Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 10:02:58 (2612)

1996-12-20 10:02:58# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[10:02]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (frh.):

Herra forseti. Frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 er nú komið til 3. umr. Ég vil í upphafi máls míns þakka öllum þeim sem hafa aðstoðað fjárln. við framhaldsvinnuna milli 2. og 3. umr., starfsmönnum fjárlagaskrifstofu og fjmrn. og starfsmönnum annarra ráðuneyta sem hafa brugðist vel við erindum nefndarinnar. Ég þakka starfsfólki nefndarinnar og starfsfólki Alþingis fyrir þeirra góðu vinnu og aðstoð við nefndina og endurtek þakkir til meðnefndarmanna sem hafa ekki látið mismunandi sjónarmið um ýmis mál koma í veg fyrir góðan vinnuanda.

Meiri hluti fjárln. hefur gefið út eftirfarandi frhnál. um fjárlagafrv.:

,,Nefndin hefur haft fjárlagafrumvarpið til athugunar frá því að 2. umræða fór fram 13. desember sl. Til viðræðna við nefndina komu forsvarsmenn B-hluta stofnana, þ.e. Ríkisútvarpsins og Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Fulltrúar efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og Þjóðhagsstofnunar komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins og horfur í þjóðarbúskapnum.

Í máli forstjóra Þjóðhagsstofnunar kom fram að horfur í efnahagsmálum fyrir árið 1997 hefðu ekki breyst að marki frá því að þjóðhagsáætlun var lögð fram á Alþingi í byrjun október, að því undanskildu að líkur á byggingu nýs álvers og stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hefðu aukist verulega. Fyrir vikið hafði Þjóðhagsstofnun metið áhrif slíkra framkvæmda á helstu þjóðhagsstærðir.

Áætlað er að fjárfesting vegna umræddra framkvæmda verði samtals tæplega 38 milljarðar kr. Þar af eru 23 milljarðar kr. vegna orkumannvirkja o.fl., 12 milljarðar kr. vegna nýs álvers og tæplega 3 milljarðar kr. vegna Íslenska járnblendifélagsins. Samkvæmt áætlun verður framkvæmt fyrir tæplega 15 milljarða kr. af þessari fjárhæð á árinu 1997.

Lauslegt mat á áhrifum þessara framkvæmda á helstu þjóðhagsstærðir sýnir meðal annars að landsframleiðslan ykist um 4,3% á næsta ári og þjóðarútgjöld um 7,1%. Til samanburðar má nefna að þjóðhagsáætlun gerir ráð fyrir að landsframleiðslan aukist um 2,5% og þjóðarútgjöld um 3,5%. Jafnframt yrði hallinn á viðskiptajöfnuði sem hlutfall af landsframleiðslu 4,5% í stað 2,9% í þjóðhagsáætlun. Við bætist að verðbólga færðist í aukana þótt erfitt sé að sjá fyrir hversu mikil áhrifin á hana yrðu við svona aðstæður.

Forstjóri Þjóðhagsstofnunar lagði áherslu á að ef þessum fjárfestingaráformum yrði hrint í framkvæmd væri brýnt að fylgja aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum til þess að stöðugleikanum yrði ekki stefnt í tvísýnu.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu mála og mun minni hlutinn skila sérstöku áliti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hann stendur að og gerðar eru tillögur um á sérstökum þingskjölum. Tillögur meiri hluta nefndarinnar, er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs, leiða til hækkunar útgjalda um 1.053,1 millj. kr.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1997 var reiknað með að tekjur ríkissjóðs yrðu 125,4 milljarðar kr., en nú er gert ráð fyrir að tekjurnar verði 126,2 milljarðar kr. eða 800 millj. kr. meiri en í fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram í haust.``

Áður en ég geri grein fyrir þeim brtt. sem meiri hluti nefndarinnar flytur vil ég víkja að örfáum atriðum varðandi stöðu ríkisfjármála. Í fyrsta lagi vil ég nefna tekjuhliðina og aðgerðir til að sporna við þenslu. Í öðru lagi vil ég víkja að útgjöldum til sjúkrahúsa og í þriðja lagi gera grein fyrir nokkrum atriðum sem þurfa skýringa við en ekki koma fram í breytingartillögum.

Í 2. umr. fjárlaga gerði ég að umtalsefni hættuna á þenslu í þjóðfélaginu ef framkvæmdir og fjárfestingarhlutfall hækka vegna væntanlegs álvers og virkjunarframkvæmda. Líkur á því að af þessum framkvæmdum verði hafa aukist síðan 2. umr. fjárlaga fór fram, en samt er of snemmt að slá nokkru föstu um niðurstöðuna. Af þessum orsökum hefur tekjuauki ríkissjóðs vegna þessa ekki verið reiknaður inn í tekjuspá fyrir árið 1997, en hins vegar hafa tilteknar aðgerðir í samgöngumálum verið ákveðnar til að draga úr framkvæmdahraða ef til þessara nýju framkvæmda kemur. Spyrja má hvort þessi vinnubrögð séu eðlileg og ég svara því til að svo sé.

Það er fyrst til að taka að við Íslendingar höfum búið við lágt verðbólgustig síðan þáttaskil urðu með þjóðarsáttinni 1989. Okkur á að vera annt um þann árangur. Það er nauðsyn til að halda samkeppnishæfni út á við, grundvöllur fyrir aukningu kaupmáttar og er grundvöllur fyrir því að almenningur geti staðið við skuldbindingar sínar. Að missa verðbólguna úr böndunum getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Það er skylda stjórnmálamannanna að horfa fram á veginn og líta yfir stundarhagsmuni. Það er einnig nauðsynlegt að læra af fortíðinni, því sem vel hefur tekist og þeim mistökum sem gerð hafa verið. Ég hygg að það geti verið hollt að rifja upp árið 1987 þegar aðstæður voru á borð við það sem þær eru nú. Þá var gífurleg uppsveifla í þjóðfélaginu vegna mikils sjávarafla. Hagvöxtur varð þá hvorki meiri né minni en 8,6%, fjárfestingarhlutfall miðað við landsframleiðslu þá var einnig hátt, 20,4%. Í þeirri miklu uppsveiflu var glímt við mikinn verðbólguvanda, en verðbólgan var á því ári 18,3%.

Eins og þá rekur minni til sem upplifðu þennan tíma fyrir níu árum, var ekki slegið af í framkvæmdum þá. Þar áttu hlut að máli ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar. Árið eftir, 1988, féll hagsveiflan og hagvöxtur var enginn, -0,1%. Fjárfestingarhlutfallið hélst þó í 19,7% en verðbólgan varð á því ári hvorki meiri né minni en 25,7%. Árið 1989 var minni háttar hagvöxtur 0,3%, fjárfestingarhlutfall 19,1%, en verðbólgan hélst enn í 21,1% þrátt fyrir að enginn hagvöxtur hefði verið í tvö ár. Þá var hins vegar gripið í taumana með þjóðarsáttinni og upphófst þá verðhjöðnun og tímabil lágrar verðbólgu sem stendur enn og okkur ber að varðveita með því að grípa til aðhaldsaðgerða fyrr ef þenslumerki gera vart við sig.

