1996-12-20 01:30:06# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[25:30]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í meirihlutaáliti hv. efh.- og viðskn. getur hv. þm. þess í athugasemd sinni að lögfesting frv. á þessu formi feli í sér skyldu stjórnvalda til að sjá um að starfsmenn ríkisins sem eru í stéttarfélögum ASÍ fái sömu lífeyrisréttindi. Og hann sagði reyndar í ræðu sinni að hann teldi að þetta mundi fara yfir allt þjóðfélagið. Nú er það svo að í dag borgar atvinnurekandinn 6% í lífeyrissjóð, 5,5% tryggingagjald sem stefnt er að, 1% í sjúkrasjóð, 0,25% í orlofsheimilasjóð. Launþegi borgar 1% í félagsgjald og 4% í lífeyrissjóð. Ef til viðbótar koma 5,5% í lífeyrissjóð sem atvinnurekandinn borgar, þá fær launþeginn 96 krónur af 121 krónu sem atvinnurekandi borgar í laun og launatengd gjöld. Launþeginn fær frá 79% og upp í 80% af þeim launum sem launagreiðandinn greiðir. Spurning mín til hv. þm. er þessi: Er auðvelt að bæta við þessum 5,5% ofan á launagreiðslur í ljósi þeirrar umræðu sem varð um tryggingagjaldið fyrir stuttu, sem er nákvæmlega sama tala --- allt tryggingagjaldið?

Önnur spurning: Hv. þm. sagði að þokunni hefði verið létt af. Var ekki nauðsynleg forsenda þess að gera réttindin eins?

Þriðja spurningin er: Telur hv. þm. að Sóknarkonur muni sætta sig við launalækkun þegar þær fá lífeyrishækkunina?