1996-12-20 00:47:48# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[24:47]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson spyr: Af hverju reyndu menn ekki að negla niður iðgjaldið? Setja það á, segjum 16% hámark, og þá í ljósi þess að allir útreikningar sýndu að þetta var 15,5% og spyrja þá í leiðinni: Trúa menn ekki því að þetta iðgjald verði 15,5% eða halda þeir að það verði 20% eða eitthvað slíkt? Í breytingum á iðgjaldinu felst nefnilega ríkisábyrgðin. Það er það sem starfsmenn vilja ekki sleppa. Og þeir gera sér fullkomlega ljóst hvar vandinn liggur. Hann liggur í því að ef svo skyldi vilja til að vextir færu undir 3,5%, sem er mjög líklegt, þá rýkur iðgjaldið upp úr öllu valdi. Það fer úr 15,5% upp í 20, 25, 30%. Og þá kemur félagsleg sprengja til langtíma, sem ég tala um. Það er nefnilega það sem gerist á sama tíma og iðgjaldið rýkur upp, þ.e. skuldbinding ríkissjóðs, þá þarf að skerða lífeyri í öllum almennu lífeyrissjóðunum því þeir eru allir reiknaðir með 3,5% vöxtum. Og ef vextirnir lækka um 1%, úr 3,5% niður í 2,5% þá þarf að skerða lífeyrinn væntanlega um 20--25% í almennu lífeyrissjóðunum, á sama tíma og opinberir starfsmenn halda sínum réttindum gulltryggðum og þetta fólk sem er skert um 20--25% þarf að borga með sköttum iðgjald sem fer upp í kannski 20% hjá opinberum starfsmönnum. Þetta er vandinn og ríkisstarfsmenn halda þess vegna í þetta.

Og síðan varðandi það sem hv. þm. sagði um það að menn mundu ekki meta launahækkanirnar. Maður sem er með 100 þús. kr. í yfirvinnu og 100 þús. kr. í dagvinnulaun þarf að borga með þessu nýja samkomulagi 50 þús. kr. meira á ári í iðgjald. Og ég er nærri sannfærður um það að þó hann fái þessu gullnu réttindi að þá muni hann gera kröfu til þess að fá 50 þús. kr. bættar með launahækkun til viðbótar.