Með álveri á næsta ári mundi fjárfestingarhlutfallið fara í 22% að mati Þjóðhagsstofnunar eða enn hærra en það var árið 1987, framkvæmdaárið mikla. Tillögur þær sem kynntar hafa verið í fjárln. til að draga úr þenslu eru þess efnis, að Vegasjóður verji um 240 millj. kr. sem ætlaðar voru til framkvæmda til uppgreiðslu skulda. Þetta hefur ekki áhrif á fjárlagatölurnar nema innbyrðis en hefur áhrif til þess að draga úr þenslu.

Áformum um lántöku til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli var einnig frestað, en það er aðgerð með sama takmark og tilgang. Um hana er fjallað í lánsfjárlögum.

Þátttaka sveitarfélaga í aðhaldsaðgerðum hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu, einkum hlutur stærsta sveitarfélags landsins, Reykjavíkurborgar, í aðgerðum til að draga úr þenslu. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að sveitarfélögum eru skorður settar í þessu efni eins og ríkisvaldinu og lög og reglugerðarákvæði kalla á framkvæmdir. Það leysir þó sveitarfélögin ekki undan þeirri skyldu að horfa til efnahagsástandsins í aðgerðum sínum og þegar þau fjalla um fjárhagsáætlanir sínar. Þau eru hluti af samfélaginu eins og ríkisvaldið og áætla framkvæmdir á árinu 1997 fyrir 7,1 milljarð kr. Hins vegar vil ég leggja á það áherslu að nauðsyn ber til að sem best samstarf sé á milli ríkissjóðs og sveitarfélaga, frá málum sé gengið með samningum og við þá sé staðið á báða bóga. Heildarsamtök sveitarfélaganna hafa það hlutverk að koma fram gagnvart ríkisvaldinu.

Milli 2. og 3. umr. hefur verið gengið frá nokkrum málum milli ríkis og sveitarfélaga, milli félmrn. og fjmrn., með samkomulagi félmrh. og fjmrh. annars vegar og formanni og framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga hins vegar. Mál varðandi Innheimtustofnun sveitarfélaga eru í skoðun og einnig sameiginlegt verkefni sveitarfélaga og ríkisvaldsins um eyðingu refa. Nauðsyn ber til að ganga frá nýrri skipan þeirra mála og meta síðan hvort þær 7 millj. kr. sem brtt. við frv. gerir ráð fyrir til ríkissjóðs til að standa straum af þessum málum nægja til að mæta þeirri niðurstöðu sem þar fæst.

Niðurstaða mín er sú að það er fullkomlega eðlilegt að huga einmitt nú að þensluáhrifum ríkisbúskaparins, jafnvel þótt nokkur óvissa sé um það mál vegna álversins og komandi kjarasamninga. Fari svo að tekjuauki vegna aukinna framkvæmda og umsvifa í samfélaginu vegna einkaneyslu fari fram yfir það sem forsendur fjárlaga gera ráð fyrir, hlýtur það að vera takmarkið að sem stærstur hluti þess ávinnings fari til að lækka skuldir ríkissjóðs sem eykur svigrúmið til þess þegar til lengri tíma er litið að standa undir skyldum ríkisvaldsins í því að byggja upp, halda við mannvirkjum og halda uppi velferðarkerfinu í þágu fólksins í landinu. Þessi grundvöllur má ekki bresta.

Í tillögu fjárln. er gert ráð fyrir því að veita 300 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til sjúkrahúsanna í Reykjavík og falla frá því að ná 160 millj. kr. sparnaði fyrir sjúkrahúsin á landsbyggðinni á einu ári. Um þessar ákvarðanir er það að segja að í Reykjavík standa yfir aðgerðir til að auka samvinnu sjúkrahúsanna ef það gæti leitt til sparnaðar. Samningur þar um var gerður þann 28. ágúst sl. milli heilbrrh., fjmrh. og borgarstjórans í Reykjavík. Til þess að samkomulagið nái fram að ganga og til þess að leiðrétta grunn sjúkrahúsanna fyrir árið 1997 er eftirfarandi fjárveiting ætluð og er gerð nánari grein fyrir málinu í tölum í skýringum hér á eftir.

[10:15]

Varðandi sjúkrahúsin á landsbyggðinni er fallið frá því að ná sparnaðinum á einu ári. Fyrir liggur áfangaskýrsla frá vinnuhópi á vegum heilbrrn. sem fór yfir málið. Niðurstaðan varð sú að málið var ekki á því undirbúningsstigi að rétt væri að deila sparnaðinum út á hvert sjúkrahús. Fyrsta nauðsynlega skrefið væri að skipa verkefnisstjórn sem ræddi við stjórnir sjúkrahúsanna og annarra heilbrigðisstofnana um möguleika til að ná fram sparnaði með samvinnu og samruna til að mynda heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa. Nauðsyn ber til að hafa heimamenn með í undirbúningi aðgerða. Þeir hafa möguleika til að gefa umsagnir um héraðshlutdeild, upptökusvæði, kostnað á sjúkrarúm og aðrar forsendur sem lagðar eru til grundvallar þegar litið er á fjárlagagrunn þeirra sjúkrahúsa sem hlut eiga að máli.

Ég vil leggja áherslu á þá stefnumörkun í þessu sambandi að það ber nauðsyn til að styrkja heilbrigðisþjónustuna í sessi á landsbyggðinni og í þessa vinnu á að fara undir merkjum hagræðingar sem miðar að því. Ég tel að ef út í aðgerðir er farið undir jákvæðum formerkjum geti þær leitt til sterkari eininga og skýrari verkaskiptingar. Þá ber að koma málum þannig fyrir að framlög til sjúkrahúsanna verði endurmetin ef þeim tekst að auka sérfræðiþjónustu og héraðshlutdeild þeirra hækkar. Sterkari einingar hafa meira afl til að laða til sín sérfræðinga frá sérfræðisjúkrahúsum með farþjónustu. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga við það endurmat sem ætlunin er að fara í á landsbyggðinni. Í ljósi þessa þykir ekki raunhæft að ná sparnaði á skemmri tíma en þremur árum.

Af öðrum ákvörðunum sem teknar hafa verið nú við lokaafgreiðslu fjárlagafrv. vil ég sérstaklega nefna átak í landgræðslu og skógrækt sem gert er ráð fyrir að verja 75 millj. kr. til á næsta ári. Þetta er afar mikilvægt skref sem þjónar mörgum markmiðum í senn, að sækja á í uppgræðslu lands, leggja gull í lófa framtíðarinnar með ræktun nytjaskóga og standa við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá í október 1995, að auka árlega bindingu koltvíoxíðs í gróðri um 100 þúsund tonn á ári. Áhugi á aðgerðum í skógrækt hefur farið mjög vaxandi og m.a. hafa borist til fjárln. umsóknir um stuðning vegna undirbúnings skógræktaráætlana af Vestfjörðum, skjólskóga, og á Austfjörðum. Rétt er að litið sé á þau áform í ljósi þeirra áætlana sem nú eru í undirbúningi. Ég mun nú gera grein fyrir þeim brtt. sem meiri hluti nefndarinnar flytur við fjárlagafrv.

