Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 11:01:41 (2613)

1996-12-20 11:01:41# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. minni hluta KHG
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[11:01]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Fjárln. hefur að þessu sinni lokið störfum við fjárlagafrv. Miklar annir eru hjá nefndinni á haustþingi þegar þetta mál er til umfjöllunar í þinginu og hjá þingnefndinni og má segja að það sé viss léttir hjá nefndarmönnum þegar þessu mikla verki er lokið og nefndin hefur skilað því af sér endanlega til þingsins. Við þetta tækifæri vil ég færa fjárlaganefndarmönnum og þá sérstaklega fjárlaganefndarmönnum meiri hlutans þakkir fyrir ágætt samstarf við minni hluta nefndarinnar og einkum formanni og varaformanni nefndarinnar fyrir lipra fundarstjórn. Þeir hafa lagt sig fram um að leysa tæknileg vandamál í samskiptum milli stjórnar og stjórnarandstöðu og færi ég þeim þakkir fyrir það. Þá vil ég enn fremur færa starfsfólki fjárln. þakkir fyrir vinnu þeirra og mikinn dugnað við að aðstoða einstaka nefndarmenn og nefndina í heild við sín störf.

Herra forseti. Á milli 2. og 3. umr. var einkum fengist við tekjuhluta fjárlagafrv., heilbrigðiskafla þess og vegamálakafla auk þess sem fjallað var um 6. gr. frv. og B-hluta stofnanir. Ég mun hér gera grein fyrir frhnál. minni hluta í þessum þáttum og kynna álitið eins og það er lagt fram og síðan munu einstakir fulltrúar minni hlutans bæta um betur eftir því sem þörf þykir og ástæða er til. En í frhnál. minni hlutans segir svo um tekjuhluta fjárlagafrv., með leyfi forseta:

,,Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1996 voru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 120,9 milljarðar kr. Endurskoðuð tekjuáætlun fjármálaráðuneytis gerir nú ráð fyrir að tekjurnar verði 127,2 milljarðar kr. Tekjur umfram áætlun fjárlaga nema því rúmum 6,3 milljörðum kr. Frá árinu 1995 hafa tekjurnar aukist um tæpa 12,8 milljarða kr. Ljóst er að þjóðhagsforsendur fjárlaga ársins 1996 hafa reynst fjarri lagi. Fjárfesting hefur aukist um 7,7% umfram þjóðhagsforsendur fjárlaganna og einkaneysla um 2,8%. Þá hafa ráðstöfunartekjur einstaklinga aukist talsvert meira en áætlað var.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1997 er gert ráð fyrir talsvert minni umsvifum á því ári miðað við yfirstandandi ár. Þannig er gert ráð fyrir að fjárfesting aukist einungis um 5,5% í stað 24% á yfirstandandi ári ef forsendur ganga eftir og aukning einkaneyslunnar verði 3,5% samanborið við 7,0% í ár. Miðað við áætlaða aukningu þjóðarútgjalda og flutning á hluta staðgreiðslunnar til sveitarfélaganna er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs lækki um 1,1 milljarð kr.

Miðað við þau umsvif og væntingar sem hafa verið í efnahagslífinu að undanförnu, svo og með hliðsjón af því vanmati sem iðulega hefur verið í þjóðhagsforsendum fjárlaga, samanber yfirstandandi ár, telur minni hlutinn að tekjur ríkissjóðs þróist ekki með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og endurskoðaðri tekjuspá. Eins og fram kom við 2. umræðu taldi minni hlutinn að tekjur ríkissjóðs samkvæmt frumvarpinu væru vantaldar um 1,5--2,0 milljarða kr. Þrátt fyrir að endurskoðuð tekjuáætlun hafi hækkað tekjurnar um 600 millj. kr. telur minni hlutinn að enn vanti um 1,0--1,2 milljarða kr. á tekjuhlið frumvarpsins. Eru það fyrst og fremst veltuskattarnir, m.a. innflutnings- og vörugjöld, og virðisaukaskattur sem telja verður að skili meiri tekjum en hér kemur fram miðað við þær þjóðhagsforsendur sem frumvarpið byggist á.

Fátt bendir nú til þess að umsvifin minnki á næsta ári. Að undanförnu hafa líkur aukist verulega á að ráðist verði í byggingu nýs álvers á Grundartanga ásamt stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Að mati Þjóðhagsstofnunar munu þessar framkvæmdir, ásamt nauðsynlegum stækkunum á orkumannvirkjum, valda því að fjárfesting og almenn umsvif í þjóðarbúskapnum stóraukast á næsta ári miðað við það sem áður hefur verið áætlað. Þó að eingöngu yrði ráðist í byggingu nýs álvers stefnir í 25% aukningu fjárfestingar sem er tæplega fimmfalt meiri aukning á fjárfestingu en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Lauslegt mat Þjóðhagsstofnunar bendir einnig til þess að áhrif þessara framkvæmda verði um 4,3% aukning landsframleiðslu í stað 2,5% og aukning þjóðarútgjalda um 7,1% í stað áætlaðra 3,5%. Ef þetta gengur eftir mundu helstu hagstærðir breytast á svipaðan hátt og fyrirsjáanlegt er að reyndin verði í ár. Rétt er að minna á að efnahagsþróun á þessu ári hefur leitt til þess að tekjur ríkissjóðs á þessu ári aukast að öllum líkindum um tæpa 12,8 milljarða kr. eða ríflega 11% frá árinu 1995.

