1996-12-20 02:12:43# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:12]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ég geri ráð fyrir því að þetta frv. muni í fyllingu tímans hægt og bítandi hafa þau áhrif að lífeyrisréttindi aukist annars staðar, ég geri ekki lítið úr því. Ég bendi á það að m.a. andspænis þeim efnahagsvanda sem nú er talað um, þ.e. mikilli þenslu, þá eru margir mjög uppteknir af því að það geti verið skynsamlegt að spara, m.a. í lífeyrissjóðum og húsnæðissparnaðarreikningum og hv. þm. er þeirrar skoðunar. Ég held þess vegna að hann þurfi ekki að mála þessa hluti svona svarta og hann eigi ekki að vera að reyna að búa til fjendur úr Alþýðusambandinu annars vegar og opinberum starfsmönnum hins vegar. Mér finnst það ljótur leikur sem hv. 16. þm. Reykv. er aftur og aftur að reyna að setja hér á svið, að koma illu af stað á milli samtaka launafólks í landinu. Ég held að við þurfum á allt öðru að halda til að leysa þau mál sem hér eru uppi og eru vissulega viðurkennd bæði af mér og öðrum.