1996-12-20 00:52:02# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[24:52]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég legg ekki dóm það hvort hv. þm. hafi rétt fyrir sér að hæstv. fjmrh. hafi samið af sér. Ég hygg að hann hafi ekki getað samið öðruvísi, að opinberir starfsmenn hafi bara ekki verið til umræðu um það að falla frá ríkisábyrgðinni. Hún er svo mikils virði. Þeir hefðu aldrei fallist á neitt sem hefði skert ríkisábyrgðina þannig að þetta var ekki til umræðu. Og ég er nærri viss um að það er ekki til umræðu fyrr en löggjafarvaldið tekur á sig rögg og lokar sjóðnum eða býður upp á einhvers konar aðrar lausnir, að nýir starfsmenn fari hreinlega í aðra lífeyrissjóði án ríkisábyrgðar. Ef ég væri ríkisstarfsmaður og væri að að semja við ríkið mundi ég aldrei ljá því máls að falla frá ríkisábyrgðinni, aldrei, vegna þess að í henni felst tryggingin.

3,5% raunvextir eru mjög háir ef maður lítur á langa sögu, 20--30 ár aftur í tímann. Ég hugsa að það hafi nánast hvergi fengist slíkir vextir á gulltryggðar innstæður. Sem dæmi má nefna að á 20 árum þá tvöfaldast innstæðan með 3,5% vöxtum. Þannig að 260 milljarðar íslenskra lífeyrissjóða munu vaxa bara vegna vaxtanna. Án iðgjalda og nokkurs annars vaxa þeir bara vegna vaxtanna í 520 milljarða á 20 árum. Og þá flæðir allt í peningum og vextirnir munu lækka eingöngu þess vegna. Þannig að 3,5% vextir eru töluvert háir og ég sé ekki litlar líkur á því að vextir fari niður fyrir 3,5% á næstu 10--15 árum. Og það grunaði opinbera starfsmenn. Þess vegna voru þeir ekki til viðræðu um það að falla frá ríkisábyrgðinni með því að setja þak á iðgjaldið sem hækkar ef vextir lækka.