Eins og áður hefur komið fram taka forsendur fjárlagafrumvarpsins ekkert mið af líklegum framkvæmdum við nýtt álver á árinu 1997. Minni hlutinn óskaði eftir því að reiknuð yrðu út áhrif þessa á tekjuhlið ríkissjóðs. Ekki var orðið við þeirri beiðni. Af þessum sökum liggja ekki fyrir nákvæmar tölur um áhrif þessara framkvæmda á ríkissjóðstekjur. Ekki er þó óvarlegt að áætla, miðað við þá aukningu þjóðarútgjalda sem framkvæmdirnar hefðu í för með sér, að tekjuauki af þessu verði ekki undir 5 milljörðum kr. á næsta ári.``

Herra forseti. Minni hlutinn er sem sé þeirrar skoðunar að veilur séu í tekjuhlið fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir nú. Veilurnar eru annars vegar í gjaldahlið frv. nú, þar sem svo virðist vera, a.m.k. hvað varðar virðisaukaskattinn, að gjaldahliðin sé miðuð við að áframhaldandi verði mikil aukning á fjárfestingu á næsta ári. Með öðrum orðum er gert ráð fyrir því, að því er okkur sýnist, að stóriðjuframkvæmdirnar verði þegar reiknaðar eru út væntanlegar tekjur af virðisaukaskattinum. Það er því ekki samræmi á milli áætlana í frv. þegar á einum stað virðist vera gert ráð fyrir áhrifum þessara framkvæmda en á öðrum stað, þ.e. í tekjum af beinum sköttum, virðist það ekki vera gert. Þær upplýsingar sem við höfum fengið benda til þess að næsta ár geti orðið mjög svipað því sem þetta ár virðist ætla að verða miðað við bestu tölur á þessari stundu hvað varðar landsframleiðslu, aukningu einkaneyslu og almennan hagvöxt. Það er því ekki óvarlegt og ekki ólíklegt að gera ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs taki svipuðum breytingum á næsta ári og á þessu ári. Því setjum við það fram í nefndarálit okkar að búast megi við því, verði af þessum miklu framkvæmdum, að tekjur ríkissjóðs verði mun meiri en stjórnarliðið sýnir hér. Og það er ekkert lítil aukning á tekjum ríkissjóðs á milli ára, tæpir 13 milljarðar kr. eða um 11%. Auðvitað skýrist hluti af þessari aukningu af því að ríkisstjórnin hefur gripið til almennra skattahækkana með því að festa persónuafslátt og bætur. Og þetta verður annað árið í röð sem persónuafsláttur er festur og það skilar auðvitað ríkissjóði verulegum tekjum þar sem mjög margir munu þurfa að borga hærri tekjuskatt en ella. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið má ætla að á næsta ári nemi skattahækkunin bara af því einu að festa persónuafsláttinn um 800 millj. kr. Það þýðir að á árinu þar á eftir, 1998, munu áhrifin af þessari aðgerð verða tvöfalt meiri eða ríflega 1,5 milljarðar kr. af þeirri einföldu ástæðu að áhrifin á næsta ári eru meðaltal yfir árið en á árinu þar á eftir eru þau komin fram að fullu og munu skila fullum tekjum í ríkissjóð allt það ár. Og með sama hætti er ríkissjóður að uppskera á árinu 1997 að fullu hækkandi tekjuskatt af þeirri ákvörðun fyrir ári síðan að festa persónuafsláttinn. Þessu vildi ég vekja athygli á, herra forseti, að sú pólitíska aðgerð ríkisstjórnarinnar að sækja skattahækkun niður eftir launastiganum er drjúgur hluti í tekjuauka ríkissjóðs á þessu ári og því næsta ef áætlanir ganga eftir sem við byggjum okkar nefndarálit á.

Ég vil geta þess að fari svo að af stóriðjuframkvæmdunum verði þá er áætlað að þær muni hafa veruleg áhrif til þenslu. Þjóðhagsstofnun metur það svo að þessar framkvæmdir muni kalla á 700--800 ársverk og bendir jafnframt á að eftir þeim upplýsingum sem þeir hafa bestar sé atvinnuleysi ekkert meðal iðnaðarmanna þannig að þessar framkvæmdir munu auðvitað hafa þensluáhrif a.m.k. hvað þá starfsmenn varðar. Ég tek því að nokkru leyti undir áhyggjur Þjóðhagsstofnunar af þenslunni eða áhrifum þenslunnar á verðbólgu en bendi jafnframt á að ég hygg að hún ofmeti þau áhrif verulega, a.m.k. hvað varðar þátt opinberra framkvæmda í samgöngumálum á þessa þenslu.

