1996-12-20 01:23:14# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[25:23]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að mjög mikilvægt sé að gera það sem ég og hv. þm. gerðu að umtalsefni, þ.e. að við reynum að standa skil á þeim skuldbindingum sem við höfum stofnað til. Það er stundum sagt um þá kynslóð sem ég og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson erum af, þá kynslóð sem velflestir alþingismenn eru af, að við höfum sótt í verðbólgugróðann okkar lífskjör nútíðarinnar. Við erum að sækja til framtíðarinnar, til barnanna okkar, þau lífskjör sem við ætlum að búa við í framtíðinni. Við höfum bæði lifað á forfeðrum okkar og ekki nóg með það, við ætlum líka að lifa á börnunum okkar. Það er margt til í því að við höfum byggt upp slíkt efnahagskerfi. Ég lít svo á að við höfum breytt um fyrir 15 árum hvað varðaði verðbólguna og þá þætti sem tengdust óverðtryggðum skuldbindingum. Ég held að það hafi verið mikið gæfuspor. Ég held að við séum að fóta okkur inn á það svið núna og hluti af þessu frv. og þeirri uppstokkun sem hér sé verið að reyna er að gæta þess að við verðum líka látin greiða okkar af skuldbindingum framtíðarinnar sem eru mjög verulegar.

Ég vil leiðrétta eitt. Ég talaði ekki um að önnur leiðin væri að berja niður réttindi BHMR eða BSRB heldur ræddi ég um að menn væru með lakari lífeyrisréttindi fyrir hærri laun. Þannig að við skulum hafa orðalagið með þeim hætti. Hér er um að ræða aðferðafræði um að hafa hlutina alveg jafna. Þetta er ein leiðin. Það eru vitaskuld fleiri eins og ég benti á og hv. þm. tók reyndar undir.