Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 23:55:54 (2541)

1996-12-19 23:55:54# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, JBH
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[23:55]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það hallar í miðnætti, klukkuna vantar þrjár mínútur í 12 þegar ég hef ræðu mína um þetta stóra mál og hafi einhver velkst í vafa um það að þetta er mikið mál, þá hafa menn væntanlega ekki efast um það eftir að hafa heyrt ræðu hv. þm. Péturs Blöndals.

Við erum hér að fjalla um frv. til laga um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins og reyndar ýmissa annarra í opinberri þjónustu. Þetta frv. byggir á samningi hæstv. fjmrh. við samtök opinberra starfsmanna og frv. er flutt til staðfestingar á þeim samningi. Það hefur hlotið býsna mikla umræðu en á mjög skömmum tíma í efh.- og viðskn. Hv. þm. Pétur Blöndal gat þess að þegar Þjóðverjar fóru í gegnum viðamiklar breytingar á sínu lífeyrisréttindakerfi tók það þá fjögur ár. Sjálfur kannast ég við það frá fjármálaráðherratíð minni fyrr að þegar Svíar fóru í gegnum slíkan breytingaferil, þá tók það sænska þingið níu ár frá því að ákvörðun var tekin um að hefja undirbúningsvinnuna og þar til löggjafarstarfi var lokið. Þetta segir kannski eitthvað um vinnubrögð Íslendinga eða þá, ef menn vilja heldur hafa það svo, um andlegt atgervi þeirra í samanburði við aðrar þjóðir.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., gerði hins vegar grein fyrir því að í umfjöllun nefndarinnar á skömmum tíma tók frv. nokkrum breytingum. Ég vil aðeins nefna þær. Fyrsta breytingin varðaði viðleitni í þá átt að herða á orðalagi þar sem fjallað er um aðild að lífeyrisréttindakerfi opinberra starfsmanna. Annað atriði er um að setja tímamörk að því er varðaði tilfærslu úr B-deild í hina nýju A-deild. Þriðja atriðið varðaði orðalag um skuldbindingu stjórnar lífeyrissjóðsins til þess að leita eftir hámarksávöxtun. Fjórða atriðið var að herða á orðalagi um það að ríkisábyrgð væri einungis bundin við iðgjaldagreiðslur launagreiðenda, þ.e. ríkisins og annarra opinberra aðila í A-deild sjóðsins. Fimmta atriðið var um það að skerða réttindaávinnslu eftir töku lífeyris þegar menn eru orðnir 65 ára. Eins og fram kom í máli hv. þm. Péturs Blöndals átti það að vera til þess að draga úr kostnaðarauka vegna kerfisins að mati sérfróðra, hugsanlega milli 4 og 5 milljarða kr., til þess að vega upp á móti óvissuþættinum varðandi kostnaðaraukann sem er háður því hversu margir kynnu að flytja sig til milli B- og A-deildar sem veitir í raun og eru verðmætari réttindi en hingað til hefur verið. Sjötta breytingin var um það að binda tímabundið iðgjöld launagreiðandans við 11,5% jafnvel þótt það sé brot á tryggingafræðilegum grundvallarreglum. Það markaðist af viðleitni til þess að draga úr röskunaráhrifum þess arna á lífeyrisréttindakerfið, vinnumarkaðinn, kjarasamninga sem fram undan eru auk þess sem bætt var inn ákvæði um endurskoðun á þessum þætti innan fimm ára að fenginni reynslu í ljósi þess hver yrði samsetning sjóðfélaga út frá tryggingafræðilegum forsendum þegar þar væri komið sögu.

Loks var bætt inn nýju bráðabirgðaákvæði, bráðabirgðaákvæði III, sem einnig tekur mið af þeirri óvissu sem varðar kostnaðarauka og kveður á um endurskoðun.

[24:00]

Herra forseti. Þetta frv. er algerlega stefnumarkandi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það mun hafa mikil áhrif á næstunni á þróun lífeyrisréttindamála annarra hópa, það mun hafa mikil áhrif á vinnumarkaðnum og það mun hafa mikil áhrif á kjarasamninga. En ríkisstjórnin hefur, og það verður að segja henni til hróss, a.m.k. aðhafst í málinu. Þeir sem heyrðu ræðu hv. þm. Péturs Blöndals geta ekki velkst í vafa um að aðgerða var þörf. Þegar menn líta til baka geta menn sagt: Þeir sem báru ábyrgð á upphleðslu skuldbindinga skattgreiðenda upp á 110 milljarða á liðinni tíð bera sína ábyrgð og hafi fjmrh. gengið það til að una ekki því ástandi lengur og sýna viðleitni í átt til þess að stöðva þessa tifandi tímasprengju, þá á hann út af fyrir sig hrós skilið fyrir það þótt vel kunni að vera að honum hafi reynst vera mislagðar hendur með lausnirnar.