Þá er fyrst æðsta stjórn ríkisins. Þar er lagt til að hækka framlag til alþjóðasamstarfs þingmanna um 2,5 millj. kr. Kostnaður við þátttöku í Vestnorræna þingmannasambandinu hefur til þessa verið greiddur úr Norðurlandaráði en mun framvegis verða greiddur af löndunum þremur í þingmannasambandinu.

Kristnihátíðarnefnd óskaði eftir því á fundi sínum í sumar að veittar yrðu 7 millj. kr. til byggingar minningarkapellu á Ljósavatni á árunum 1997--1999. Kapellan yrði í minningu Þorgeirs Ljósvetningagoða og yrði vígð á 1000 ára afmæli kristnitökunnar árið 2000. Alls er gert ráð fyrir að verkið kosti 21 millj. kr. og kostnaðurinn skiptist á þrjú ár. Meiri hluti fjárln. fellst á þessa ósk og leggur því til þessa hækkun við 3. umr. fjárlaga.

Forsrn.: Framlag til Byggðastofnunar lækkar um 28 millj. kr. milli fjárlaga 1996 og fjárlagafrv. 1997 en það jafngildir um 13% lækkun. Meiri hluti fjárln. leggur nú til að hækka fjárveitingu til stofnunarinnar um 14 millj. kr. og er hækkunin ætluð til styrkveitinga til stuðnings við ráðgjafarstarf í atvinnumálum. Til viðbótar hinu hefðbundna atvinnuráðgjafarstarfi sem stofnunin hefur stutt allt frá því 1992 þegar lögunum var breytt og stofnuninni var fengið þetta hlutverk hefur hún gert samninga við Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunaraðila í þremur landshlutum og til að gæta jafnræðis boðið öðrum landshlutum sambærilega fyrirgreiðslu. Á móti auknu framlagi til Byggðastofnunar kemur aukið framlag úr héraði þannig að efling starfsins er meiri en sem nemur framlagi Byggðastofnunar.

Gerð er tillaga um lækkun framlags til húsameistara ríkisins vegna tilflutnings á störfum til Þjóðskjalasafns og kem ég nánar að því síðar í ræðu minni.

Menntmrn.: Meiri hluti fjárln. leggur til að auka launakostnað við Háskólann á Akureyri og ráða í tvær stöður.

Næst kem ég að tillögu er varðar Samvinnuháskólann en við 2. umr. fékk skólinn nýtt númer og nýtt heiti. Til samræmis við framsetningu annarra háskóla er lagt til að færa fjárveitinguna yfir á einn undirlið en ekki að skipta henni í kennslu og annað en kennsla eins og vaninn er með framhaldsskóla.

Gerð er tillaga um að taka inn nýjan fjárlagalið með framlagi til sameigna skólanna á Laugarvatni. Vegna breytinga sem orðið hafa á rekstri sameigna skólanna er fyrirhugað að fella niður sambærilega liði í B-hluta og er gerð viðeigandi breyting þar. Sértekjur sameignanna eru nú óverulegar og starfsemin felst fyrst og fremst í umsjón með íþróttamannvirkjum og ræstingu skólanna. Það er því eðlilegt að færa þessa starfsemi í A-hluta. Heildarlækkun er engin, þar sem á móti framlagi til þessa nýja liðar eru lækkaðar fjárveitingar til Menntaskólans á Laugarvatni og Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni. Í þessum breytingum felst ekki skerðing á framlögum til kennslu eða kennslutengdum útgjöldum við skólana.

Við 2. umr. var framlag til tölvubúnaðar framhaldsskóla lækkað um 13 millj. kr. en fjárhæðin flutt yfir á byggingarframkvæmdir. Meiri hluti fjárln. telur að of langt hafi verið gengið í þeim efnum og leggur til að auka framlagið aftur um 8 millj. kr. Það verður þá 15 millj. kr. en var 20 millj. í fjárlagafrv.

Lagt er til að hækka framlag til Þjóðskjalasafns um 5,9 millj. kr. Er embætti húsameistara ríkisins verður lagt niður verður skjalasafn embættisins afhent Þjóðskjalasafninu til varðveislu. Kostnaður menntmrn. vegna starfsmanna sem flytjast til Þjóðskjalasafnsins frá húsameistara auk kostnaðar vegna húsnæðis og flutninga er áætlaður 5,9 millj. kr. Á móti þessum kostnaðarauka lækkar framlag til fjárlagaliðar húsameistara þar sem ekki kemur til greiðslu biðlauna til þeirra starfsmanna sem flytjast yfir til Þjóðskjalasafnsins.

Tekinn er inn nýr liður sem er Kvennasögusafn, en safnið naut áður fjárveitingar í fjárlögum árið 1993. Í ræðu minni við 2. umr. lét ég þess getið að nýlega var opnað Kvennasögusafn sem hefur fengið aðstöðu í Landsbókasafni -- Háskólabókasafni. Ég taldi þó nauðsynlegt að koma á skýrum ákvæðum við greiðslu kostnaðar við þá starfsemi. Fjárln. hefur rætt málefni safnsins betur og komist að þeirri niðurstöðu að leggja til að safnið fái 1 millj. kr. fjárveitingu á fjárlögum.

Meiri hluti fjárln. leggur til að höfðu samráði við ríkisstjórn að Handknattleikssambandi Íslands verði veitt 14 millj. kr. framlag á árinu 1997. Eins og fram kemur í nál. er einnig tekin inn ný fjárveiting til Skíðaskólans í Kerlingarfjöllum en framlagið er ætlað til greiðslu á skuld við Framkvæmdasjóð og er því ein greiðsla.

Tvær breytingar eru gerðar við safnlið menntmrn. Annars vegar er lögð til ein millj. hækkun á óráðstöfuðum lið en sýnt var yfirlit við hann í brtt. fjárln. við 2. umr. fjárlaga. Í þeirri sundurliðun var lögð til ein millj. kr. hækkun til Saga film vegna kvikmyndar um Jón Sigurðsson. Meiri hluti fjárln. leggur nú til að hækka liðinn sem nemur þessari milljón. Hins vegar er gerð tillaga um 4 millj. kr. framlag til Snorrastofu sem ætluð er til greiðslu á skuld við embætti húsameistara ríkisins sem er til komið vegna hönnunar á nýrri kirkju í Reykholti.

