Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 13:35:06 (2622)

1996-12-20 13:35:06# 121. lþ. 53.1 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, ÁE (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[13:35]

Ágúst Einarsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú er að hefjast atkvæðagreiðsla um frv. um lífeyrismál. Við hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sitjum í efh.- og viðskn. fyrir hönd þingflokks jafnaðarmanna. Við skrifuðum undir álit meiri hluta efh.- og viðskn. með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur að því að við teljum að lögfesting frv. í þessu formi feli í sér skyldu stjórnvalda til að sjá svo um að starfsmenn ríkisins sem eru í stéttarfélögum ASÍ fái sömu lífeyrisréttindi og öðrum ríkisstarfsmönnum eru tryggð með frv. Við teljum þessa afstöðu réttláta og eðlilega og vera í samræmi við afstöðu þingflokks jafnaðarmanna og Alþýðusambands Íslands í þessu máli.

Við munum greiða brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. atkvæði okkar, enda erum við aðilar að þeim. Aðrar brtt. falla utan þeirrar samstöðu sem náðst hefur um afgreiðslu málsins. Lífeyrismál verða áfram í umræðunni og hugmyndir um að tryggja betur stöðu B-deildar sjóðsins verða vitaskuld ræddar áfram.

Um þær tillögur aðrar sem liggja hér fyrir hefur ekki náðst samstaða innan efh.- og viðskn. Við munum því greiða atkvæði gegn öðrum tillögum en þeim sem við flytjum með öðrum. Við þingmenn jafnaðarmanna styðjum frv. og brtt. okkar og annarra og teljum að þetta frv. feli í sér þá skyldu til stjórnvalda að sjá um að starfsmönnum ríkisins sem eru í stéttarfélögum Alþýðusambandsins séu tryggð sömu lífeyrisréttindi og öðrum ríkisstarfsmönnum. Það er mikilvægasta málið við lögfestingu þessa máls sem við viljum gera sérstaka athugasemd við. Að öðru leyti styðjum við þetta mál eins og það kemur frá efh.- og viðskn.