Staðreyndir eru þær að þessar skuldbindingar hafa hrannast upp og allir menn eru væntanlega sammála um að á því máli varð að taka. Til þess voru tvær leiðir. Það hafa verið í allri umræðu um þetta sl. 20 ár, svo lengi sem ég hef fylgst með umræðu um það, fyrst og fremst lagðar til tvær leiðir: Önnur leiðin er sú að segja: Þessi lífeyrisréttindi eru meiri en hægt er að leggja á skattgreiðendur. Þess vegna bjóðum við fyrir hönd ríkisvaldsins starfsmönnum hins opinbera upp á samning í líkingu við það sem dr. Pétur Blöndal ræddi áðan, þ.e. þeir sætti sig við einhverja skerðingu lífeyrisréttinda gegn því að fá það að fullu bætt í hærra kaupgjaldi. Þá væri leiðin til þess að stuðla að samræmingu lífeyrisréttinda í því fólgin því að það er mikið eftirsóknarvert að reyna að ná fram samræmdu lífeyrisréttindakerfi sem næði yfir allan vinnumarkaðinn. Þetta er önnur leiðin. Þetta er leið sem margsinnis hefur verið lögð til í tillöguflutningi á Alþingi.

Hin leiðin er sú að segja: Það verður ekki aftur snúið. Við staðfestum þau lífeyrisréttindi sem best hafa áunnist hjá opinberum starfsmönnum, skuldbindum okkur til þess að greiða hinn áfallna reikning upp á 110 milljarða á þessum tíma og miðum síðan við það að iðgjaldahækkunin sem leggja verður á ríkið, launagreiðendur, skattgreiðendur, þurfi að standa undir þessu. Þegar ég segi að þetta frv. sé stefnumarkandi, þá meina ég það fyrst og fremst að hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin, sem sýndi reyndar ekki talsmanni Sjálfstfl. í þessari umræðu þá virðingu að ekki einn einasti ráðherra, ekki einu sinni fjmrh. sýndi hv. þm. Pétri Blöndal þá virðingu að hlýða á mál hans, hvað þá meir. En fjmrh. í broddi fylkingar fyrir ríkisstjórninni hefur tekið stefnumarkandi ákvörðun um það að þeir völdu aðra leiðina. Þeir völdu þá leið að staðfesta hámarksréttindin.

Gagnrýni hv. þm. Péturs Blöndals er fyrst og fremst á þá leið og ég er sammála honum um eitt: Sú ákvörðun er algerlega stefnumarkandi. Ég er sammála honum um það að úr því að sú ákvörðun var tekin, þá er fyrir það í mínum huga algerlega ljóst að fyrir þá 6 eða 8 þúsund opinbera starfsmenn sem ekki eru í Samtökum opinberra starfsmanna, þá er það siðferðilega óverjandi að ætla að synja þessum hópi, Sóknarkonunum t.d., sem vinna á sömu vinnustöðum, á sömu lágu kjörunum, um það að fá sams konar réttindi. Það er algerlega óverjandi. Það eru engin rök finnanleg fyrir því að verja það ástand.

Þá kem ég að því að fyrirvari okkar fulltrúa þingflokks jafnaðarmanna í efh.- og viðskn., okkar hv. þm. Ágústar Einarssonar, snýst einmitt um þetta atriði. Þess vegna kemur fram í nefndarálitinu, með leyfi forseta, eftirfarandi:

,,Ágúst Einarsson og Jón Baldvin Hannibalsson skrifa undir þetta álit með fyrirvara sem lýtur að því að þeir telja lögfestingu frv. í þessu formi fela í sér skyldur stjórnvalda að sjá svo um að starfsmenn ríkisins sem eru í stéttarfélögum ASÍ fái sömu lífeyrisréttindi og öðrum ríkisstarfsmönnum eru tryggð með frv.``

