1996-12-20 02:01:25# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:01]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Við alþýðubandalgsmenn menn stöndum, eins og kunnugt er, að því nefndaráliti sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson mælti fyrir fyrr í kvöld eftir að hafa farið yfir þetta mál í okkar þingflokki. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma neitt á óvart miðað við það hvaða áherslu við höfum lagt á það á undanförnum árum og áratugum að tekið verði á lífeyrismálunum.

Á árunum 1980--1983 unnu nefndir að þessum lífeyrismálum á mínum vegum sem heilbr.- og trmrh. og Ragnars Arnalds sem fjmrh. þar sem farið var yfir þessi mál og reynt að leita samninga. Það tókst reyndar langleiðina í nefnd sem var undir forustu Hallgríms Snorrasonar og forustu Jóhannesar Nordals. Í rauninni tókst ótrúlega vel að ná öllum mönnum þar til þess að tala saman og það strandaði á einum tilteknum samtökum sem ekki fengust til þess að standa að þeim samningi sem þá var gerður, því miður. Þess vegna var ekki unnið í málinu eftir það, það var ómynd sem var reynt að vinna í málinu eftir það. En við, bæði alþýðubandalagsmenn og aðrir, höfum alltaf vitað að hér var um að ræða vaxandi vandamál sem gerðist stöðugt flóknara og stöðugt erfiðara úrlausnar eftir því sem lengra leið án þess að á því yrði tekið. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel ástæðu til þess að fagna því að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og önnur samtök opinberra starfsmanna og fjmrh. hafa haft kjark til þess að stíga það skref sem hér liggur fyrir þó að það kunni að vera umdeilt því að það er örugglega fyrsta skrefið út úr vanda sem við viðurkennum út af fyrir sig öll að sé til staðar.

Ekkert okkar er þeirrar skoðunar að hérna hafi menn leyst vandamálin í eitt skipti fyrir öll. Öll erum við þeirrar skoðunar að við séum að leggja í langa vegferð sem m.a. muni hafa það í för með sér að hinn almenni launamaður í þjóðfélaginu, hvar sem hann er, muni leitast við að sækja sér þann rétt sem þarna er stefnt að að ná og tryggja. Í þeim efnum held ég að sé skynsamlegra að horfa til langs tíma, 5 ára, 10 ára eða 15 ára frekar en að gleyma okkur í þeim vandamálum sem við sjáum kannski í hinu harðasta augnabliki í statískri, frosinni nútíð. Ég held með öðrum orðum að hér hafi náðst mjög mikilvægur áfangi og tel að hæstv. fjmrh. sýni kjark og ég tel að opinberir starfsmenn geri það líka með því að ganga í verkið. Þess vegna finnst mér skrýtið þegar menn tala um þessi mál eins og hér hafi næstum að segja orðið verulegar náttúruhamfarir. Ég held að menn eigi líka að vera dálítið glaðbeittir andspænis þeirri framtíð sem menn sjá núna þrátt fyrir allt og taka undir það sem hér er sagt, m.a. af hæstv. fjmrh., að blindir hafa fengið sýn, menn sjá þessa hluti. Út af fyrir sig er það þó þannig að við sem höfum unnið við þessi mál lengi, t.d. ég sem hef verið yfirskoðunarmaður ríkisreikninga í mörg ár, höfum séð þessar skuldbindingar hlaðast upp. Ég hef talað um það á hverju einasta þingi ár eftir ár í öllum umræðum um ríkisreikninga að á þessu máli þyrfti að taka. Nú eru menn að taka á þessum hlutum. Að skjóta styrkari stoðum undir réttindakerfi opinberra starfsmanna með því að þeir leggja meira fram en verið hefur. Þeir hafa lagt heilmikið fram í lægri launum. Það eru upphæðir sem ekki sjást en eru viðurkenndar og hefur verið sagt við þá fullum fetum í öllum kjarasamningum á undanförnum árum og áratugum. Ég hlusta auðvitað líka á Alþýðusamband Íslands, það hef ég alltaf gert í þessum málum. Ég tel að það eigi að halda þannig á þessum málum að í framhaldi af þessari lendingu eigi menn að fara í rækilegar viðræður um hlutföllin á milli lífeyris, lífeyrisuppsöfnunar og kaupmáttar, lífskjara í núi og lífskjara í framtíð. Menn eiga að fara yfir þetta vandlega og reyna að stilla hlutina saman eins og kostur er, m.a. í því skyni að stuðla að því að verkalýðshreyfingin í landinu, bæði Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og öll þessi samtök geti átt samleið og þannig eigum við að tala. Við eigum ekki að setja þessi dæmi upp þannig að það sé óhjákvæmilegt að það endi í stríði á milli þessara samtaka, undirstöðusamtaka í íslenska þjóðfélaginu. Þau eru það. Heldur eigum við að leggja á það áherslu að þarna geti orðið samvinna og samstaða. Þar með er ég sannfærður um að þau vandamál, sem auðvitað munu mæta okkur á þessari vegferð eins og annarri, verður hægt að leysa ef við reynum að stilla saman strengina. Það er enginn hér að tala um að við ætlum að halda þannig á þessum málum, eða hvað? --- ekki nokkur einasti maður eins og hv. 3. þm. Vestf. benti okkur á áðan, að nokkur maður hér vilji sökkva þjóðinni í verðbólgudíkið á ný og örugglega síst þeir sem hafa kannski af ýmsum ástæðum lent í því að vera brenndari af því stríði en margir aðrir. Bæði að sekju hefur mönnum verið nuddað upp úr því og ósekju.

Það er alveg augljóst mál að það er enginn áhugi á því hjá verkalýðshreyfingunni eða Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja eða kennarasamtökunum eða öðrum samtökum hér í landinu að setja allt af stað á nýjan leik í einhverja bullandi vitlausa verðbólgu. Það viljum við ekki, það gerum við ekki og það ætlum við ekki að gera. Það er óþarfi að mála skrattann á vegginn. Það er óþarfi að gera það. Við eigum að vera raunsæ, ég tek undir það. Ég tek undir margt af því sem fram kom t.d. í sumum andsvörum hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, en við eigum að vera raunsæ, horfa á hlutina eins og þeir eru og viðurkenna að hér hefur verið stigið fyrsta skref í átt til þess að fólkið í landinu geti yfirleitt búið við sambærilegt réttindakerfi, viðurkenna að það geti tekið tíma og fagna því skrefi sem tekið er og þeim kjarki sem menn sýna sem getur kannski orðið til þess að blása fleirum lífsanda í brjóst en þeim sem hafa akkúrat fengið réttindin núna. Þess vegna segi ég eins og er, hæstv. forseti, ég hef undrast þennan heimsendaspádómstón sem mér finnst stundum vera í þessum umræðum og lýk ræðu minni með því að óska fjmrh. og samtökum opinberra starfsmanna til hamingju með að hafa kjark.