegt mat á sjóðnum miðað við 2% ávöxtun umfram laun og sú ávöxtun svarar til 3,5% ávöxtunar umfram verðlagshækkanir er eðlilegt að skuldabréfið, sem skuldin yrði greidd með, sé verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs og beri 3,5% vexti og sé til 40 ára. Þess skal getið að slíkt bréf gefur í alla staði sömu greiðslur og verðtryggt bréf með 5,5% vöxtum, sem eru markaðsvextir núna, sem eru að nafnverði 75% af nafnverði þess fyrra. Með þessari aðgerð og með markaðsvöxtum lækkar skuldbindingin úr 110 milljörðum niður í 80 milljarða vegna þess að markaðsvextir eru hærri núna en er notað í útreikninginn. Þess ber að geta að það hafa ekki fengist skuldabréf til 40 ára hér á landi þannig að það er óljóst hverjir markaðsvextir yrðu af slíku bréfi.

Athugasemdir við brtt. 9--14, sem eiga við Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna, eru nánast þeir sömu og þær athugasemdir sem ég nefndi hér áðan, þ.e. liður 9 svarar til liðs 4, liður 10 svarar til liðs 3, liður 11 svarar til liðs 1, liður 12 svarar til liðs 5 og liður 13 svarar til liðs 2 og liður 14 svarar til liðs 8. Hef ég þá lokið umfjöllun um þær brtt. sem ég hef lagt fram.

Þá má ljóst vera af þessari hugleiðingu minni allri að ég er ekki hrifinn af þessu samkomulagi og ég er ekki hrifinn af þessu frv. Ég held að við séum að gera hér meiri háttar mistök og ég mun greiða atkvæði gegn frv. nema brtt. mínar verði samþykktar. Þá mun ég greiða atkvæði með þessu frv. af því að ég tel að þá sé búið að laga það sem lagað verður í þessum óskapnaði.