Ég er nefnilega sammála því að það verður ekkert aftur snúið ef meiri hluti Alþingis staðfestir hér þá stefnumarkandi ákvörðun fjmrh. og ríkisstjórnar að velja þessa leið. Þá hlýtur um leið þessi ákvörðun að þýða að lífeyrisréttindamarkaðurinn á Íslandi mun smám saman leita eftir því að fá sömu niðurstöðu. Vegna þess að samræming lífeyrisréttinda er ekki bara af pólitískum eða siðferðilegum ástæðum réttlætismál heldur einnig vegna þess að það er gríðarlega mikið hagkvæmnismál. Það er ekki verjandi til lengdar að hópar fólks séu hólfaðir niður á vinnumarkaðnum eftir því hvort þeir eru opinberir starfsmenn eða ekki opinberir starfsmenn og eigi að njóta ólíkra lífeyrisréttinda eftir því. Það er ekki verjandi heldur að kröfur á hendur atvinnurekenda fari eftir því hvort þeir eru að hluta til í opinberum rekstri eða algerlega einkarekstri. Menn koma til með að þurfa að skipta um störf á starfsævinni ef vinnumarkaðurinn á að virka eðlilega og vera sveigjanlegur. Misræmið í lífeyrisréttindum veldur hvarvetna vandræðum. Þeir sem standa að hæstv. ríkisstjórn, þeir þeirra sem hafa kannski á áhuga á að hverfa í vaxandi mæli frá ríkisrekstri og breyta ríkisrekstri í hlutafélagaform og að einkavæða margvíslegan rekstur sem nú er á vegum ríkisins eiga eftir að reka sig á það að með því að staðfesta þessi góðu lífeyrisréttindi fyrir opinbera starfsmenn, ef þeir ætla að synja þeim sem áður voru í opinberri þjónustu en yrðu síðan í þjónustu annarra fyrirtækja á vinnumarkaðnum eftir einkavæðingu, eiga þeir eftir að kalla yfir sig þvílíka elda úlfúðar, illinda og deilna að það verður ekki séð fyrir endann á því. Þess vegna verðum við fyrst og fremst að staldra við þetta atriði.

Þessi stefnumarkandi ákvörðun hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnar er um það að stíga fyrsta skrefið í átt að samræmingu lífeyrisréttinda á íslenska vinnumarkaðnum á því stigi sem hér er verið að skilgreina nánar. Það er ekki búið að ljúka þessu máli. Þetta er byrjunin á þessu máli. Ég segi: Það er virðingarvert að taka á málinu. Ég virði þá viðleitni að loka gamla kerfinu og að segja við þá sem koma nýir í opinbera þjónustu: Eftirleiðis verður tryggt á tryggingafræðilegum forsendum að þær skuldbindingar sem efnt er til miðað við þessa réttindaávinnslu verða greiddar jafnóðum. Eins og fram kom í máli hv. formanns efh.- og viðskn., Vilhjálms Egilssonar, þá er það forsendan sem gengið er út frá og viðleitnin sem höfð er uppi. Það er ekki staðið við hana að fullu og öllu í framkvæmd. Það er líka rétt sem fram kom í máli hv. þm. dr. Péturs Blöndals að B-deildin er skilin eftir. Þar heldur áfram ávinnsla réttinda, upphleðsla skuldbindinga, kannski upp á 40 milljarða eða svo, til viðbótar. Því máli er slegið á frest. Það er eins og segir í nefndarálitinu, það er næsta verkefni. Það á að stíga skref, það skal tekið fram, þ.e. með samþykki frv. um fjárreiður ríkisins verður þetta gert gegnsærra með því að skuldbindingin er skráð og gjaldfærð, ekki bara í ríkisreikningi heldur í fjárlögum. Það er jákvætt skref. Það hefur ákveðin efnahagsleg áhrif, menn verða að taka mark á þeim skuldbindingunum en það er ekki búið að greiða skuldbindinguna.

Það eru líka stigin nokkur skref í þá átt að styrkja fjárhagsstöðu B-deildar. Ég held að það hafi ekki komið fram í máli þeirra sem hér hafa talað hingað til. Þ.e. með því að létta af kröfunni um endurgreiðslu af ávöxtun sjóðsins að nokkru. Það munar kannski ekki miklu um það en það er þó skref í rétta átt. Eins að því er varðar einn annan þátt.

Að því er varðar A-deildina er stóra málið þetta: Hvers vegna treysti hæstv. fjmrh. sér ekki til þess að binda um hnútana í samningum þannig að iðgjaldaþátturinn væri bundinn? Svarið er væntanlega það --- ég hef auðvitað svarið, það hefur ekki verið upplýst. Annaðhvort er það að samningamenn ríkisins hafa talið að það yrði dýrkeypt niðurstaða eða þeir viðurkenna að óvissuþátturinn, bæði að því er varðar þann fjölda sem kann að færast til úr B-deild í A-deild sé það stór að þeir treysti sér ekki til þess að binda iðgjaldagreiðsluna af þeim sökum og hafa hana þess vegna breytilega sem getur vissulega ýtt undir tortryggni um að þetta sé ekki á nægilega traustum forsendum byggt.

