1996-12-20 01:27:41# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[25:27]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að margbúið væri að reyna að bjóða hærri laun fyrir lægri réttindi. Víst er það. Því hefur verið varpað fram í samningum en það getur verið að munur sé á fólki og foringjum. Það getur verið að fólk í opinberri þjónustu eins og annars staðar kjósi ef til vill að taka hluta af sinni launahækkun og fá hærri laun fyrir lakari lífeyrisréttindi. Ég veit það ekki. Ég er ekki að fullyrða að svo sé. En ég bendi á að einmitt þetta getur orðið nálgunin á almenna markaðnum, kannski í næstu kjarasamningum eða þar næstu að einhver launahækkun verði. Við getum nefnt einhverja tölu, t.d. 5%, og menn geti valið um hvort þeir taki kannski 3% af því í auknum lífeyrisréttindum, ég er að setja upp einfalt dæmi, og 2% í hærri launum eða eitthvað þess háttar. Því ég bendi á að samningurinn felur í sér að opinberir starfsmenn eru að greiða meira í lífeyrissjóð. Og ég er sannfærður um að opinberir starfsmenn, ekki bara foringjarnir, eru ánægðir með þetta. Þeir eru sáttir við að greiða meira því þeir greiða af eftirvinnulaununum sínum og þeir eru sáttir við að fá meiri réttindi með því að taka meira af laununum í lífeyrissjóð. Ég held að það sé almennt í þjóðfélaginu að menn vildu það gjarnan þó ekki væri einmitt í þessum kjarasamningum. Nú ætla menn að sækja raunhækkun launa í þeim samningum. Við vitum um það og við skulum sjá hvernig það gengur eftir. En við erum að hugsa um þessa breytingu sem við erum að gera. Hún hefur ekki bara áhrif næstu tvo til þrjá mánuði eða næstu kjarasamninga, við eigum ekki að tala um hana út frá því. Þetta er breyting sem hefur áhrif jafnvel í 5--20 ár eða kannski lengur. Þetta er viðamikil breyting sem verið er að gera og ég held að það sé vel hægt að finna möguleika til að lifa við þetta. Ég finn að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson efast í sjálfu sér ekkert um að það sé hægt. En ég vil einungis taka fram að ég held að þessi samningur sem hér er gerður njóti stuðnings bæði fólks og foringja.