Utanrrn.: Tillaga er varðar aðalskrifstofu utanrrn. er tvíþætt. Við 2. umr. fjárlaga var tekinn inn nýr liður er varðar þátttöku fulltrúa vinnumarkaðarins í EFTA- og EES-samstarfi en heildarkostnaður við þátttöku þeirra í nefndastarfi í tengslum við Fríverslunarsamtök Evrópu og samnings um Evrópskt efnahagssvæði er talinn nema um 4,5 millj. kr. Lögð var til 2,5 millj. kr. fjárveiting á þessum nýja lið og var hún millifærð af óskiptri fjárveitingu vinnumálaliðarins undir félmrn. Utanrrn. hefur haft um 2 millj. kr. til umráða til að styrkja þetta starf. Sú fjárhæð hefur verið færð á fjárlagalið aðalskrifstofu, en meiri hluti fjárln. leggur nú til að hún verði millifærð af aðalskrifstofu til þessa nýja liðar. Lagt er til að hækka framlag til aðalskrifstofunnar um 25 millj. kr. Þar er um að ræða eflingu þjónustu við fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum. Jafnframt því að utanríkisþjónustan verði nýtt betur í þessum tilgangi er gert ráð fyrir að þrír íslenskir starfsmenn verði ráðnir sérstaklega til þessa verkefnis auk tveggja staðarráðinna viðskiptafulltrúa. Þess verður gætt að viðskiptaþjónusta utanrrn. og starfsemi Útflutningsráðs verði samræmd og hafa átt sér stað viðræður um þetta við Útflutningsráð. Áætlaður heildarkostnaður vegna þess á ári ásamt útgjöldum sem falla á ráðuneytið og sendiráðin eru 31,9 millj. kr. og lagt er til að 25 millj. kr. framlag verði flutt af liðnum Markaðsátak erlendis á safnlið ríkisstjórnarinnar undir fjmrn.

Að ráði hefur orðið að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem kynntar voru í fjárlagafrv. 1997. Í stað þess verða eingöngu framkvæmdir við breytingar á innritunarsal og tengdum verkum. Áætlaður kostnaður við þær breytingar er allt að 120 millj. kr. Það er tillaga ríkisstjórnarinnar að þessar framkvæmdir verði að hálfu fjármagnaðar af tekjum flugmálaáætlunar og að hálfu af tekjum Fríhafnarinnar. Ákvörðun um þessa tilhögun á fjármögnun tekur einungis til ársins 1997. Meiri hluti fjárln. tekur undir og er sammála þessari málsmeðferð og leggur því til að veitt verði 60 millj. kr. framlag til A-hluta fjárlaga til Flugstöðvarinnar vegna hluta Fríhafnarinnar.

Þá er komið að landbrn. Ríkisstjórnin samþykkti að leggja til við Alþingi að á árunum 1997--2000 verði veittar alls 450 millj. kr. til landgræðslu og skógræktarverkefna í þeim tilgangi að stuðla að bindingu koltvíoxíðs í andrúmslofti í samræmi við framkvæmdaáætlun Íslands vegna rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Meiri hluti fjárln. gerði þessa tillögu að sinni en gert er ráð fyrir að þessar 450 millj. kr. skiptist þannig að á árinu 1997 verði veittar 75 millj. kr. til verkefnisins, 100 millj. á árinu 1998, 125 millj. á árinu 1999 og síðasta greiðslan er 150 millj. á árinu 2000.

Sjútvrn.: Eins og fram kemur í nál. leggur meiri hluti fjárln. til 10 millj. kr. fjárveitingu til að standa undir starfsmenntun fiskvinnslufólks, en hún er starfrækt á vegum starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar.

Dóms- og kirkjumrn.: Fjmrh. og félmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og Sambands ísl. sveitarfélaga gerðu nýlega með sér samkomulag um hvernig ríkissjóður bætir sveitarfélögum kostnað sem fellur á þau á árinu 1997 vegna laga um skattlagningu fjármagnstekna og fleira. Einn liður er að ríkissjóður tekur að sér að fjármagna hlut sveitarfélaga í rekstri neyðarsímsvörunar en framlag sveitarfélaga hefur verið jafnt framlagi ríkisins. Af þessum sökum er lagt til að framlag til neyðarsímsvörunar hækki um 25 millj. kr. og verði 50 millj. en breytingin hefur ekki í för með sér breytingu á starfseminni. Lagt er til að lækka launalið nokkurra sýslumannsembætta og færa fjárhæðina sem nemur átta störfum á safnlið löggæslukostnaðar. Með nýjum lögreglulögum sem taka gildi á næsta ári verður Rannsóknarlögregla ríkisins lögð niður en starfsemin færð til lögreglustjóra og ríkislögreglustjóra. Við gerð fjárlagafrv. í haust var ekki búið að ákveða hvernig átta stöður rannsóknarlögreglumanna skiptust á milli lögreglustjóra, en þá var gert ráð fyrir að stofnaðar yrðu sérstakar rannsóknardeildir er sæju um rannsóknir við nærliggjandi lögreglustjóraembætti. Átta störfum rannsóknarlögreglumanna var í fjárlagfrv. dreift um landið og fjárveitingar hækkaðar sem nemur launum í hálft ár ásamt sýslumannsembættum sem talin eru upp í brtt. meiri hluta fjárln. og í nál. Nefnd sem starfar að undirbúningi að gildistöku framangreindra lögreglulaga hefur ekki lokið skoðun á hvar þessar stöður eru best fyrir komnar og fór dómsmrn. fram á það við fjárln. að kostnaður vegna átta starfa rannsóknarlögreglumanna yrði færður á safnlið löggæslukostnaðar en gert er ráð fyrir að þessi staðsetning muni liggja fyrir í upphafi næsta árs. Ég vil taka skýrt fram að þessi breyting hefur ekki í för með sér uppsagnir þar sem þetta eru nýjar stöður í fjárlagafrv. og átti að ráða í þær frá og með 1. júlí á næsta ári.

[10:30]

Á safnlið löggæslukostnaðar eru einnig gerðar tvær aðrar tillögur. Annars vegar er lagt til að framlag til tækja- og búnaðarkaupa verði lækkað um 5 millj. kr. Ónotuð fjárheimild um áramót verður 2,5 millj. kr. sem flyst yfir á næsta ár. Til ráðstöfunar verða 12,5 millj. kr. eða sama fjárhæð og notuð var í ár. Hins vegar er lagt til að fella niður 30 millj. kr. sértekjur. Þar er um að ræða ósundurliðaðan sparnað vegna áforma um hagræðingu í löggæslu. Þessum sparnaði hefur nú verið frestað í eitt ár en mun verða tekið aftur til umræðu í tengslum við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1998.

Nokkur dráttur mun verða á því að taka ákvörðun um aðild Íslands að Schengen-samstarfinu. Meiri hluti fjárln. leggur því til að framlag til kaupa á véla- og hugbúnaði verði lækkað um helming eða um 10 millj. kr.

Framlag til sýslumannsins í Hafnarfirði lækkar vegna tilflutnings á stöðum sem ég gerði grein fyrir hér að framan. Á móti er lögð til hækkun á framlagi til embættisins um 2 millj. kr. en frá og með næstu áramótum mun embættið annast verkefni sem gjaldheimtan í Garðabæ hefur annast fyrir ríkissjóð til þessa. Fjárhæðin er futt á safnlið, Ýmis innheimtukostnaður.