Herra forseti. Það er ástæða til alveg sérstaklega að vekja athygli manna á því að þessi stefnumarkandi ákvörðun hæstv. fjmrh. á eftir að hafa mikil áhrif. Það kom skýrt fram í viðræðum nefndarmanna í efh.- og viðskn. við forseta Alþýðusambands Íslands og það kemur mjög skýrt fram í nefndaráliti Alþýðusambandsins sem ég sé alveg sérstaka ástæðu til að vekja athygli á hér við umræðu málsins. Í nefndaráliti Alþýðusambandsins, undirritað af ekki aðeins forseta Alþýðusambandsins hedur formanni Verkamannasambandsins, formanni Sóknar, formanni Rafiðnaðarsambands Íslands, formanni Verkakvennafélagsins Framsóknar og formanni Dagsbrúnar, er vakin sérstök athygli á því að það er gríðarlegur munur á réttindum sem gilda annars vegar fyrir opinbera starfsmenn og hins vegar á almennum vinnumarkaði. Um það segir í álitsgerð Alþýðusambandsins, með leyfi forseta:

,,Þannig tryggir A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins 49--68% betri eftirlaun en þekkist í almenna lífeyrissjóðakerfinu, 42--49% betri örorkurétt og allt að helmingi betri fjölskyldubætur``, sem er nánar skýrt á sérstöku minnisblaði. ,,Til að fjármagna þetta hefur ríkisstjórnin samþykkt fyrir sitt leyti að greiða á næsta ári sem nemur 11,5% af heildarlaunum starfsmanna sem iðgjald til þessa nýja sjóðs. Ríkisstjórnin hefur með þessu frv. staðfest að hún telji ekki ástæðu til þess að launafólk greiði meira en 4% af heildarlaunum sínum sem iðgjald til þessa sjóðs. Þetta er áréttað með því að lögbinda framlag launafólks til sjóðsins.``

Að því er varðar hugsanlega áhættu af þessum stóru ákvörðunum segir svo í áliti Alþýðusambandsins, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin hefur með þessu frv. jafnframt mótað þá skýru stefnu að koma verði með öllum ráðum í veg fyrir að þessi lífeyrisréttindi verði hugsanlega fyrir skerðingu í framtíðinni vegna hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar eða aukinnar örorkutíðni með því að færa alla áhættuna af tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins yfir á ríkissjóð. Eins og kunnugt er verða almennu lífeyrissjóðirnir sjálfir að axla þessa ábyrgð. Þetta kemur bæði fram í því að öll réttindi sjóðfélaga eru lögbundin og einnig því að iðgjald ríkisins verður í framtíðinni breytilegt miðað við tryggingafræðilega stöðu A-deildar LSR á hverju ári.``

En það sem mestu máli skiptir þegar við reynum að meta áhrif þeirra ákvarðana sem hér er verið að leggja fyrir Alþingi er spurningin um hvaða áhrif þetta muni hafa á vinnumarkaðnum til lengri tíma og til undirbúnings kjarasamninga sem núna standa fyrir dyrum. Um það segir í álitsgerð Alþýðusambandsins, með leyfi forseta:

[24:15]

,,Full ástæða er til þess að leggja á það áherslu við Alþingi að Alþýðusamband Íslands hefur ekki átt neina aðild að þeirri umræðu sem fram hefur farið í aðdraganda þessarar nýju stefnumörkunar stjórnvalda. Eins og alltaf vill verða við slíkar aðstæður koma upp skiptar skoðanir um ýmsa þætti svona stefnumörkunar, m.a. um forgangsröðun verkefna ríkisins með hliðsjón af takmörkuðum tekjum ríkisins. Málið ber hins vegar þannig að undirrituðum að ógerningur er að gera grundvallarbreytingar á þessari stefnu miðað við þann tímaramma sem því er markað.

