1996-12-20 00:45:31# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[24:45]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég bið hv. þm. forláts en það hvarflar að mér jafnvel að ætla að hann tali hér gegn betri vitund. Ég segi þetta nú með fullri virðingu fyrir hv. þm. vegna þess að ég veit að hann er með mikla reynslu af vinnumarkaðsmálum. Og ég veit að hann hefur áreiðanlega heyrt skilaboðin alveg afdráttarlaust eins og þau birtast, ekki bara aðeins frá forustumönnum Alþýðusambandsins og helstu landssambanda innan Alþýðusambandsins, heldur einnig frá forsvarsmanna vinnuveitenda. Hann hefur heyrt viðvörunarorð þeirra og hann hefur heyrt alla útlistun á því hvernig misgengið eða misræmið í lífeyrisréttindum, sem er auðvitað stór partur og nú stærri partur af kjörum fólks, hefur á vinnumarkaðinum, t.d. að því er varðar þá viðleitni af hálfu stjórnvalda að stuðla að því að draga saman seglin í ríkisrekstri og ýta fram einkavæðingu, sem er stefnumál þessarar ríkisstjórnar. Þarna stöndum við bara frammi fyrir yfirlýsingum fulltrúa aðila vinnumarkaðarins sjálfra. Ég held að þær vegi miklu þyngra í þessu máli heldur en okkar orð. Við höfum það einfaldlega frá þeim. Og við vitum nákvæmlega og ég er algjörlega sannfærður um það, að af hálfu Alþýðusambandsins og af hálfu verkalýðshreyfingarinnar eru þetta ekki innantóm orð. Þetta er ekki bara til þess að skapa sér stöðu vegna þess að ég er alveg sannfærður um það að það er rétt. Þeir meina það sem þeir segja þegar þeir segja: Við munum að sjálfsögðu ekki ganga frá næstu kjarasamningum þannig að við látum þessi mál eins og vind um eyrun þjóta. Við ætlum að sækja okkur rétt sem ríkisvaldið hefur nú úthlutað sumum, í fyrsta skrefinu til þeirra starfsmanna, opinberra starfsmanna, starfsmanna ríkisins sem eru í okkar stéttarfélögum. Það verður fyrsta skrefið. Og í framhaldi af því er ég alveg sannfærður um það að þeir munu líta á þetta sem viðmiðun og reyna að sækja þennan rétt víðar á vinnumarkaðinum. Við þurfum nú ekki að deila mikið um þetta vegna þess að á næstu mánuðum og missirum mun reynslan skera úr um það hvor hefur rétt fyrir sér.