[11:15]

Herra forseti. Í nál. minni hluta er einnig fjallað um heilbrigðismál og vil ég gera grein fyrir þeim kafla og hann er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Ekki tókst að afgreiða tillögur um rekstur sjúkrastofnana við 2. umræðu fjárlaga og ýmsir aðrir þættir biðu nánari skýringa. Þótt enn sé margt óljóst í þeim efnum fer þó ekki á milli mála að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið áformar að lækka útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála um rúmar 1.300 millj. kr. og er þá undanskilinn rekstrarhalli sjúkrahúsanna í Reykjavík sem er á bilinu 400--500 millj. kr. auk 300 millj. kr. sem þau eru talin geta velt á undan sér. Þá er ótalinn vandi sjúkrahúsanna úti á landi sem er í raun óskilgreindur. Ár eftir ár hafa verið áform um stórfelldan sparnað í rekstri þeirra og á næsta ári var fyrirhugað að ná fram hagræðingu sem næmi 160 millj. kr. Nú hefur þeirri áætlun verið breytt á þann veg að á næsta ári náist 60 millj. kr. sparnaður, aðrar 60 millj. kr. eiga að sparast árið 1998 og 40 millj. kr. árið 1999. Þessar fyrirætlanir hafa ekki verið útfærðar á nokkurn hátt.``

Ég vil skjóta því inn, herra forseti, að yfirlitið yfir breytingarnar á sjúkrahúsunum í Reykjavík er á eftirfarandi hátt, miðað við þau gögn sem lögð hafa verið fram í fjárln. Gert er ráð fyrir að Sjúkrahús Reykjavíkur verði með skuld um næstu áramót um 191 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir að halli af rekstri þess á næsta ári verði um 150 millj. kr. sem þýðir að að óbreyttu yrði skuld sjúkrahússins í lok næsta árs um 341 millj. kr. Hjá Ríkisspítölunum er staðan þannig að um næstu áramót er áætlað að skuld þeirra verði um 260 millj. Þá er gert ráð fyrir að halli á rekstri Ríkisspítalanna á næsta ári verði 227 millj. þannig að í árslok næsta árs verði skuld Ríkisspítalanna 487 millj. kr. Samanlagt þýðir þetta að þessir tveir stóru spítalar munu í lok næsta árs skulda um 828 millj. kr.

Breytingar sem gerðar eru við fjárlagafrv. af hálfu meiri hluta fjárln. eru þær að hækka rekstrargrunn Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítalanna um 300 --- nei, fyrirgefið. --- Þetta eru tölur eftir að búið er að taka tillit til þess að hækka rekstrargrunn spítalanna um 197 millj. kr., þ.e. Sjúkrahúss Reykjavíkur um 120 millj. og Ríkisspítala um 77 millj. þannig að meiri hlutinn hefur viðurkennt að fjárlagatillögurnar gangi ekki eftir og geti ekki náð fram að ganga nema hækka rekstragrunn spítalanna. Það er viðurkennt að þessu leyti um nærri 200 millj. hjá þessum tveimur spítölum. Eftir sem áður mun skuldastaða þeirra verða um næstu áramót um 828 millj. kr. að óbreyttu. Síðan er gert ráð fyrir að þeir geti borið um 300 millj. kr. af skuldum án þess að verða fyrir verulegum óþægindum. Því er skilgreindur vandi þessara tveggja spítala áætlaður um 528 millj. kr. í lok næsta árs. Til að mæta þeim vanda upp á 528 millj. leggur meiri hluti fjárln. til að verja 100 millj. kr. í brtt. sínum til spítalanna. Eftir standa þá 428 millj. kr. sem við getum kallað hagræðingarkröfu á spítalana. Það er sá vandi sem stjórnendur spítalanna og heilbrrh. eiga að glíma við á næsta ári þ.e. að ná útgjöldum þessara spítala niður um 428 millj. Auk þess að glíma við þann vanda sem kann að verða ef fjárveitingar eru að öðru leyti vanáætlaðar miðað við þann rekstur sem áformaður er, þá bætist sá mismunur við þennan vanda, upp á 428 millj. kr. Það verður að segjast eins og er að engar tillögur hafa verið lagðar fram til að sýna hvernig eigi að ná því markmiði og miðað við reynsluna af sparnaðaráformum á undanförnum árum verður helst að ætla að menn nái ekki miklum árangri. Ég spái því að menn muni leysa þetta vandamál sem ég hef gert grein fyrir með framlögum í fjáraukalögum á næsta ári. Það verður einfaldlega að koma í ljós hvort stjórnarliðinu takist að ná tökum á því verkefni sem þeir hafa sett sér sjálfir.

