1996-12-20 01:56:47# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[25:56]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Af fyrri kynnum mínum af hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni leyfi ég mér að efast um það að hann sem sagði um sjálfan sig: Nú er tími til kominn að vera óréttlátur og ósanngjarn og lýsa sök á hendur sér, að hann sem vinnuveitandi væri svo óréttlátur og ósanngjarn að hann byði starfsfólki sínu í útgerð eða fiskvinnslu upp á það að vinna hlið við hlið á sömu launatöxtunum, en hluti starfsfólksins hefði 50--60% betri lífeyrisréttindi en þeir sem vinna við hliðina á því. Ég leyfi mér að vefengja það. Af því að það hefur verið mikil umræða um að hér sé ekki verið að gera neitt nema staðfesta óbreytt ástand og samviskan sefur meðan vitneskjan um ranglætið er ekki vakandi, þá er það ekki alls kostar rétt vegna þess að það var raunverulega svo að menn höfðu uppi efasemdir um að það yrði staðið við hinar áföllnu skuldbindingar. Það voru uppi efasemdir um að við þær yrði staðið. Það sem ríkið hefur gert er að taka af öll tvímæli um að við þær verði staðið. Og í annan stað að svo miklu leyti, eins og fram kom í máli hv. þm. Péturs Blöndals, sem um var að ræða vantryggingu í opinbera kerfinu áður, þ.e. menn greiddu ekki af yfirvinnu, 42% af tekjum launþega að meðaltali er yfirvinna, þá er A-deildin að bjóða upp á betri tryggingu en áður, að vísu líka gegn hærra iðgjaldi launagreiðandans. Það er hvort tveggja að þessum efasemdum hefur verið eytt. Kerfið hefur verið fest í sessi og að hluta til hafa verið boðnar fram betri tryggingar en áður var. Það er því ekki rétt þegar menn segja að ekkert hafi gerst annað en það sem hafði viðgengist alla tíð er bara orðið sýnilegt. Að því leyti er þrátt fyrir allt þokukenning hv. þm., félaga míns Ágústar Einarssonar, ekki alls kostar rétt.