1996-12-20 02:34:33# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:34]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. svaraði ekki skýrt hvernig hann ætlar að mæta kröfum stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins þegar þeir sækja sambærilegan lífeyrisrétt. Við höfum talað um að nú séu hlutirnir sýnilegir og það verður allt önnur staða. Ég vil líka benda á að við erum að tala um fólk sem vinnur hlið við hlið og er jafnvel á sömu launum en með mismunandi rétt. Það vill fá þennan rétt. Mér finnst sanngjarnt og eðlilegt og á því byggist minn stuðningur við málið að stjórnvöld séu skuldbundin til að ganga að þessu þegar þetta frv. verður lögfest.

Ég ætla að benda á að það eru 5.000--6.000 manns í Alþýðusambandinu sem vinna hjá hinu opinbera. Þetta er ekki alveg svona einfalt. Það eru 34.000 manns sem vinna hjá ríkinu en það eru um 20.000 dagvinnustörf. Það eru 2.300 félagsmenn ASÍ, 7.500 félagsmenn BSRB, 4.300 félagsmenn BHMR og 3.000 manns í Kennarasambandinu. Það er það stór hópur fólks úr ASÍ sem vinnur hjá ríkisvaldinu og er í stéttarfélögum sinna heildarsamtaka að það verður ekki hjá því komist að taka á þessu máli með þeim hætti sem við höfum talað um. Þetta er vitaskuld samningsmál en þetta er eðlileg réttlætiskrafa sem þetta fólk mun gera vegna þess að það vinnur hlið við hlið á sömu launum og fjmrh., sem yfirmaður starfsmannastefnu ríkisins í kjarasamningum, kemst ekki hjá að svara þessu skýrar, a.m.k. þegar kemur að kjaraviðræðunum.

Það er fráleitur samanburður að segja þó það yrði gerð uppstokkun í lífeyrissjóði alþingismanna að starfsfólk hér í Alþingi, sem er náttúrlega alls góðs maklegt, er ekki alþingismenn. Þessi samanburður er náttúrlega alveg út í hött. Ég fagna því hins vegar að forsn. er að vinna að þessu máli. Og þar sem við erum svo heppnir að í forsetastól er forseti þingsins þá veit ég að hann hefur hlustað á þetta af gaumgæfni og gerir sér fulla grein fyrir því að það er nauðsynlegt að það verði tekið á lífeyrismálum alþingismanna og ráðherra í kjölfar samþykktar þessa frv. Það þarf að svara spurningunni í hvaða farvegi það mál er. En ég treysti forseta fullkomlega til að vinna að þeim þætti málsins.