Undirritaðir telja hins vegar að ekki verði hjá því komist að þessi nýja stefnumörkun ríkisstjórnarinnar hafi víðtæk áhrif í öllu samfélaginu. Þrátt fyrir að 3. gr. frv. geri ráð fyrir mjög þröngum aðildarskilyrðum í þennan nýja sjóð þar sem aðild að tilteknum samtökum launafólks er lögð til grundvallar má ríkisstjórninni vera ljóst að ekki verður hjá því komist að allir landsmenn búi við sambærileg réttindi og þarna er kveðið á um, enda er það í samræmi við þá yfirlýstu stefnu ríkisstjórnarinnar að jafna lífeyrisréttindi allra landsmanna eins og fram kom í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna.`` Það er innskot mitt að á þessu vakti forseti Alþýðusambandsins sérstaka athygli í samtölum í efh.- og viðskn. og það liggur fyrir skilningur hans á því að með þessu frv. sé hæstv. fjmrh. að stíga fyrsta skrefið til þess að efna það fyrirheit stjórnarsáttmálans að samræma lífeyrisréttindi allra landsmanna. Ég held áfram tilvitnuninni, virðulegi forseti:

,,Annað væri hreinlega brot á jafnræðisreglunni. Sem dæmi um þetta mætti nefna að á bilinu 6--8 þúsund félagsmenn ASÍ eru starfandi hjá hinu opinbera og flestir þeirra falla, líkt og félagsmenn samtaka opinberra starfsmanna, undir lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá því í sumar. Miðað við aðildarákvæði frv. er hér verið að stefna að því að þessir félagsmenn, sem vinna sömu störf á sambærilegum kjörum og félagsmenn samtaka opinberra starfsmanna og greiða sama iðgjald af sínum launum til lífeyrissjóða, eigi að njóta ríflega helmingi verri lífeyriskjara bara vegna þess að þeir eru félagsmenn í almennum stéttarfélögum og af engri annarri ástæðu. Slíkt gengur auðvitað ekki upp. Málið snýr í sjálfu sér alveg nákvæmlega eins ef horft er til launafólks á almennum vinnumarkaði sem í krafti fjölda síns verður að greiða langstærstan hluta af þeim kostnaði sem af þessu kerfi hlýst með sköttum sínum, en á samt að njóta verri lífeyriskjara. Slíkt gengur einfaldlega ekki upp í okkar samfélagi. Um það verður aldrei sátt.

Í beinu framhaldi af þessi stefnumörkun sem ríkisstjórnin hefur opinberað með þessu frv. og yfirlýstrar stefnu um jöfnun lífeyrisréttar landsmanna er eðlilegt að það sama verði látið gilda um alla landsmenn. Þetta á bæði við um lögvarinn lífeyrisrétt og ábyrgð ríkissjóðs á tryggingafræðilegri samsetningu sjóðfélaga. Samþykki Alþingi meginefni frv. eins og það liggur fyrir felur sú samþykkt jafnframt í sér að ríkissjóður muni tryggja öllu launafólki í landinu þessi sömu réttindi og því verður ekki hægt að ganga frá kjarasamningum fyrr en óyggjandi staðfesting á því liggur fyrir.``

Það er ástæða til þess að vekja athygli á því að í umfjöllun efh.- og viðskn. fengum við einnig álitsgerð frá Sambandi almennra lífeyrissjóða, þ.e. stjórnarmönnum og ábyrgðarmönnum lífeyrisréttindakerfis á almennum vinnumarkaði, dags. 13. desember. Það er um margt athyglisvert út af fyrir sig og samhljóða athugasemdum Alþýðusambandsins. Ég vil beinlínis taka það fram að þeir taka undir öll grundvallarsjónarmið sem fram koma í álitsgerð Alþýðusambandsins, en segja síðan, með leyfi forseta:

,,Hjá lífeyrissjóðum á almennum markaði er það ekki sett sem skilyrði að viðkomandi sjóðfélagi sé félagsbundinn í stéttarfélagi, heldur er við það miðað að sjóðfélaginn starfi á samningssviði þeirra stéttarfélaga sem að sjóðnum standa. Í 3. gr. frv. er hins vegar gert ráð fyrir mjög þröngum aðildarskilyrðum í A-deildina þar sem aðild að tilteknum samtökum launafólks er lögð til grundvallar. Hér er augjóslega um að ræða brot á jafnræðisreglunni og má í því sambandi minna á að allt að 8.000 launþegar innan ASÍ eru starfandi hjá hinu opinbera og flestir þeirra falla undir lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þannig getur misréttið komið fram í þeirri mynd að starfsmaður sem greiðir í A-deildina fái 50--60% hærri ellilífeyri en vinnufélagi hans sem greiðir í almennan lífeyrissjóð.``

Af þessum tilvitnunum í talsmenn vinnandi fólks á almenna vinnumarkaðnum er alveg ljóst að þeir telja að þetta sé tímamótaákvörðun og stefnumarkandi ákvörðun. Þeir segja þrennt nú þegar:

1. Framhaldið hlýtur að verða það að félagar í ASÍ-félögum sem eru opinberir starfsmenn njóti sömu réttinda. Ég hygg að engum vörnum verði komið við í því máli.