Þeir hafa einnig fallið frá því að reyna að skera niður rekstrarkostnað spítalanna á landsbyggðinni um 160 millj. Þegar farið var að skoða það mál hafa stjórnarliðar væntanlega komist að raun um að þeir höfðu ekki ráð til að ná því markmiði fram og hafa því í raun fallið frá því. Þótt eftir standi að ætlað er að ná fram 60 millj. kr. sparnaði á þeim spítölum á næsta ári, þá bendi ég á að þar er sama staða uppi og varðandi sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu, að engar tillögur liggja fyrir eða áætlanir um hvernig menn ætla að vinna verkið. Aðeins það eitt hafa menn sýnt í þingsölum að grípa til lagabreytinga sem fela hæstv. heilbrrh. mikið vald í þessum málefnum og í raun miklu meira vald en ég hefði trúað að Alþingi Íslendinga mundi nokkurn tíma veita einum ráðherra.

Á það hefur verið bent að ekki er víst að lagaákvæðin sem samþykkt voru í gær standist að öllu leyti í ljósi þess að enn eru ákvæði í öðrum lögum sem ganga í aðra átt en þau ákvæði sem gengu til atkvæða í gær og verður að segja að óljóst er hvert gildi nýju lagaákvæðanna er gagnvart hinum eldri.

Herra forseti. Ég held þá áfram að kynna nál. minni hlutans í heilbrigðismálum að lokinni þessari skýringu á fjárhagsstöðu spítalanna á höfuðborgarsvæðinu og skilgreindum vanda þeirra eins og hann hefur verið kynntur.

,,Áformað er að lækka sjúkratryggingar um 910 millj. kr. á næsta ári, þar af eru 260 millj. kr. millifærðar frá Framkvæmdasjóði aldraðra til greiðslu hjúkrunardaggjalda. Þá er enn eitt árið ætlunin að lækka útgjöld vegna lyfjakostnaðar, m.a. með breytingu á greiðsluhluta sjúklinga. Útfærsla þeirra áforma er svo óljós að engin leið er að sjá fyrir hver áhrif það hefur til hækkunar á hlut sjúklinga. Ætlunin er að lækka kostnað ríkissjóðs af rannsóknum, röntgenþjónustu og læknisþjónustu um 170 millj. kr. Því markmiði hyggst ráðuneytið ná með endurskoðun samninga og fyrirkomulagi á greiðslum fyrir röntgenþjónustu, m.a. með strangari ákvæðum um tilvísanir á slíka þjónustu og nánari skilgreiningu á þeim verkum sem almannatryggingar taka þátt í að greiða. Ef að líkum lætur koma þessi áform að lokum niður á þeim sem á þjónustunni þurfa að halda. Þá er fyrirhugað að spara 80 millj. kr. í þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar sem helst virðist eiga að ná með því að takmarka þjónustu við börn, en það hlýtur að teljast varhugaverð ráðstöfun svo að ekki sé meira sagt. Sparnaður lífeyristrygginga vegna fjármagnstekjutengingar er talinn nema 140 millj. kr. á næsta ári, en ef það sýnist ekki munu ganga eftir hyggst ráðuneytið leggja fram frekari tillögur til sparnaðar, svo að lífeyrisþegum er vissara að vera við öllu búnir. Þar virðist ráðuneytið telja að breiðu bökin sé að finna. Til viðbótar má svo geta þess að bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eru lækkaðar í samræmi við þau áform ríkisstjórnarinnar að herða eftirlit með útgreiðslu heimildarbóta og ná þannig fram 100 millj. kr. sparnaði til viðbótar við 140 millj. kr. niðurskurðinn á þessu ári.

Minni hlutinn styður ráðdeild og sparnað í heilbrigðismálum, ekki síður en öðrum málaflokkum, en staðreyndin er sú að niðurskurðurinn hefur farið fram úr öllu velsæmi, valdið ómældum þjáningum og síauknu álagi á hjúkrunarfólk og aðstandendur sjúkra.``

Er þá komið að samgöngumálum í nál. minni hluta og er það svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Langmestur hluti fjár til samgöngumála rennur til vegamála. Annað árið í röð er niðurskurði ríkissjóðs beint sérstaklega að þessum þætti ríkisfjármála og að teknu tilliti til breytinga á fjárlögum með fjáraukalögum hefur stjórnarflokkunum orðið hvað mest ágengt þar. Miðað við framkomnar tillögur verður um 20% niðurskurður á fé til nýframkvæmda á næsta ári sé miðað við gildandi vegáætlun og er það heldur hraustlegri niðurskurður en gripið var til á þessu ári.

Framlög til vegamála eru sérstök að því leyti að þau eru borin uppi af mörkuðum tekjustofnum og hafa aðeins að litlu leyti notið framlaga úr ríkissjóði. Á þessu ári eru horfur á að markaðir tekjustofnar skili um 280 millj. kr. hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir. Allur þessi búhnykkur er tekinn í ríkissjóð, auk þess var framlag ríkissjóðs til vegamála fellt niður við gerð fjárlaga 1996 og þar til viðbótar voru ríflega 600 millj. kr. af mörkuðum tekjum færðar í ríkissjóð.