Meiri hluti fjárln. leggur til að veita 6 millj. kr. til endurbóta á húsnæði sýslumannsins að Bjólfsgötu 7 á Seyðisfirði. Í fjárlagafrv. eru fyrir 7 millj. kr. og eru þær ætlaðar til að ljúka byggingu lögreglustöðvar á Vopnafirði. Fasteignum ríkissjóðs er ætlað að sjá um endurbætur hússins.

Lagt er til að veita 3,8 millj. kr. til embættis biskups Íslands vegna tveggja starfa aðstoðarpresta. Um er að ræða prest við Garðasókn á miðju ári og prest á Ísafirði allt næsta ár en eftir það fellur sú staða niður.

Að lokum vil ég taka fram að styrkur til Löngumýrar í Skagafirði sem meiri hluti fjárln. lagði til við 2. umr. fyrir ári síðan var ætlaður til uppbyggingar á starfsemi kirkjunnar á Löngumýri og endurskipulagningu hennar en ekki sérstaklega til launa starfsmanns. Við tilkomu Kirkjumálasjóðs var gert ráð fyrir að laun forstöðumanns yrðu greidd úr þeim sjóði en skilgreindur styrkur á fjárlögum til framangreindra verkefna.

Undir félmrn. er gerð tillaga um 2 millj. kr. fjárveitingu sem ætluð er til ráðgjafarþjónustu við fatlaða á Vesturlandi á vegum svæðisskrifstofu en þörf fyrir vistun og stuðning hefur aukist mikið á svæðinu.

Framlag ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er þríþætt. Í fyrsta lagi greiðir ríkissjóður 1,4% af skatttekjum sínum til sjóðsins eða sem nemur 1 milljarði 651 millj. kr. Þá greiðir ríkissjóður 0,264% af álagningarstofni útsvars eða sem nemur 704 millj. kr. Loks geiðir ríkissjóður 35 millj. kr. tímabundið framlag til Jöfnunarsjóðsins sem ætlað er til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga sem sameinast. Samtals mun því ríkissjóður greiða til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2 milljarða 390 millj. kr. á árinu 1997.

Lögð er til breyting á samsetningu skiptingar á framlagi til félagasamtaka. Meiri hluti fjárln. leggur til að veita Félagi heyrnarlausra 3 millj. kr. styrk en félagið hefur notið styrks úr ríkissjóði undanfarin ár. Safnliðurinn var afgreiddur við 2. umr. fjárlaga og var sundurliðun sýnd í brtt. meiri hluta fjárln. en vegna mistaka láðist að telja þessa fjárveitingu. Óráðstöfuð fjárveiting liðarins lækkar samsvarandi á móti og eru því heildaráhrif engin.

Einnig er lagt til að framlag á safnlið undir félmrn. hækki um 10 millj. kr. en sú fjárhæð á að standa undir greiðslum til Ísafjarðarkaupstaðar vegna þjónustu við flóttamenn frá fyrrum Júgóslavíu sem komu til Ísafjarðar sl. sumar. Útgjöldin eru í samræmi við samning milli Ísafjarðarbæjar og félmrn. Í þeim samningi skuldbindur félmrn. sig til að greiða Ísafjarðarbæ samkvæmt reikningi í samræmi við kostnaðaráætlun sem fylgir framangreindum samningi. Þessu framlagi verður bætt við sérstök yfirlit sem birt verða með fjárlögunum.

Ákveðið hefur verið að húsnæði Tryggingastofnunar verði fært í umsjá Fasteigna ríkissjóðs. Óskað var eftir 6,2 millj. kr. hækkun á framlagi til stofnunarinnar sem er munur á húsaleigu til fasteigna ríkissjóðs og þeim kostnaði sem Tryggingastofnun losnar undan að greiða en þar er um að ræða fasteignagjöld, tryggingar og viðhald. Meiri hluti fjárln. hefur fallist á þessa ósk og leggur því til framangreinda hækkun. Þessi breyting hefur verið gerð hjá allmörgum stofnunum og felur í sér að stofnanir greiða húsaleigu til Fasteigna ríkissjóðs sem tekur að sér rekstur og viðhald húsnæðis þeirra.

Fluttar eru tillögur um aukningu á starfsemi Sjúkrahússins á Akranesi og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Þessar hækkanir eru til skilgreindra verkefna og verður gerð grein fyrir þeim í nál. meiri hluta fjárln.

Meiri hlutinn leggur til að hækka rekstrarframlag til Sólvangs um 4 millj. kr. vegna hallareksturs. Áætlaður halli í árslok er tæpar 12 millj. kr. miðað við rekstrarframlag sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv.

Hér á eftir mun ég fara nokkrum orðum um fyrirhugaðar hagræðingaraðgerðir í rekstri sjúkrahúsa. Fyrst mun ég fjalla um litlu sjúkrahúsin utan Reykjavíkur.

Sl. haust skipaði heilbr.- og trmrh. nefnd til að gera tillögur um 160 millj. kr. lækkun rekstrarkostnaðar til þessara sjúkrahúsa á ársgrundvelli. Það var hluti af aðhaldsaðgerðum sem kynntar voru í frv. til fjárlaga fyrir árið 1997. Nefndin er um þessar mundir að ganga frá áfangaskýrslu til ráðherra. Þá vil ég fjalla um málefni sjúkrahúsanna í Reykjavík, þ.e. Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Eins og fram kemur í grg. með fjárlagafrv. gerðu fjmrh., heilbr.- og trmrh. og borgarstjórinn í Reykjavík samkomulag þann 28. ágúst um aðgerðir sem eiga að lækka útgjöld sjúkrahúsanna um 370 millj. kr. á ári. Í samræmi við það samkomulag og nýja greinargerð um framkvæmd þess og um fjárhagsvanda sjúkrahúsanna er gerð tillaga um 84 millj. kr. hækkun á framlögum til Ríkisspítalanna, þar af eru 7 millj. kr. tímabundin fjárveiting. Einnig er gerð tillaga um að fjárframlag til Sjúkrahúss Reykjavíkur hækki um 120 millj. kr. Tillagan er byggð á endurmetinni fjárþörf spítalanna í ljósi nýjustu upplýsinga um reksturinn frá stjórnendum þeirra. Þrátt fyrir þessar breytingar er nokkur munur á óskum sjúkrahúsanna um aukin framlög og því sem hér er gerð tillaga um. Í fyrrnefndri grg. kemur fram að unnið verði áfram að því að taka á málum sjúkrahúsanna m.a. með enn frekari verkaskiptingu milli þeirra og að það verði liður í því að rekstur þeirra verði innan fjárheimilda. Í því efni benda samkomulagsaðilar á að ástæða er til að styrkja enn frekar framkvæmdina á samkomulaginu og taka á þáttum þar sem ná má fram aukinni hagræðingu svo sem með samráði í starfsmannamálum, útboðum og í upplýsingavinnslu. Þá þarf að skoða starfsemi rannsóknadeilda, geðdeilda og taugalækningadeilda með tilliti til aukinnar samvinnu og sparnaðar. Til að greiða fyrir þessu er lagt til að sérstök 100 millj. kr. fjárveiting verði sett á liðinn 370 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi, sem verði notuð til að greiða fyrir enn frekari hagræðingu í rekstri sjúkrahúsanna og verði skipt á milli þeirra á grundvelli tillagna sem fyrir munu liggja í febrúar 1997.

