1996-12-20 00:49:59# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[24:49]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt, ég spurði: Hvers vegna var það að hæstv. fjmrh., í samningum sínum við opinbera starfsmenn, lagði sig ekki allan fram um það að ljúka málinu, eyða óvissu, með því að binda iðgjaldið fast? Vegna þess að ég hef mikið hugleitt hvort það hefði ekki verið skynsamlegra og meira traustvekjandi jafnvel þótt það hefði kostað eitthvað hærra hlutfall heldur en 15,5. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur nú svarað vegna þess að hæstv. fjmrh. svarar ekki. Hann var í raun og veru að segja: Hæstv. fjmrh. samdi af sér, þ.e. hann samdi af sér fyrir hönd ríkissjóðs, hann samdi af sér fyrir hönd skattgreiðenda. Í hinu opna iðgjaldi, segir hv. þm., er ríkisábyrgðin fólgin. Það kemur alveg fram, kom fram í umræðum í efh.- og viðskn., kemur fram í nál. og hefur komið fram hér í þessum umræðum, að það eru ákveðnar efasemdir um forsendur og það er ákveðin óvissa um þróun þessa kerfis af því að það er opið. Og það sem hv. þm. sagði að ef fyrirsjáanlegar yrðu stórbreytingar í vaxtaumhverfinu þá er það auðvitað þáttur sem gjörbreytir mati manna á raunsæjum möguleikum til þess að standa undir kerfinu. Allt saman satt og rétt. Þetta undirstrikar það sem var í raun og veru mín niðurstaða. Það hefði verið mun skynsamlegri niðurstaða, það var partur af gagnrýni minni, að reyna að ná samningum um bindingu á iðgjaldinu. Það hefði breytt þessu í grundvallaratriðum. En hv. þm. er raunverulega að segja að þarna hafi opinberir starfsmenn út af fyrir sig unnið stórsigur í samningum við fjmrh. sem átti að gæta almannahagsmuna og hagsmuna skattgreiðenda vegna þess að í þessu er hin opna ríkisábyrgð fólgin. Hann samdi með öðrum orðum af sér.