Á næsta ári á að endurtaka leikinn, fellt er niður framlag úr ríkissjóði til vegamála og hluti af mörkuðum tekjum til vegagerðar tekinn í ríkissjóð. Í stað þess að leggja fram 217 millj. kr. úr ríkissjóði til viðbótar mörkuðum tekjustofnum eru færðar 856 millj. kr. í ríkissjóð, teknar af mörkuðum tekjum til vegagerðar. Til viðbótar þessu er rétt að hafa í huga að nokkrar líkur eru til þess að markaðar tekjur skili hærri fjárhæð á næsta ári en áætlað er í fjárlagafrumvarpinu, eins og gerðist á þessu ári, og verði af fyrirhuguðum stóriðjuframkvæmdum má nánast slá því föstu að svo verði. Að óbreyttu mun það gerast á nýjan leik að allar umframtekjur renna í ríkissjóð.

Á sama tíma og umferð vex stórum um þjóðvegi landsins, einkum þungaflutningar, eru markaðar tekjur til vegagerðar gerðar að hluta til að almennum skatti í ríkissjóð og hægt er á nauðsynlegum framkvæmdum og úrbótum á vegakerfinu. Full ástæða er til þess fyrir stjórnvöld að huga alvarlega að því að auka öryggi vegfarenda og þar með áhrifum af upptöku hluta vegafjár í ríkissjóð.

[11:30]

Gildandi vegáætlun er fyrir árin 1995--1998 og var hún samþykkt í febrúarmánuði 1995. Mikill stórhugur einkenndi málflutning flutningsmanna og má vitna þar til framsöguræðu samgönguráðherra og nefndarálits þáverandi meiri hluta samgöngunefndar. Í nefndarálitinu stendur: ,,Ljóst er að tillaga þessi um vegáætlun 1995--1998 boðar framhald mikils framkvæmdaskeiðs í vegamálum sem hófst að marki 1993.`` Varla voru kosningarnar afstaðnar þegar farið var að hafa orð á að nú þyrfti að skera niður. Á þessu ári og því næsta, sem eru aðalframkvæmdaár vegáætlunar, er heiftarlegur niðurskurður hvort ár og stjórnarflokkarnir slá fyrri met í niðurskurði. Er svo komið að vegáætlun er í henglum og bráðnauðsynlegar framkvæmdir í uppnámi og gildir einu hvort um er að ræða höfuðborgarsvæðið eða landsbyggðina. Framkvæmdaskeiðið mikla í vegamálum, sem bar við himin á vordögum 1995,`` --- fyrir Alþingiskosningarnar --- ,,hefur snúist upp í framkvæmdaskeiðið mikla í niðurskurði sem hnígur til viðar. Á aðeins tveimur árum vantar 1,5--2 milljarða kr. til nýframkvæmda af mörkuðum tekjum til vegagerðar. Þetta afrek núverandi stjórnarflokka verður vonandi ekki slegið í bráð.

Í hafnarframkvæmdum eru miklar skuldbindingar umfram framlög. Lætur nærri að þær nemi um 700 millj. kr. um þessar mundir eða ríflega eins árs framlagi ríkissjóðs. Þá ber að hafa í huga að óskir um miklar hafnarbætur liggja fyrir og verður ekki lengur dregið að afla meira fjár til þeirra framkvæmda.

Staða flugmálaáætlunar hefur þegar verið rakin og henni gerð skil og hefur hún fengið heldur hraklega útreið. Örlög áætlana í samgöngumálum eru heldur dapurleg. Að öðru leyti vísast til álits samgöngunefndar sem fylgir með áliti meiri hluta fjárlaganefndar fyrir 2. umræðu.``

Er þá komið, herra forseti, að umfjöllun minni hluta um heimildagrein fjárlaga eða svonefnda 6. gr. en álitið er á þessa leið:

,,Minni hlutinn vekur athygli á því að stjórnarflokkarnir hyggjast nota 6. gr. fjárlaga til þess að afla sér heimilda Alþingis til að ráðskast með stór mál sem minni hlutinn telur eðlilegra að hefðu fengið þinglega meðferð í formi frumvarpa. Um er að ræða viðamikil mál og kostnaðarsöm sem nauðsynlegt er að ræða á hinu háa Alþingi. Hér verður Alþingi að gæta að sjálfstæði sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu. M.a. er ekki gert ráð fyrir að haft verði samráð við fjárlaganefnd eða samþykkis hennar aflað. Vafasamt er að taka slíkar ákvarðanir með 6. gr. fjárlaga þar sem m.a. er verið að skuldbinda ríkissjóð til lengri tíma en sem nemur fjárlagaárinu.``

