Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 12:45:44 (2619)

1996-12-20 12:45:44# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[12:45]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki skoðanir og áherslur hv. þm. í þessum efnum. Hann hefur komið þeim rækilega á framfæri. Ég er ekki sammála niðurstöðu hans og ádeilum á stjórnun Reykjavíkurborgar og hvernig borgaryfirvöld hyggjast haga sínum framkvæmdum á næsta ári. Ég tel að borgaryfirvöld í Reykjavík sýni fulla ábyrgð í þessum efnum. Þau hafa auðvitað skyldum að gegna gagnvart sínum umbjóðendum. Þau þurfa að veita góða þjónustu og tryggja öryggi síns fólks. Ég held að þau rök sem fram komu í bréfi borgarstjóra sem ég las upp áðan séu fullgild og sýni mikla ábyrgð í þessum efnum. Enda kom þar fram að ef í ljós kæmi að hættuleg þensla væri að myndast, hvað þá ef hún birtist í því að útboð yrðu ekki hagstæð, þá mundu borgaryfirvöld endurskoða áætlanir sínar. En ég hygg að við gætum margt lært af núverandi borgarstjórn sem meiri hluta sem hefur náð mjög athyglisverðum árangri við stjórnun fjármála. Það væri nær að hyggja að því hvernig þau hafa farið að verki heldur en gagnrýna.