Fjárlaganefnd hefur yfirfarið yfirlit um fjárhagsstöðu spítalanna og styður eindregið að áfram verði unnið markvisst að framkvæmd fyrrnefnds samkomulags um fjárhagsvanda sjúkrahúsanna. Jafnframt telur nefndin brýnt að sjúkrahúsin haldi áfram að hagræða í starfsemi sinni með því að færa reksturinn að fjárheimild í fjárlögum. Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég hef áður sagt í ræðu minni um sjúkrahúsareksturinn og sjúkrahúsareksturinn á landsbyggðinni.

Lögð er til nafnbreyting á liðnum Áfengisvarnir og bindindismál og fær hann heitið Forvarnasjóður. Breytingin er gerð að beiðni heilbrrn. og er í samræmi við lög um Forvarnasjóðinn og stefnu ríkisstjórnarinnar í áfengis- og fíkniefnavörnum.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1997 var kynnt að fjmrn. mundi leggja til að gerðar yrðu brtt. við fjárveitingar á fjárlagaliðum skattkerfisins. Við 2. umr. flutti meiri hluti fjárln. brtt. vegna þessa en þær voru dregnar til baka til 3. umr. til að gefa kost á að fjalla nánar um þær. Sú umfjöllun og skoðun hefur nú farið fram og er lagt til að gera þær breytingar sem lýst er í nál. Ástæða breytinganna er sú að í fjmrn. hefur verið til athugunar hvort auka megi skilvirkni skattkerfisins með því að endurskoða skipulag starfseminnar. Áfangi í þessu starfi hefur nú náðst með því að fjmrh. hefur ákveðið að sameina skatteftirlit sem framkvæmt hefur verið á skattstofum úti á landi embætti ríkisskattstjóra og stofna við embættið nýtt viðfangsefni sem heitir Skatteftirlit. Einnig er gert ráð fyrir nokkurri hagræðingu sem talið er að muni leiða af skönnun á skattframtölum. Tillögur meiri hluta fjárln. taka mið af þessum skipulagsbreytingum en rétt er að ítreka að eingöngu er um millifærslur að ræða og heildarfjárveiting lækkar ekki. Í þessum tillögum felst einnig hækkun til Skattstofunnar á Reykjanesi en framlag til hennar hefur verið lægra en annarra skattstofa sé tekið mið af umsvifum og íbúafjölda.

Gerðar voru nokkrar breytingar við 2. umr. fjárlaga á safnlið Skatta- og tollamála sem er hluti af framanlýstum breytingum. Stefnt er að því að frá og með næstu áramótum fullnusti sveitarfélögin greiðslur skuldbindinga vegna lífeyrisréttinda kennara. Talið er að þessar greiðslur geti numið allt að 380 millj. kr. á næsta ári og muni þær dragast frá greiðslum ríkissjóðs á uppbótum á lífeyri og leggur meiri hluti fjárln. til þessa lækkun við 3. umr.

Frá og með árinu 1998 munu hins vegar greiðslur ríkisins á uppbótum á lífeyri aukast um allt að 500 millj. kr. þar sem hætt verður að draga vaxtatekjur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins frá greiðslu uppbóta á lífeyri. Þessi kostnaður er hluti af því fé sem flyst frá ríki til sveitarfélaga vegna yfirtöku þeirra á rekstri grunnskólans. Um næstu áramót mun tekjuskattshlutfallið lækka um 2,74% vegna flutnings grunnskólans og færast til hækkunar á útsvarshlutfalli. Samtals flytjast um 6,4 milljarðar kr. til sveitarfélaganna.

Lagt er til að hækka útgjöld vegna heimildarákvæða um 80 millj. kr. til að mæta nýju ákvæði í 6. gr. fjárlaga sem gerð er tillaga um við 3. umr. Í þeirri tillögu felst heimild til að ráðstafa allt að 80 millj. kr. til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífi. Sérstaklega skal hugað að atvinnusköpun á þeim landsvæðum sem ekki njóta góðs af atvinnustarfsemi sem tengist uppbyggingu á orku á stóriðjusviði. Hins vegar leggur meiri hluti fjárln. til að lækka framlag til annarra heimildagreina um 15 millj. kr. og er þá heildarlækkun á liðnum við 3. umr. 65 millj. kr.

Ákvæði frv. til laga um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins eru talin munu auka útgjöld um 600 millj. kr. á árinu 1997. Það skýrist af því að gert er ráð fyrir að ríkissjóður inni af hendi samtímagreiðslur vegna skuldbindinga sinna gagnvart fyrirhugaðri A-deild Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna. Frv. felur í sér að iðgjöld ríkisstofnana af launum starfsmanna hækki úr 6% í 11,5%. Einnig greiðist þau af öllum launum í stað þess að greiðast einvörðungu af föstum launum áður. Fjárheimildin vegna þessara útgjaldaauka er færð í einu lagi undir liðinn 09-989 Launa- og verðlagsmál, en fyrirhugað er að henni verði deilt út til stofnana í lok næsta árs með hliðsjón af þessu breytta fyrirkomulagi.

[10:45]

Eins og áður er sagt gerðu fjmrh. og félmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og Samband íslenskra sveitarfélaga nýlega með sér samkomulag um hvernig ríkissjóður bætir sveitarfélögum kostnað sem fellur á þau á árinu 1997 vegna laga um skattlagningu fjármagnstekna o.fl. Einn liður í því samkomulagi er að ríkissjóður endurgreiðir sveitarfélögunum ígildi virðisaukaskatts vegna flutnings og förgunar á brotamálmum og annars úrgangs ásamt flutningi á úrgangi til endurvinnslu. Til viðbótar veitir ríkissjóður sveitarfélögunum árlega 20 millj. kr. styrk til kaupa á slökkvibílum og tækjabúnaði slökkviliða samkvæmt reglum sem fjmrn. setur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Samtals leggur meiri hluti fjárln. til að fjárveiting verði hækkuð um 35 millj. kr.