2. Það er ekki unnt að ganga frá kjarasamningum án þess að þessi mál séu nú sett á oddinn beinlínis sem viðbrögð við þessari stefnumörkun stjórnvalda.

3. Þá kemur það skýrt fram að þeir eru sömu skoðunar og hv. þm. Sjálfstfl. dr. Pétur Blöndal um það að þegar fram líða stundir, þá muni þessi skilgreining lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna smita út frá sér um allan vinnumarkaðinn.

Herra forseti. Ég þarf ekki út af fyrir sig að segja neitt meira að því er varðar staðreyndir málsins um muninn á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og verkafólks á almenna vinnumarkaðnum, ekki heldur um fortíðarvandann. Það er búið að gera rækilega grein fyrir því. Að því er varðar lausnirnar er ástæða til að vekja athygli á því að þetta mál er kannski ekki eins mikil lausn og sumir kynnu að halda. Því fer fjarri að við séum hér að setja punktinn aftan við þetta mál eða það sé þegar leyst. En eins og ég hef sagt fyrr í ræðu minni, áður en hæstv. fjmrh. var kominn í salinn, þá er engu að síður á þeim forsendum sem hæstv. fjmrh. skilgreindi í samningum við opinbera starfsmenn stigið fyrsta skref. Það sem er virðingarvert er fyrst og fremst að gamla kerfinu er lokað og að stofnuð er ný deild sem á að byggja á því grundvallarsjónarmiði að áfallnar skuldbindingar eða ávinnsla réttinda í framtíðinni sé greidd.

Það er gagnrýni vert hins vegar að það er ekki stigið stærra skref. Það er rétt að að því er varðar leifarnar af eldra kerfinu, þá heldur það áfram réttindaávinnslu og uppsöfnun skuldbindinga sem ekki er búið að greiða. Það er líka gagnrýni vert að skilja við málið þannig að skilja eftir þessa gríðarlegu mismunun innbyrðis innan hóps opinberra starfsmanna eftir stéttarfélagaaðild sem fyrirvari okkar hv. þm. Ágústar Einarssonar snýst um og sem alþýðusambandið vekur athygli á. Það er mikið álitamál hvers vegna það er að hæstv. fjmrh. í sínum samningum og ríkisstjórnin í þessu frv. skilur við málið í þeirri óvissu um framtíðarþróun sem felst í því að binda ekki fast iðgjaldaupphæðina, jafnvel þótt hún yrði eitthvað hærri, eyða óvissunni en binda iðgjaldið fast.

Einn aðalvandinn sem við hefur verið að fást, fyrir utan upphleðslu skuldbindinga og þá óráðsíu sem fólst í þeirri fjármálastjórn, er náttúrlega fólginn í tvískiptingu vinnumarkaðarins. Hún skapar sjálf vandamál sem valda margvíslegum erfiðleikum. Ég vék að því áður að sveigjanlegur vinnumarkaður þarf að vera þannig skipulagður að menn geti auðveldlega skipt um starf, milli starfsgreina, milli fyrirtækja, milli atvinnurekenda, án hindrunar. Ef sett er upp eitthvert kerfi sem er þess eðlis að það byggir á slíkri mismunun réttinda að það dregur úr vilja manna til þess að færa sig til milli vinnuveitenda, milli rekstrarforma, opinberrar þjónustu, einkaaðila o.s.frv., þá skapar það vandamál fyrir einstaklingana og fyrir atvinnulífið í heild sinni. Það er einmitt þess vegna sem allar tillögur til lausnar á þessu stóra máli sem hingað til hafa verið fluttar hafa snúist um það að koma á samræmdu lífeyrisréttindakerfi. Vegna þess að menn hafa þóst sjá það fyrir að meðan það ekki næst, þá sitjum við áfram uppi með vandamálin. Það má segja að þetta frv. gerir það að svo miklu leyti sem það hefur ekki leitt málið til heildarniðurstöðu.

