Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 15:10:30 (2636)

1996-12-20 15:10:30# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[15:10]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Vesturl. fyrir góð orð í okkar garð, formanns og varaformanns, en ég vildi undirstrika það varðandi þær aðgerðir sem uppi eru í vegamálum að auðvitað verða þær nánar ræddar þegar vegáætlun kemur til umræðu hér upp úr áramótum. Ég vil undirstrika það líka að hér er aðeins um frestanir að ræða, ef kemur til mikilla framkvæmda hér, til þess að draga aðeins úr þannig að þær leiði ekki til aukinnar verðbólgu og líka þá himinhárra tilboða í verk. Það verður að horfa á þann þáttinn líka. Það er ekki verið að slá verkin af heldur er verið að bregðast við til þess að hafa allan varann á varðandi þensluna og aukna verðbólgu. Ég held að það sé varasemi sem þurfi að hafa og við hefðum kannski betur, sem bárum ábyrgð á málum á þenslutímanum 1987 eins og ég rakti í morgun, gripið fyrr til einhverra slíkra aðgerða.