1996-12-20 02:26:29# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:26]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Mig langar til að segja örfá í lokin. Þó er ástæðan einkum sú fyrir því að ég kem í ræðustólinn að til mín var beint nokkrum fyrirspurnum frá hv. 11. þm. Reykn., Ágústi Einarssyni. Hann spurði þeirrar spurningar hvernig ég ætlaði að svara því þegar ASÍ-menn í starfi hjá ríkinu kæmu til mín sem viðsemjanda þeirra og óskuðu eftir að fá samsvarandi rétt. Því er til að svara af minni hálfu, og það hef ég reyndar gert margoft áður, að ég get ekki með nokkrum móti séð hvernig nýr réttur getur skapast hjá öðrum þótt þessi breyting sé gerð því forsendan fyrir breytingunni er sú að fólkið í svokallaðri A-deild fái jafnverðmæt réttindi fyrir framlag ríkisins og áður fengust. Mér er útilokað að sjá hvernig slíkt getur búið til rétt fyrir aðra aðila. Það er hins vegar ljóst að ríkið eins og aðrir á vinnumarkaði verður auðvitað að ræða við viðsemjendur sína um þessi mál og það kann vel að vera að undir einhverjum kringumstæðum vilji fólk breyta launum í lífeyrisrétt og það kann einnig að gerast einhvern tímann í framtíðinni að menn vilji breyta lífeyrisréttindum í laun. Það er vel hugsanlegt. Í þau mál verður þá farið í kjarasamningum eins og gera má ráð fyrir.

Hv. þm. spurðist fyrir um hvað ég segði um réttindi alþingismanna og ráðherra og hvernig ætti að fara með þau og greiðslur ríkisins í lífeyrissjóð þessara aðila. Ég hef áður svarað því að ég tel að að fara eigi sömu leið með þessa hópa. En ég hef jafnframt sagt að ég tel að forsn. þingsins eigi að vinna að því en ekki fjmrh. rétt eins og þegar forsn. breytti eða lagði til að Alþingi breytti biðlaunaréttinum eftir að starfsmannalögin voru sett á sínum tíma. Um þetta fjallaði ég í 1. umr. málsins. Þetta gefur mér tilefni til að segja frá því þegar menn eru að halda því fram að þessi breyting hljóti að kalla á að starfsmenn ríkisins biðji um sams konar réttindi og eigi í raun og veru heimtingu að fá þau á silfurfati, þá er svo alls ekki. Við höfum mýmörg dæmi um að menn hafa vitað um mismunandi lífeyrisréttindi og slík réttindi hafa komið í veg fyrir að fólk hafi fengið sömu laun. Við höfum t.d. dæmi um það sem ég kannast við að kona í BSRB fór fram á að fá sömu laun og karlmaður í öðru félagi sem vann nákvæmlega sömu störf hjá sömu stofnuninni. Niðurstaðan varð sú að ekki væri hægt að verða við því vegna þess að réttindi þeirra í lífeyrissjóðnum væru misjöfn og skýrðu muninn. Þannig að dæmi um þetta eru alþekkt nú þegar og það vita auðvitað allir þeir sem hafa verið fjmrh. og hafa þurft að sinna málum eins og þessu. Af því að hv. þm. spurðist fyrir um alþingismenn og ráðherra þá langar mig að leggja ákveðna þraut fyrir hann.

[26:30]

Segjum svo að forsn. þingsins ákvæði að breyta lögum þannig að ríkið ætti að borga með í sjóð alþingismanna og ráðherra af launum sem Kjaradómur ákvarðaði. Þá hygg ég að ríkið þyrfti að greiða kannski 20--25% hærri fjárhæð þannig að samtímagreiðslan nægði. Þá spyr ég hv. þm.: Er ekki alveg sjálfsagðasti hlutur í heimi að forseti þingsins bjóði öðrum starfsmönnum sem vinna hérna með okkur sams konar réttindi? Það er fólk sem vinnur hér og horfir á þetta, að við erum að fá jafnverðmætar greiðslur. Býr það ekki til rétt fyrir annað fólk? Ég held ef menn skoða þetta í fullri alvöru þá sjá menn að svo er ekki. Vegna þess að það er enginn nýr réttur sem verður til, þetta er viðurkenning á staðreyndum. Það eina sem hefur gerst er að hlutirnir hafa komið út úr þokunni, eins og hér hefur verið sagt í kvöld og orðið sýnilegir. Það er líka forsenda þess að hlutir geti breyst að þeir séu gerðir sýnilegir. Þegar staðreyndir sjást er það oftast til bóta. Það þýðir hins vegar ekki að nýr réttur verði til.

Ég vil taka það fram hér af því að mér er kunnugt um það að forsn. þingsins hefur þegar látið fara fram athugun á þessu máli þó þeirri athugun sé ekki lokið, en það er verið að kanna hvaða þýðingu þetta gæti haft fyrir alþingismenn og ráðherra. Ég vil að það sé sagt hér en ég tel að það sé ekki á mínu verksviði að gera slíkar tillögur.

Ég vil svo að allra síðustu, virðulegi forseti, þakka störf nefndarinnar. Mér er kunnugt um að margir nefndarmanna voru gagnrýnir á þessar tillögur og sumir auðvitað andvígur þeim. Mér finnst full ástæða til þess að það komi fram að nefndin hefur unnið sín störf mjög vel og ég tel að það beri að þakka sérstaklega. Ég vil einnig þakka þeim sem hér hafa tekið til máls af því að ég held að þessi umræða í kvöld hafi verið ákaflega gagnleg og skýrt marga hluti í málum sem skipta okkur miklu um langa framtíð. Það hefði vissulega verið gaman og fróðlegt ef menn hefðu getað gefið sér lengri tíma í þessa umræðu. En ég hygg að það skref sem verið er að taka núna í þessum málum verði giftudrjúgt. Það mun hafa áhrif, að sjálfsögðu. Það mun fyrst og fremst að mínu mati hafa þau áhrif að fólk mun hugsa meira um fyrirhyggju og ráðdeild heldur en hingað til hefur verið gert. Ég ætla líka að halda því fram að þetta sé ekkert endanlegt skref. Þetta er fyrsta skrefið. En það er eins með það ferðalag og önnur að hver ferð hefst á einu skrefi. Það ættu menn sem eru nýkomnir frá Kína að vita að eru alþekkt sannindi.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að flytja lengri ræðu en ítreka þakkir mínar sérstaklega til nefndarmanna en einnig til allra þeirra sem hér tóku til máls.