Ég vil nefna þessum orðum til stuðnings ákveðnar greinar í 6. gr. frv. eða tillögu meiri hluta fjárln. við þá grein. Ég er á þeirri skoðun að þótt bygging barnaspítala sé hið þarfasta verk sem ég hygg að megi segja að njóti yfirgnæfandi stuðnings þingheims, þá er það hæpin ráðstöfun og varla réttlætanleg að taka ákvörðun um þessa stóru framkvæmd með heimildarákvæði til ráðherra í 6. gr. fjárlaga. Þá ákvörðun á auðvitað að taka með beinni tillögu í A-hluta fjárlaganna sjálfra eins og gert er með stórar framkvæmdir og miklar ákvarðanir. Þetta ber þann keim að verið sé að smeygja málinu fram skref fyrir skref og það er ekki æskilegur framgangsmáti á neinu máli að hafa þessa aðferð við ákvörðunartöku. Fram kom að fjmrn. var andvígt tillögu heilbrrn. um orðalag 6. gr. tillögunnar sem ráðuneytið hugðist fá fram og varð niðurstaðan sú að áform fjmrh. náði fram að ganga og er heimildin í tvennu lagi sem áður hafði verið áformað að yrði í einni heimildagrein. Breytingin er fólgin í því að heimild til að selja hluta úr lóð Kópavogshælis er sjálfstæð en ekki tengd byggingu barnaspítalans þannig að andvirði sölu þeirrar lóðar rennur í ríkissjóð en ekki til þessara framkvæmda. Það þykir mér benda til þess sem ekki verði um miklar framkvæmdir á næsta ári í þessu máli heldur verði málið fyrst og fremst undirbúið.

Ég vil líka benda á aðra tillögu í 6. gr. sem mér finnst vera fullstór til þess að réttlætanlegt sé að fara með hana um 6. gr. fjárlaga, en það er heimild til ráðherra að stofna eignarhaldsfélög um eignarhlut ríkissjóðs í einstökum félögum sem tilheyra starfsemi iðnrn. á móti eignarhlut þriðja aðila. Heimildin er mjög opin og er t.d. ekki tiltekið til hvaða fyrirtækja eða stofnana hún nær. Því var óskað eftir upplýsingum frá iðnrn. um það efni og í svari ráðuneytisins til fjárln. kom fram að þau fyrirtæki sem um væri að ræða væru Sementsverksmiðjan, Steinullarverksmiðjan og Íslenska járnblendifélagið. Þetta vildi ég að kæmi fram, herra forseti, þannig að ljóst væri hvaða skýringar liggja fyrir um þetta ákvæði í 6. gr. frv. sem ég gagnrýni að skuli vera lagt fram þarna. Ég hefði talið eðlilegra að þetta mál hefði verið lagt fyrir þingið í formi sjálfstæðs frv. Ég vil þá fara með lokaorð í nefndaráliti minni hlutans, en þau eru, með leyfi forseta, eftirfarandi:

,,Minni hlutinn flutti nokkrar breytingartillögur við 2. umræðu fjárlaga. Nokkrar þeirra voru dregnar til baka og eru nú endurfluttar. Meiri hluti Alþingis felldi hins vegar tillögu minni hlutans um að staðið yrði við lögboðið framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, og hann felldi einnig tillögu um að skila framhaldsskólunum aftur því sem skorið var niður af framlögum til þeirra eins og fram kemur í frumvarpinu. Það vakti hins vegar athygli að tveir stjórnarþingmenn sátu hjá við þá atkvæðagreiðslu og sýndu með því andúð sína á stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Þess er vænst að þær tillögur sem dregnar voru til baka við 2. umræðu og eru endurfluttar við 3. umræðu hljóti brautargengi.``

Undir þetta álit skrifa Kristinn H. Gunnarsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Gísli S. Einarsson og Kristín Halldórsdóttir.

Ég vil þá, herra forseti, fara nokkrum orðum um þær tillögur sem meiri hlutinn hefur flutt. Segja má um þær flestar að þær eru til lagfæringar á frv. og ekki ástæða til þess af hálfu minni hlutans til að leggjast gegn þeim. Væntanlega munu fulltrúar stjórnarandstöðunnar styðja ýmsar af brtt. meiri hlutans og sitja hjá við sumar.

Ég vil vekja athygli á einni brtt. sem flutt er undir kaflanum um fjmrn. Nú er áætlað að lífeyrissjóðsskuldbindingar grunnskólakennara nemi um 385 millj. kr. á heilu ári. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að það er ekki langt síðan, eða um það bil eitt ár, að því var haldið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar verið var að lögbinda þetta mál hér á Alþingi að lífeyrissjóðsskuldbindingarnar væru ekki nema 160 millj. kr. á ári. Ég gerði athugasemdir við þessa útreikninga og taldi augljóst að þeir væru verulega vanmetnir. Því var andmælt og staðhæft að þetta væru lífeyrissjóðsskuldbindingarnar hvað varðar alla grunnskólakennara landsins. Nú er komið í ljós sem mig grunaði að þetta hefur reynst mikil bábilja og mjög fjarri réttu lagi, en nú er áætlað að þessi kostnaður nemi ekki 160 millj. heldur 385 millj. Mér þykir ástæða til að vekja athygli á þessu, herra forseti, og um leið bendi ég á að það er svo sem ekki endilega víst að útreikningur nr. 2 sé réttur í þessu efni þó að við skulum að sjálfsögðu vona að svo sé.

