Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 15:07:06 (2634)

1996-12-20 15:07:06# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[15:07]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Vesturl. fyrir hans málefnalegu ræðu. Honum var tíðrætt um tekjuhliðina, að þar væri borð fyrir báru. Ég vona svo sannarlega að svo verði og það þarf ekki í rauninni að hafa miklar áhyggjur af ráðstöfun þess fjár. Í fyrsta lagi er það markmið að það styrki fjárhag ríkissjóðs með að greiða niður skuldir. Og svo vil ég minna á að þegar tekið er tillit til allra skuldbindinga á rekstrargrunni þá er halli ríkissjóðs enn um 3 milljarðar kr. svo það verða engin vandræði að ráðstafa tekjuauka ef hann kemur til. En það er ekki mikil búmennska í því að ráðstafa honum öllum fyrir fram enda tók ég orð hv. 5. þm. Vesturl. ekki svo að hann væri að krefjast þess. Ég vildi að þetta kæmi fram við umræðuna.