Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 23:51:55 (2539)

1996-12-19 23:51:55# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[23:51]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þm. dr. Péturs Blöndals. Ég hef fylgst með málflutningi hans í efh.- og viðskn. Ég hef lesið með athygli greinar hans í blöðum um þetta mál og ég tel að sú viðleitni hans að upplýsa almenning um staðreyndir mála um áfallnar skuldbindingar á skattgreiðendur hingað til, um muninn á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna á almennum vinnumarkaði og viðleitni til þess að koma með tillögur, að allt sé þetta afar virðingarvert. Og reynist hann nú forspár um að sú komi tíð hugsanlega að íslenska þjóðin verði fyrir einhverri þeirri þjóðarógæfu að henni reynist um megn að rísa undir þessum skuldbindingum, þá kann kannski sá tími að koma að lengi verði vitnað til þessarar ræðu. Engu að síður kemst ég ekki hjá að orða eina hugsun:

Hv. þm. Pétur Blöndal leitaði eftir umboði kjósenda sem frambjóðandi Sjálfstfl. í seinustu kosningum og á sæti í þingflokki Sjálfstfl. Í öllum venjulegum flokkum þætti mönnum nokkur fengur að því í málum sem eru jafnflókin og kalla á sérfræðiþekkingu eins og hér um ræðir að fá hálærðan tryggingastærðfræðing inn í sínar raðir. Ég spyr: Tók þingflokkur Sjálfstfl. ekkert mark á málflutningi hv. þm.? Hér er um að ræða stjfrv. sem er reyndar staðfesting á samningi sem einn af leiðtogum flokksins, hæstv. fjmrh., skuldbatt ríkisstjórnina til og frv. er ein staðfesting á því. Er það virkilega svo, af því að hv. þm. vitnar nú til flokksins síns og sagði: Sú var tíð, einu sinni var það svo að Sjálfstfl. trúði á einkaframtak, á frjálst val einstaklinganna, á frjálsan sparnað, er enginn annar en hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson í gervöllum þingflokki Sjálfstfl. sem tekur eitthvert einasta mark á því þegar maður sem er autoritet í sinni grein og fer ekki með fleipur vekur athygli og kveikir á viðvörunarljósum? Er enginn annar en þeir tveir í þingflokki Sjálfstfl. sem leggur við hlustir, staldrar við, hugsar, rökræðir eða tekur mark á málflutningi hv. þm.? Því að þetta álit er nefnilega ekki flutt af stjórnarandstöðunni.