1996-12-20 00:43:07# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[24:43]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. fjallaði í ræðu sinni einnig mikið um að þetta væri stefnumarkandi fyrir allan vinnumarkaðinn. Ég er ekki alveg sammála hv. þm. um að þetta sé endilega svo stefnumarkandi. Það er fyrst og fremst verið að búa til jafngilt kerfi frá hendi launagreiðandans. Það eru opinberir starfsmenn hins vegar sem velja að spara meira til þess að velja lífeyriskerfi sem byggir á því að lífeyrisréttur byrjar við 65 ára aldur. Ég held að á meðan við höfum sjálfstæða kjarasamninga þar sem lífeyrisréttindin tengjast svo mikið kjarasamningum, þá hljóti alltaf að geta komið til þess að mismunandi hópar velji mismunandi leiðir og þess vegna sé ég ekki að þessi niðurstaða leiði til þess að aðrir þeir samningsaðilar við ríkissjóð heldur en opinberir starfsmenn fái sjálfkrafa sömu niðurstöðu og félagar í BHM og BSRB. Það er ekkert sjálfkrafa. Það hlýtur að tengjast þeirra vali á niðurstöðu að einhverju leyti.

Ég er alveg sammála því að lífeyrismálin hljóta að koma upp í framhaldi af þessu sem viðfangsefni í kjarasamningum og ég tel að það sé ekki nema gott eitt um það að segja að menn fari yfir þau mál á hinum almenna vinnumarkaði og geri það upp við sig hvernig þeir vilja haga þeim málum. En ég sé ekki að hægt sé að spá neitt um þær lausnir fyrir fram eða gefa sér það að þetta sem nú er verið að gera skapi einhverja fyrir fram ákveðna niðurstöðu á hinum almenna vinnumarkaði.