1996-12-20 01:59:05# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[25:59]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér mjög vel grein fyrir því að atvinnurekandi sem á að hafa starfsmenn í vinnu með sömu vinnuna og mismunandi kaup er í miklum vanda og líklega er það þannig að það fær ekki staðist. En þetta hefur nú samt gengið þann veg fram meðan þetta var í þoku. Mig rekur minni til þess að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson var eitt sinn fjmrh. Þá var þetta í þoku og það eru ríkisstarfsmenn sem vinna hlið við hlið með sömu laun en mismunandi lífeyrisréttindi. Ég óttast, og það er það sem ég var að segja hér áðan, að kenning þeirra félaga væri rétt, við gætum ekki lifað við þetta eftir að þetta yrði sýnilegt. Það gæti verið rétt og þess vegna erum við að fara í ófæru. Við gátum lifað við það meðan það sást ekki, vissum um það, en þegar það kemur fram þá getum við það ekki, okkur er um megn að horfast í augu við það og við segjum: Nei, þetta gengur ekki, við verðum að færa þessi réttindi yfir alla þjóðina.

Ég trúi því að hið rétta fyrir íslenskt samfélag væri hitt, að reyna að leita samninga við opinbera starfsmenn með einhverjum ráðum þó að það hafi ekki gengið enn til þess að þeir hyrfu inn í sams konar kerfi og almenni vinnumarkaðurinn er með. Það væri kerfi sem ég hef trú á að samfélagið gæti lifað við. Þannig værum við betur settir og ég hef ekki trú á því við ráðum við það frekar en Þýskaland og hinar ríku þjóðir Evrópu sem eru að sligast núna undir lífeyriskerfi sem þeir borga í 18--20%. Það eru bara staðreyndir. Þessar þjóðir eru að sligast undan því í dag og þess vegna ætlum við að vera svo bjartsýnir að halda að þetta sé eitthvað sem við ráðum við. Ég hef ekki svo mikla trú.