Þá vil ég fagna þeim undirtektum sem erindi af Austfjörðum og Vestfjörðum hafa fengið um skógræktarátak og vil láta í ljós stuðning við þau áform meiri hluta fjárln. að þessi verkefni njóti styrks af 75 millj. kr. árlegum fjárveitingum til þessara mála. Ég fagna því sérstaklega að verkefnið Skjólskógar á Vestfjörðum nýtur stuðnings í þessu efni.

Herra forseti. Það er hins vegar ekki allt sem gleður augað í tillögum meiri hlutans og einkum vil ég nefna tvær tillögur sem mér eru nokkur þyrnir í auga. Þær eru báðar á þá lund að flytja störf og fjármagn frá stofnunum úti á landi til Reykjavíkur. Ástandið í byggðaþróun hér á landi er þannig að stöðugt fjölgar á höfuðborgarsvæðinu en að sama skapi er undanhald annars staðar á landinu. Nýlegar tölur fyrir fyrstu níu mánuði þessa árs benda til þess að á árinu verði ekki lát á þeirri óheillaþróun sem verið hefur að þessu leyti á undanförnum árum. Þær tölur sýna að á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um rúmlega 1.600 manns á níu mánuðum en fækkað alls staðar annars staðar. Hvað mest hefur fækkunin orðið á Vestfjörðum eða nær 4% og eru íbúar þar nú í fyrsta sinn orðnir færri en 9.000. Því er mér sárt um breytingar sem verið er að gera í stjórnsýslunni á þá lund að veikja stjórnsýsluna þar sem hún er úti á landi og byggja hana upp enn frekar hér á höfuðborgarsvæðinu. Ber ekki að skilja það á neinn hátt að ég sé að amast við því að stjórnsýslan sé almennt styrkt og aukin þar sem ástæða er til að bæta úr og ekki heldur að amast við því að hún sé öflug hér á þessu svæði. En mér þykir það skjóta skökku við að styrkja hana með því að veikja þá sem veikir eru fyrir.

Þær tvær tillögur sem ég nefni í þessu sambandi eru annars vegar breytingartillaga um að draga einar fimm stöður rannsóknarlögreglumanna frá fimm sýslumannsembættum á landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Ég er ósammála þeim rökum sem dóms- og kirkjumrn. ber nú fram um miðjan desember til rökstuðnings þessari brtt. við sína eigin tillögu í fjárlagafrv. Það er vel hægt að byggja skynsamlega upp þennan þátt lögreglumála eins og lagt er til eða með lítils háttar breytingum á þeirri tillögu og þarf á engan hátt að binda breytingar við það að flytja þessar fimm stöður allar hingað inn á þetta svæði.

[11:45]

Í öðru lagi er ég ósammála þeirri brtt. sem fyrir liggur sem felur það í sér að færa skatteftirlit frá skattstofunum á landsbyggðinni og stofna nýja deild hér í Reykjavík. Á það hefur verið bent og þau rök færð fram að erfiðlega hafi gengið að manna þessar stöður skatteftirlitsmanna. M.a. hefur það komið fram að þenslan hér á höfuðborgarsvæðinu hefur gert það að verkum að erfiðara hefur verið að ná fólki til að sinna þessum stöðum úti á landi. Sú staðreynd er í sjálfu sér umhugsunarefni og ég dreg ekki í efa að mikil eftirspurn eftir lögfræði- eða viðskiptafræðimenntuðu fólki hér gerir það að verkum að erfiðlega gengur að manna slíkar stöður á landsbyggðinni. Ég velti því fyrir mér til hvaða ráða ríkisstjórnin hyggst grípa til þess að bæta úr í þessu skyni. Það eitt sé ég í frv. að ráðherra sé þá einfaldlega að flytja störfin hingað suður. Það vil ég kalla uppgjöf fyrir ástandinu og lýsi yfir óánægju minni með þetta úrræði, að færa allt þetta skatteftirlit hingað suður og ætla síðan að stjórna því héðan með því að senda mannskapinn út á land og bæta þá við ferðakostnaði og öðrum tilfallandi kostnaði vegna þeirra ferðalaga. Þá virðist eins og kostnaður skipti ekki máli þegar hann heitir ferðakostnaður frá Reykjavík út á land, þá þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því. Þegar ég spurði eftir því hvað gert væri ráð fyrir að hann yrði mikill þá kom það fram að menn höfðu ekkert hugleitt það mál né gert ráð fyrir því sem sýnir hversu litlar áhyggjur menn hafa af þeim þætti málsins. Vissulega er þar um stóran kostnaðarlið að ræða ef sinna á eftirlitinu með þessum hætti. Ég bendi á reynsluna af Fiskistofu sem ætti að verða mönnum víti til varnaðar í þessum efnum.

