1996-12-20 00:40:37# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[24:40]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, formanni efh.- og viðskn., þegar hann segir að þau aðhaldsáhrif sem þessar ákvarðanir og þessar skuldbindingar og þessar lögbindingar hafa á væntanlega hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta að því er varðar ríkisfjármálapólitíkina almennt, séu aðalatriðið, a.m.k. eitt af aðalatriðum þessa máls.

Það er jákvætt skref að gera þetta sýnilegt með því að skuldbindingarnar komi fram í ríkisreikningi. Það er þýðingarmeira skref, ef það verður stigið, að þessar skuldbindingar verði færðar til bókar í fjárlagafrv. og í fjárlögum. Það þýðir að ríkisstjórn og þingmeirihluti á hvaða tíma sem er verður að axla ábyrgð af þessum ákvörðunum. Það þýðir jafnframt að krafan um ráðdeild í ríkisrekstri og, ef við horfum til næstu framtíðar, krafan um jafnvægi í ríkisbúskapnum verður úrslitakrafa auk þess sem það er alveg ljóst að vaxtaþróunin í landinu á næstu árum er ein af meginbreytunum eða stærðunum í því hvort þetta kerfi yfirleitt tekst eða tekst ekki. Um þetta erum við alveg sammála og þetta verður auðvitað spurning um pólitísk forgangsatriði.

Ég nefndi það í umræðum í efh.- og viðskn. að þegar menn horfðu á þessa skuldbindingu sem dr. Pétur Blöndal hefur verið að leika sér að sýna í ljósi allra handa samanburðardæma, sést að meiri hluti Alþingis Íslendinga hefur talið það vera algert forgangsatriði á undanförnum tveimur áratugum að verja þetta á milli, að raungildi, 1--2 tugum milljarða kr. til þess að leysa vanda sauðkindarinnar eins og ég kalla það gjarnan svo, þ.e. moka þeim peningum af lítilli skynsemi til þess að viðhalda óarðbærum rekstri. Við höfum ekki efni á því lengur vegna þess að eins og fram kom fyrr í þessum umræðum þá notum við ekki þessa peninga tvisvar.