Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 12:43:18 (2618)

1996-12-20 12:43:18# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[12:43]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrstu mótmæla síðustu orðum hv. 12. þm. Reykn. um að fjárlagafrv. sé aðför að öldruðum og sjúkum. Það er fjarri lagi. Það er verið að tryggja og treysta velferðarkerfið og það er auðvitað mikilvægt verkefni. Að hinu leytinu vil ég vekja athygli á því sem kom fram í ræðu hv. þm. þar sem hún leggst í sérstaka vörn fyrir meiri hluta borgarstjórnar í Reykjavík og les upp bréf það sem borgarstjórinn hefur skrifað þingmönnum Reykjavíkur þar sem kvartað er sérstaklega undan framgöngu minni að undanförnu. Hver skyldi hún vera? Jú, sú framganga er að vekja athygli á því að stjórnvöld í landinu, þ.e. ríkisvaldið og sveitarfélögin, þurfa að gæta sín og leggja áherslu á að tryggja stöðugleikann í þjóðfélaginu. Þetta er sú ógn sem steðjar að vinstri meiri hlutanum sem hér er sérstaklega varinn, vinstri meiri hlutanum í Reykjavík. Hv. þm. vakti athygli á því, sem er hins vegar alveg hárrétt, að það er stefna ríkisstjórnarinnar sem kemur fram núna í því að búast má við að efnahagslífið taki kipp vegna aðgerða stjórnvalda. Það er auðvitað ekkert áhyggjuefni út af fyrir sig heldur er nauðsynlegt að bregðast þannig við þegar betur árar að við söfnum til hinna mögru ára. Það er fyrst og fremst sá málflutningur sem ég hef haft uppi og m.a. gagnvart Reykjavíkurborg eins og öllum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, að ég hef hvatt til þess að allir þeir aðilar og ríkisvaldið einnig sýni ábyrgðartilfinningu og við lítum til lengri tíma þegar við leggjum upp okkar efnahagslegu forsendur.