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til þess að fara nokkrum orðum um fleiri tillögur sem meiri hluti nefndarinnar flytur en ég mun láta staðar numið í þeim efnum að þessu sinni. Ef til vill geri ég grein fyrir því síðar í umræðunni ef ástæða er til og kallað er eftir sjónarmiðum varðandi einstakar tillögur. En ég vil þó nefna eina 6. gr. heimild, sem er felld niður á þessu ári, en hefur verið árlega svo lengi sem mér er kunnugt um í fjárlögum íslenska ríkisins. Það er heimild til Pósts og síma um að innheimta ekki stofngjöld og afnotagjöld hjá allt að 50 blindum mönnum og allt að 50 fötluðum mönnum. Þessi heimild er felld niður og ég hef spurst fyrir um hvort gert væri ráð fyrir að því yrði mætt með öðrum hætti þannig að þetta fyrirkomulag gæti verið áfram eða ígildi þess gagnvart blindum og fötluðum. Meðal annars hef ég spurst fyrir um þetta hjá hæstv. félmrh. og formanni samgn. Ég hef verið fullvissaður um að engin breyting verði á þessu fyrirkomulagi á næsta ári og treysti ég því, þó útfærslan liggi ekki endanlega fyrir, að það standi þannig að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af því að breytingar verði á þessum kjörum blindra og fatlaðra. En ég vildi nefna þetta, herra forseti, þannig að það kæmi hér formlega fram og menn vissu þá af því að um það hefði verið spurt og hver svör hefðu fengist.

Herra forseti. Ég vil að lokum nefna það að reynsla mín af setu í fjárln. nú í hartnær tvö ár hefur sannfært mig um að það er ástæða til að gera verulega breytingu í fjárlagagerð og áætlanagerð hjá íslenska ríkinu. Ég er þeirrar skoðunar, og sú skoðun hefur heldur styrkst við þessa reynslu, að fjárlög eigi að ná yfir lengra tímabil en eitt ár og gera eigi meiri kröfur til þess að stofnanir og ráðuneyti setji sér langtímamarkmið og vinni eftir þeim. Það hefur komið fram á öðrum vettvangi þar sem ég starfa þar sem spurt hefur verið um afstöðu einstakra ráðuneyta og áform þeirra, um stefnumörkun í ýmsum málum og áform þeirra til langs tíma. Svörin hafa nánast verið samhljóða á þá lund að ráðuneytin hafa ekki sett sér langtímaáætlanir né heldur markmið til að vinna eftir. Ég tel þetta vera einn helsta gallann á stjórnsýslunni um þessar mundir og hvet til þess að menn hugleiði breytingar á þessu sviði sem setji þær kvaðir og kröfur á stjórnendur, hvort sem það eru ráðherrar eða forstöðumenn stofnana, að þeir starfi samkvæmt langtímasjónarmiðum og áætlunum sem gerðar eru og liggja fyrir.

Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, segja það að ég tek undir, og hef ævinlega gert, þau markmið ríkisstjórnar, hvort sem það er þessi eða aðrar, að reka ríkissjóð hallalausan. Ég tel það grundvallaratriði ekki bara í almennri hagstjórn heldur líka í almennum rekstri, opinberum sem öðrum, að menn eyði ekki um efni fram og venji sig ekki á að ráðstafa meira fé hverju sinni en menn afla. Af þeim ástæðum hef ég verið ötull talsmaður þess að ríkissjóður verði rekinn hallalaust og tel reyndar að betur verði að gera en hér er lagt upp með. Menn þurfa að hafa afgang á ríkissjóði. Menn eiga eftir að gera ráð fyrir skuldbindingum, sem ekki eru í þessu frv., upp á nokkra milljarða króna og menn eiga eftir að gera ráð fyrir því að borga niður þær skuldir sem safnast hafa upp á undanförnum áratug sem hefur fyrst og fremst einkennst af því að menn hafa eytt verulega umfram það sem aflað hefur verið. Það er grundvallaratriði hjá þeim sem fara með peningaforráð að afla fyrir þeim útgjöldum sem menn stofna til. Það gildir um ríkissjóð, sveitarsjóði, heimili og aðra. Ég tala fyrir þessu sjónarmiði og hvet menn til þess að hugleiða það alvarlega. Ég held að þetta sé alvarlegri meinsemd í íslensku þjóðfélagi en menn hafa almennt gert sér grein fyrir eða almennt viljað viðurkenna og skýrir m.a. að nokkru leyti alvarlega þróun eins og þá sem átt hefur sér stað í skuldasöfnun heimilanna.

Herra forseti. Ég hef lokið við að rekja álit minni hluta fjárln. auk þess að nefna þau atriði sem ég hef helst kosið að koma á framfæri við þessa umræðu.