Samgn. hefur fjallað um skiptingu fjárveitinga til vetrarsamgangna og vöruflutninga. Fjárln. hefur fjallað um þá tillögu og flytur hana hér óbreytta að því frátöldu að óskipt fjárhæð er hækkuð um 700 þús. kr. Tekjustofnar Vegagerðarinnar fyrir árið 1997 hafa verið endurmetnir. Ætla má í ljósi innheimtu á þungaskatti á yfirstandandi ári að innheimta skattsins verði 25 millj. kr. meiri á árinu 1997 en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Í brtt. og nál. meiri hluta fjárln. eru sýndar þær breytingar á liðum Vegagerðarinnar sem gera þarf til samræmis við endurskoðun á vegáætlun. Samkvæmt till. til þál. um breytingar á flugmálaáætlun er gert ráð fyrir að markaðir tekjustofnar flugmálaáætlunar verði hærri en segir til í frv. til fjárlaga fyrir árið 1997. Gert er ráð fyrir að tekjurnar á árinu 1997 verði 534 millj. kr. auk 42 millj. kr. umframtekna frá árinu 1996. Alls er því gert ráð fyrir auknum tekjum að upphæð 76 millj. kr. og hækkar framkvæmdaliðurinn sem því nemur. Gerðar eru viðeigandi breytingar á fjárlagaliðnum. Eins og fram hefur komið í máli mínu verða 60 millj. kr. veittar á flugmálaáætlun 1997 til framkvæmda á innritunarsal og tengd verk í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Alþingi hefur nú samþykkt breytingu á lögum um tryggingagjald sem felur í sér að hin svokallaða Icepro-nefnd fái í sinn hlut sem nemur allt að 0,001% af gjaldstofni tryggingagjalds en það er metið á 2,2 millj. kr. Meiri hluti fjárln. leggur til að gera hér á viðeigandi breytingu á gjaldahliðinni og er því tekinn inn nýr liður vegna þessarar nefndar.

Lagðar eru til nokkrar breytingar á safnlið umhvrn. Megnið af þeim eru millifærslur milli undirliða að ósk umhvrn. en lagðar eru til tvær efnislegar breytingar. Tekinn er inn nýr liður sem varðar rannsóknastöðu á Kvískerjum og er þátttaka í uppbyggingu á vísinda- og fræðasetri á Kvískerjum. Fyrir liggur yfirlýsing frá Háskóla Íslands frá í sumar þar sem fram kemur að háskólinn sé reiðubúinn til að annast stjórn setursins og greiða beinan rekstrarkostnað þess. Tillaga meiri hluta fjárln. tekur mið af því að framlag ríkisins sé tímabundið til að byggja upp setrið og síðan taki háskólinn við rekstri þess.

Rekstur verkefnisins Botndýr á Íslandsmiðum hófst árið 1993 en áætluð lok eru árið 1999. Verkefnið er unnið í samstarfi Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar, Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands, Líffræðistofnunar Háskóla Íslands og Sandgerðisbæjar á vegum umhvrn. Verkefnið hefur notið styrks frá norrænu ráðherranefndinni en við gerð áætlunar fyrir árið 1996 var búist við að framhald yrði á þessari styrkveitingu og var gert ráð fyrir framlaginu í samráði við umhvrn. en í ljós kom að styrkurinn fengist ekki á þessu ári. Þrátt fyrir það var ákveðið að halda verkefninu áfram þar sem búið er að ráða fólk út árið til úrvinnslu sýna í Sandgerði. Meiri hluti fjárln. leggur til að hækka framlag um 6 millj. kr. þar sem hinn norræni styrkur féll niður en fáist hann aftur er gert ráð fyrir að þessi hækkun á safnlið umhvrn. falli niður.

Lagt er til að veita 7 millj. kr. framlag til eyðingar á refum. Eins og þingmönnum er kunnugt um er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir að fella niður greiðslur ríkisins vegna veiða á refum. Meiri hluti fjárln. leggur nú til að veita á ný framlag til þessa og er það nokkru lægra en í fjárlögum yfirstandandi árs sem er um 19 millj. kr. Umhvrh. mun skipa nefnd þar sem sitja mun fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga til að útfæra greiðslutilhögun á framlagi ríkisins til viðkomandi sveitarfélaga. Ekki hefur verið endanlega ákveðið hvernig þessu fyrirkomulagi verði breytt en það gæti orðið þannig að áfram yrðu greidd veiðiverðlaun og ríkið greiddi þau alfarið. Veiðiverðlaun mundu hækka nokkuð en allur annar kostnaður við refaveiðar og leit yrði greiddur af viðkomandi sveitarfélagi. Ríkið mundi einnig styrkja einstök sveitarfélög sem vegna sérstakra aðstæðna búa við erfið skilyrði til refaveiða. Gengið er út frá því að nýtt fyrirkomulag dragi ekki úr sókn í veiðar á ref.

Lagt er til að hækka framlag til Landmælinga Íslands um rúmlega 12 millj. kr. til að styrkja fjölþjóðlegt mæli\-átak í maí á næsta ári. Tilgangur verkefnisins er að sameina með GPS-mælingum hæðarnet og hæðarkerfi Evrópu ásamt sjávarborðsmælingum en slíkar mælingar geta komið Íslendingum að góðum notum. Útgjöld Landmælinga nema um helming kostnaðar en stofnuninni hefur boðist að kostnaðarlausu mælitæki, vinnuframlag sérfræðinga og ferðakostnaður þeirra auk úrvinnslu mælinganna. Kostnaðarhluti Íslands er greiðsla fyrir uppihald, bifreiðar og laun íslenskra mælingamanna og aðstoðarmanna. Eins og áður segir er lagt til að hækka framlag til Landmælinga Íslands sem þeim kostnaði nemur. Verkefni þetta er eingöngu á næsta ári og fellur þessi fjárhæð aftur niður í fjárlögum 1998.

Brtt. er varðar Veðurstofu Íslands er gerð að beiðni umhvrn. en þar er eingöngu um að ræða millifærslu milli liða en ekki efnislega breytingu. Heildaráhrif eru engin.

Að lokum eru lagðar til nokkrar breytingar á heitum liða auk tæknilegra breytinga og eru liðirnir taldir í nál. Eins og fram kemur þar er ekki um efnislegar breytingar að ræða og ekki eru fluttar um það sérstakar brtt. og óþarfi að fjölyrða um þær frekar.

Þá er komið að B-hluta en fjárln. ræddi við fulltrúa nokkurra B-hluta stofnana og fór yfir þann hluta fjárlaga sem fjallar um B-hlutann. Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um breytingar á átta áætluðum breytingum í B-hluta. Fyrst er að nefna tillögu um að sameiginlegur kostnaður við skólana á Laugarvatni verði fluttur úr B-hluta í A-hluta. Hlutverk stofnunarinnar hefur breyst eftir að gerður var samningur um skiptingu eigna milli ríkis og sveitarfélaga á Laugarvatni um breytingu á þjónustu íbúa við ríkisskóla á Laugarvatni í janúar sl. Stofnuninni hefur verið falið að annast allan rekstur á eignum ríkisins á staðnum, m.a. viðhald, húsvörslu og ræstingu í húsnæði Íþróttakennaraskólans og Menntaskólans á Laugarvatni.

