1996-12-20 02:09:18# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hinn vinnandi maður stendur undir kynslóðinni á undan sér, þ.e. gamla fólkinu, með iðgjöldum í lífeyrissjóð og öðrum ráðstöfunum, elliheimili og slíku. Hann sér líka um kynslóðina sem er á eftir honum, þ.e. börnin, hann sér um uppeldi þeirra. Það er enginn annar sem stendur undir þessum tveim kynslóðum sem ekki aflar tekna heldur en hinn vinnandi maður. Og þar sem hann sér um tvær kynslóðir auk þess að sjá um sjálfan sjálfan sig, þá getur hann ekki haft nema um 50% af launum sem lífeyri og það er markmiðið sem margar þjóðir stefna að.

Við erum í þessu kerfi að stefna að 80%, 90%, upp í 100% af launum sem lífeyri. Hvernig gengur það upp nema með því að kvelja hinn vinnandi sem þarf að sjá um báðar kynslóðirnar, fyrir framan sig og á eftir? Er það virkilega meining hv. þm. að leggja þvílíkar byrðar á hinn vinnandi mann sem er að sjá um börn? Hv. þm. hefur hugsanlega einhvern tíma kynnst þeim erfiðleikum, þeim vandræðum, þeim fjárhagsvandræðum sem felast í því að sjá um börn, koma þeim í skóla, útvega þeim föt, sjá um húsnæði, borga af lánum, og borgað skatta ofan á allt saman. Hefur hv. þm. einhvern tíma kynnst þessu? Og svo vinna menn undir drep og það fer allt í skatta, jaðarskatta o.s.frv. Hér er verið að leggja til að auka þetta enn meira og það hefur enginn velt fyrir sér hvað menn vilja tryggja. Og ég spyr hv. þm.: Hvað vill hann tryggja og hvað vill hann leggja miklar byrðar á hinn vinnandi mann?