1996-12-20 02:11:35# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gefur ekki mikið í álit ASÍ og Vinnuveitendasambandsins. Hann gefur ekki mikið fyrir álit þessara aðila um áhrif þessa frv. Þessir aðilar og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem ég tel að hafi hvað mest vit allra þingmanna á vinnumarkaðinum, segja allir að þetta muni hafa áhrif á allan markaðinn. Að það verði mikil átök á vinnumarkaði, hugsanleg óðaverðbólga. Einhver sagði að nú ætti maður að kaupa verðtryggð spariskírteini og hætta að kaupa óverðtryggt. Það var sagt í efh.- og viðskn. Ég spyr hv. þm.: Telur hann virkilega að hann hafi meira vit á þessu og þetta hafi engin áhrif á allt þjóðfélagið og menn muni ekki auka lífeyrisréttindi annars staðar? Ég er á þeirri skoðun að þetta muni smitast út um allan vinnumarkaðinn og áður en við vitum af stöndum við uppi með 5,5% aukaálögur á hinn vinnandi mann.