Ég held að það sé full ástæða til þess, herra forseti, að minna á það í mjög stuttu máli hvernig þessi mál hafa þróast á undanförnum árum út frá þessum punkti. Fyrsta þingmálið sem ég man eftir sem flutt var um samræmingu lífeyrisréttinda var flutt árið 1972 af þáv. þingmönnum Alþfl. og undir forustu dr. Gylfa Þ. Gíslasonar. Ég minni á að fyrrv. hv. þm. Sjálfstfl., hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og fleiri, fluttu slíkt mál á árinu 1975 og reyndar 1978. Síðar var það mál tekið upp og flutt af þingmönnum eins og Eyjólfi Konráði Jónssyni, Guðmundi Karlssyni, Salome Þorkelsdóttur og síðar reyndar einnig af hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, Lárusi Jónssyni og Agli Jónssyni. Þessar tillögur voru um einn samræmdan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn og þar af leiðandi samræmingu lífeyrisréttinda. Það er ástæða til þess að minna á hvers vegna menn lögðu slíka áherslu á samræmingu lífeyrisréttinda. Hv. þm. Pétur Blöndal rakti það hversu ógrunduð fyrstu skrefin voru þegar fyrst var sett á skyldutrygging lífeyrisréttinda og hvernig fjöldi fólks fékk raunverulega lítil sem engin réttindi út á greidd iðgjöld. Það er ástæða til þess að rifja upp að þegar við Kjartan Jóhannsson flytjum till. til þál. árið 1986 um þjóðaratkvæði um sameiginlegan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, þá gerum við það ekki síst á grundvelli rækilegrar greinargerðar frá fjölmennri nefnd sem gert hafði úttekt á lífeyrissjóðakerfinu þar sem raktir eru í löngu máli gallarnir á kerfinu, ekki aðeins fjöldi sjóðanna, ekki aðeins hversu áhættan var mikil í fjölda smárra sjóða, rekstrarkostnaðurinn mikill, heldur ekki hvað síst hversu takmarkaður áunninn réttur var í þessum sjóðum. Það var meðaltalið að menn voru í meira en sex sjóðum og takmarkanir að því er varðaði útborgaðan rétt voru gríðarlegar. T.d. var það algengt að settar voru takmarkandi og þrengjandi reglur um flutning réttinda milli sjóða. Það voru áreiðanlega fjölmörg dæmi þess að menn höfðu greitt skilvíslega til sjóðanna án þess að öðlast réttindi eða þau voru mjög skert. Það var illmögulegt fyrir fólk að halda til haga hver réttindaávinnslan var. Áhættudreifingin var mikil, fjöldi fólks týndi réttindum sínum o.s.frv. Röksemdirnar voru alltaf þær að ef menn vildu fá lausn í þessum málum sem stæðist til frambúðar, þá yrðu menn a.m.k. að koma á samræmdu lífeyrisréttindakerfi. Það var umdeilanlegt hvort þetta átti að vera einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn eins og við lögðum til. Á því höfðu menn skiptar skoðanir en yfirleitt var enginn ágreiningur um að markmiðið væri samræming lífeyrisréttinda til þess að losna úr þeim vanda sem hlýst af gríðarlega mismunandi réttindum af slíku tagi.

[24:30]

Það er ástæða til þess að minna á að í öllum þessum tillögum fyrr á tíð sem fluttar voru af hálfu Alþfl. var gengið út frá því að fara þá leið að bjóða opinberum starfsmönnum launahækkun fyrir samninga þar sem þeir féllust á nokkra skerðingu lífeyrisréttinda. Og af því að hv. þm. Pétur Blöndal sagði: ,,Opinberir starfsmenn hafa aldrei verið spurðir`` þá töldum við 1986, fyrir áratug síðan, að málið væri orðið svo stórt, uppsöfnun skuldbindinga væri þá orðin svo mikil að full ástæða væri til miðað við mál af þessari stærðargráðu að leggja það fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu og spyrja allan almenning um það hvort menn féllust á það sem stefnumarkandi ákvörðun að réttindakerfið skyldi vera samræmt. Jafnframt var áréttuð sú stefna að af hálfu ríkisins væru boðnar kauphækkanir jafngildar að verðmæti í staðinn. Þetta er eftir að við höfðum komið á verðtryggingu. Þetta er eftir að fyrsti vísir af fjármagnsmarkaði er kominn á og það eru komnir á raunvextir þannig að það voru komnar forsendur fyrir því að taka á þessu máli þá þegar.

Reyndar minni ég á það líka að árið 1988, í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, beitti ég mér fyrir því sem fjmrh. að flytja á hinu háa Alþingi frv. sem 18 manna nefnd og átta manna nefnd allra hagsmunaaðila hafði þá samanknúsað um þetta mál. Af minni hálfu var það gert til þess að fá Alþingi til umræðu um málið, tilraun til þess að fá menn til þess að leggja við hlustir og finna lausn. Því miður þraut það stjórnarsamstarf fljótlega og eftir það höfum við ekki haft forræði til þess að koma málinu út af fyrir sig fram. Síðan er langur tími liðinn og eins og fram kom í málflutningi fyrra ræðumanns mikil uppsöfnun réttinda og gríðarlegar upphæðir áfallnar á skattgreiðendur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið lengri að svo stöddu en ég vil að lokum leggja áherslu á eftirfarandi:

Í fyrsta lagi þetta: Óbreytt ástand var óþolandi. Það gat ekki haldið áfram til lengdar. Ríkisstjórnin hefur tekið af skarið með samningum við opinbera starfsmenn um að velja aðra af þeim tveimur leiðum sem einkum hafa verið í umræðunni. Sú leið kveður á um að festa í sessi og tryggja til frambúðar áunnin lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Af þeirri ákvörðun leiðir að sömu réttindi hljóta að ná til annarra opinberra starfsmanna þrátt fyrir ólíka stéttarfélagsbindingu. Annað er óverjandi. Og af þeirri ákvörðun leiðir að viðleitni manna til þess að leysa vandamál á vinnumarkaðinum með því að enda tvískiptinguna og koma á samræmdum réttindum tekur mið af þessu frv.

Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að stofna til nýrrar deildar er mjög jákvæð. Það er hið jákvæða í þessu máli að gengið skuli a.m.k. út frá því að uppsöfnuð réttindi verði greidd jafnóðum þegar nýir einstaklingar koma inn í réttindakerfið. Fyrirheit eru um að næsta verkefni sé að taka á málefnum B-deildarinnar líka þótt það sé ekki gert í þessu frv. Fortíðarvandinn er þess vegna enn óleystur, en það er búið að taka þýðingarmiklar stefnumarkandi ákvarðanir sem munu ráða því hvernig það verður leyst og engin deila er um það. Reikningurinn er gjaldfallinn. Ríkissjóður skuldar þetta. Hann ber ábyrgð á þessu og fram hjá því verður ekki komist.

Eitt kann að vera jákvætt að því er varðar almenn efnahagsleg áhrif af þessu þrátt fyrir allt. Það er í ljósi þess að við erum nú þar stödd í hagsveiflunni að við erum svona heldur að færa okkur upp á við, jafnvel svo í sumum greinum að margir óttast að þensluáhrif muni valda því að við eigum á hættu að springa á limminu og glata þeim stöðugleika sem hingað til hefur ríkt, að svo miklu leyti sem hér er um það að ræða að verið er með skipulögðum og lögbundnum hætti að þvinga fram aukinn skyldusparnað, fyrst meðal opinberra starfsmanna sem þrátt fyrir allt samkvæmt þessu eiga nú að greiða meira af launum sínum vegna þess að þeir greiða til A-deildarinnar iðgjöld af öllum sínum launum allan samningstíma sinn. Þetta þýðir með öðrum orðum hærri greiðslur af þeirra hálfu og þar af leiðandi minni kaupmátt. Þetta dregur þar með væntanlega úr neyslu og er sennilega raunsærri andþensluaðgerð en nokkuð af því innihaldslausa pírumpári sem sett var fram undir þeim formerkjum af hálfu ríkisstjórnarinnar í þeim efnahagsmálapökkum sem við vorum að ræða hérna áðan.

Gagnrýnin er fyrst og fremst sú að skrefið var stigið of stutt. Það liggur fyrir hver næstu skref eiga að vera og hver næstu verkefni verða. Af því að ég nefndi nú að þetta væri kannski að hluta til steinn í þá hleðslu að sporna gegn þenslu þá hlýtur aðaláhyggjuefnið náttúrlega að vera kjarasamningarnir. Því er yfirlýst að þetta mál verði sett á oddinn í kjarasamningum. Ég er alveg sannfærður um það að menn munu ekki ná kjarasamningum nema a.m.k. með því að gera það sem við hv. þm. Ágúst Einarsson segjum í okkar bókun að sé skylduverk stjórnvalda að gera, þ.e. að tryggja þessum 6--8 þúsund opinberu starfsmönnum í stéttarfélögunum sama rétt. Það er alveg held ég deginum ljósara.

Hitt málið er síðan það að ég á ekki von á öðru en að verkalýðshreyfingin muni knýja stjórnvöld til þess í þessum kjarasamningum að skuldbinda sig einhvern veginn að því er það varðar hvernig næstu skref verði stigin og fram hjá því verður væntanlega ekki gengið. En aðalatriðið er þetta: Ef menn vilja skapa stöðugleika og festu á vinnumarkaðinum sem slíkum þá eru það þarfar aðgerðir. Það er betra að menn geri það fremur en að viðhalda tvískiptingunni á vinnumarkaðinum með öllum þeim vandamálum sem af því hlýst fyrir einstaklingana sem eiga að njóta þessara réttinda, fyrir launagreiðendur sem eiga að búa við kerfið til frambúðar.