Þá má nefna að áætlanir Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafa verið endurskoðaðar. Það leiðir til þess að innheimta námslána er talin aukast um 94 millj. kr. vegna fjölgunar greiðenda, afborganir lána eru taldar minnka um 100 millj. kr. og talið að fjármagnskostnaður hækki umfram fjármunatekjur um 16 millj. kr. Lagt er til að áætlaður launakostnaður sjóðsins hækki um 8 millj. kr. til samræmis við raunveruleg umsvif á síðustu árum. Þessar breytingar leiða til lækkunar á lánsfjárþörf sjóðsins um 170 millj. kr. og er hún þá áætluð 3.800 millj. kr.

Við 2. umr. fjárlagafrv. var framlag ríkissjóðs til sjóðsins hækkað um 100 millj. kr. og verður 1.600 millj. kr. Hækkunin er færð á höfuðstól sjóðsins og verður henni ráðstafað í samræmi við breytingar á lögum um lánasjóðinn sem unnið er að.

Í þriðja lagi er launaliður Þjóðleikhússins í B-hluta hækkaður en framlag til leikhússins var hækkað um 7 millj. kr. til að mæta hækkun lífeyrisskuldbindinga.

Í fjórða lagi hefur áætlun Sinfóníuhljómsveitar Íslands verið endurskoðuð. Framlag í A-hluta til hljómsveitarinnar var hækkað um 7 millj. kr. vegna verðlagsleiðréttinga, tekna af skemmtanaskatti og hækkunar lífeyrisskuldbindinga. Framlag annarra rekstraraðila eru hækkuð til samræmis.

Þá er áætlað að styrkir frá fyrirtækjum verði 1,6 millj. kr. sem verði varið til eignakaupa.

Söluáætlun Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli hefur verið endurskoðuð og er áætlað að skilin í ríkissjóð aukist um 60 millj. kr.

Í sjöunda lagi er ákveðið að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem kynntar voru í fjárlagafrv. Þess í stað verða eingöngu framkvæmdir við breytingar á innritunarsal og tengd verk. Áætlaður kostnaður við þær breytingar er allt að 120 millj. kr. Þar af verða 60 millj. kr. fjármagnaðar með tekjum flugmálaáætlunar í A-hluta fjárlaga og 60 millj. kr. með framlagi í A-hluta í samræmi við áætlaðan tekjuauka ríkisins af rekstri fríhafnarinnar.

Nýlega var ákveðið að hækka tóbaksverð um 2% til að fjármagna sérstakt átak í fíkniefnavörnum á næsta ári. Áætlun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er hækkuð um 65 millj. kr. og verður fjárhæðinni skilað í ríkissjóð.

Að lokum er ákveðið að hætta rekstri þjónustumiðstöðvar ríkisverðbréfa á næsta ári. Þetta leiðir til þess að launaliður og fjármunatekjur Lánasýslu ríkisins lækka um 9 millj. kr. Afkoma Lánasýslunnar verður því óbreytt.

Auk þeirra skýringa sem ég hef nú gert grein fyrir við einstakar brtt. við frv. vil ég gera grein fyrir stöðu eftirfarandi mála sem nefndin hefur tekið til umræðu. Það er í fyrsta lagi um jarðræktarstyrki. Þann 15. maí sl. skilaði umboðsmaður Alþingis áliti um umsóknir bænda um jarðræktarframlög sem ekki hafa verið greidd sökum þess að ekki hefur verið veitt fjármunum til þess á fjárlögum. Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að bændur eigi rétt til framlags úr ríkissjóði samkvæmt ákvæðum 7. og 10. gr. jarðræktarlaga, nr. 56/1987, til þeirra jarðræktarframkvæmda sem þeir hafa ráðist í. Það kemur enn fremur fram að þeir verða að hlíta óbreyttum lögum, að greiðsla framlaganna dregst þar til fé fæst til þeirra af fjárlögum og að framlag greiðist samkvæmt reglum sem Bændasamtök Íslands móta.

Áður en niðurstaða umboðsmanns varð ljós var hafin vinna við endurskoðun búfjár- og jarðræktarlaganna. Í þeirri nefnd sitja auk tveggja fulltrúa landbrn., þrír fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands og einn frá fjmrn. Gert er ráð fyrir tillögum frá þeirri nefnd snemma á næsta ári. Landbrn. hefur haldið til haga við fjmrn. og fjárln. þeim fjárhæðum sem framlögin nema. Ráðuneytið hefur lagt á það áherslu við endurskoðun laganna að um leið og liggja fyrir tillögur um breytt fyrirkomulag framlaga til framkvæmda og leiðbeininga verði gengið frá áætlun í samráði við Bændasamtök Íslands um greiðslu vegna jarðræktarframlaga og sú niðurstaða lögð fyrir Alþingi. Ég tel nauðsynlegt að gera grein fyrir þessu máli vegna stöðu þess og undirstrika mikilvægi þess að það verði leitt til lykta.

Hjúkrunarheimili og daggjaldastofnanir. Við yfirferð nefndarinnar hefur komið í ljós að fjárveitingar til hjúkrunar- og dvalarheimila eru mismunandi. Það er skoðun meiri hluta fjárln. að meira samræmi þurfi að vera í framlögum til rekstrar sem þessa og leggur meiri hlutinn til að heilbrrn. láti gera úttekt á framlögum til hjúkrunarheimila og daggjaldastofnana og verði skýrsla um úttektina og niðurstöðutölur hennar lögð fyrir fjárln.

Þá vil ég nefna að veitt var viðbótarframlag til Sinfóníuhljómsveitar Íslands við 2. umr. fjárlaga og var gerð grein fyrir því máli þá. Hins vegar hyggur hljómsveitin á Grænlandsferð vegna opnunar Norræna hússins á næsta ári og var ekki gert ráð fyrir því í fjárveitingum til hennar í fjárlagafrv. Samkomulag hefur nú orðið um að þetta mál verði leyst af ráðstöfunarfé ríkisstjórnar.

Herra forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir þeim atriðum sem tekin voru til meðferðar hjá fjárln. milli 2. og 3. umr. Þá vil ég greina frá niðurstöðunni í tölum:

Tekjur samkvæmt frv. eru 125,4 millj. kr. Við endurreikning bættust við 800 millj. þannig að heildarútkoman á tekjuhlið verður 126,2 millj. kr.

[11:00]

Gjöld voru áætluð 123,4 millj. Við 2. umr. bættust við útgjaldatilefni upp á 703 milljónir og við 3. umr. 1.053,1 milljón. Samtals er niðurstaðan á gjaldahlið 126 milljarðar 96,9 milljónir. Niðurstaðan er því sú að tekjur umfram gjöld eru áætlaðar 127,1 millj. kr. Það markmið að afgreiða hallalaus fjárlög hefur því náðst. Það er afar mikilvægt innlegg í íslensk efnahagsmál og með því er styrktur grundvöllurinn fyrir lágri verðbólgu, lækkandi vöxtum og það eykur samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Markmiðið hlýtur því að verða það á næsta ári að standa vörð um þann árangur sem hér hefur náðst. Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.