1996-12-20 02:14:00# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:14]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í statískri frosinni nútíð. Það kann að vera rétt, kannski er ég þar og get ekki annað. Kannski er það svo að menn eigi að reyna að sjá hið góða alltaf í öllum hlutum og ég er reiðubúinn til þess. En það var nú bara þannig þegar ég stóð hér áðan að ég vildi frekar vara því að ekki veldur sá sem varar. Við höfum vonda reynslu í efnahagsmálum og við Íslendingar höfum mjög oft farið út af veginum. Það er nú þannig.

Það hefur aldrei hvarflað að mér annað en það séu fullkomin heilindi hjá öllum þingmönnum, bæði hv. þm. Svavari Gestssyni og öðrum, að auðvitað vilja þeir ekki gera neitt sem kemur samfélaginu illa, auðvitað. Ég er alveg viss um það og treysti því og trúi. En það er samt ástæða til að vara því að það hefur svo oft komið í ljós í mannheimum að ástæða er til að rifja upp það sem Páll postuli skrifaði forðum eitthvað á þessa leið:

Hið góða, sem við viljum gjöra, það gjörum við eigi, en hið illa, sem við ekki viljum, það gjörum við.