Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 15:12:21 (2637)

1996-12-20 15:12:21# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[15:12]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Komið er að lokum vinnu við fjárlagagerðina fyrir árið 1997. Hv. fjárln. hefur milli 2. og 3. umr. fjallað um erindi og fengið ýmsa til viðræðu auk þess sem nefndin hefur fengið tillögur frá ríkisstjórninni um fjölmörg mál sem hafa þurft nánari og ítarlegri skoðun í ráðuneytum eftir að nefndin hafði farið yfir málin. Við þessa síðustu umræðu vil ég fara nokkrum orðum um þær breytingatillögur sem ég tel mikilvægastar og ástæðu til þess að vekja athygli á og forsendum fyrir þeirri stefnu sem birtist í breytingartillögum og fjárlagagerðinni í heild.

En fyrst vil ég, hæstv. forseti, vekja athygli á því sem hefur komið fram hér hjá hv. stjórnarandstæðingum sem hér hafa talað, og sem er út af fyrir sig mjög merkilegt, að helsta gagnrýnisefni þeirra á frv. eru áhyggjur þeirra af því að tekjur verði meiri en við áætluðum. Það er ef til vill mikilvægasta vísbending um árangur efnahagsstefnunnar og árangur þess starfs sem á undanförnum árum hefur verið unnið við að byggja upp atvinnulífið og styrkja ríkisfjármálin. Það færi betur að þessi spá stjórnarandstöðunnar rættist að tekjur ríkissjóðs yrðu meiri án þess að við hækkuðum skatta sem er auðvitað grundvallaratriði í þessari umræðu.

Í allri umræðu um ríkisfjármálin að undanförnu hafa komið fram eðlilegar kröfur um að ríkissjóður verði rekinn með afgangi og eru flestir sammála um það markmið. Margir hafa vissulega áhyggjur af því að verðlag raskist ef miklar framkvæmdir hefjast á næsta ári á suðurhluta landsins. Ýmsir eru minnugir verðbólguáranna og á það hefur verið minnst í þessari umræðu og óttast að ef opinberir aðilar sýni ekki fyrirhyggju og stýri málum með langtímahagsmuni í huga geti efnahagsmarkmið raskast. Ef ráðstafanir ríkis og sveitarfélaga leiða til óstöðugs verðlags eru það auk þess mjög óheppileg skilaboð til þeirra erlendu fjárfesta sem gætu hugsað til þess að leggja í fjárfestingar í atvinnurekstri hér á landi, ekki síst í orkufrekum iðnaði sem er ef til vill mikilvægasti kostur okkar til eflingar atvinnulífinu um þessar mundir.

[15:15]

Í ljósi þeirra viðræðna sem fram hafa farið um álver og stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga hefur ríkisstjórnin gert ráðstafanir til þess að hafa hemil á opinberri fjárfestingu á næsta ári. Hefur verið kannað hvar mætti draga saman eða fresta í fjárfestingum ríkissjóðs. Allt eru þetta eðlileg og nauðsynleg viðbrögð sem ríkisstjórn og Alþingi verða að líta til. Staðnæmst hefur verið við vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu þar sem mikið átak hefur staðið yfir og því má ekki gleyma að mikilvægir áfangar hafa náðst á síðustu árum og í raun meiri en áður vegna hins sérstaka framkvæmdaátaks sem staðið var fyrir hér í vegagerð. Það má nefna framkvæmdir við stækkun Leifsstöðvar í Keflavík og framkvæmdir við Reykjavíkurflugvöll. Þetta eru þeir þættir sem einkum hefur verið litið til og unnt væri að fresta án þess að mikil vandræði hlytust af.

Í byrjun desember þegar horfur höfðu vænkast um framkvæmdir við stóriðju og virkjanir hafði ríkisstjórnin lagt fram hugmyndir og lagt á ráðin um aðgerðir til þess að tryggja hin efnahagslegu markmið, tryggja efnahagslega stöðugleikann. Auk þess að undirbúa frestun framkvæmda á vegum ríkisins var af hálfu ríkisstjórnarinnar gert ráð fyrir því að félmrn. ætti viðræður við sveitarfélögin í þeim tilgangi að hvetja þau til varfærni í fjárfestingum svo ekki röskuðust markmiðin um stöðugleikann.

Viðbrögð hafa orðið allundarleg, bæði utan þings og innan. Þingmenn stjórnarandstöðu, borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórar hér í nágrannabyggðum hafa brugðist hart við vegna varnaðarorða gagnvart þeirri hættu sem efnahagsstöðugleika er búin ef ríki og sveitarfélög halda uppi miklum framkvæmdum á sama tíma og framkvæmdir eru í hámarki vegna orku- og stóriðjufyrirtækja. Í gær barst áskorun frá sveitarfélögunum um að haldið verði áfram framkvæmdum án tillits til aðstæðna. Ég tel að eðlilegra hefði verið að forustumenn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu byðu upp á viðræður um röðun framkvæmda á svæðinu í góðu samstarfi við ríkisstjórnina. Veldur afstaða þeirra vissulega vonbrigðum.

Auðvitað er það vilji okkar allra að auka framkvæmdir við verkefni og viðfangsefni sem eru hagstæð okkar þjóðfélagi. En allt verður að hafa sinn tíma og við verðum að stýra þannig málum á vegum ríkisins, á vegum sveitarfélaganna, að langtímahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi en ekki skammtímasjónarmið. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. félmrh. hefji viðræður við sveitarfélögin um samræmdar aðgerðir sem verði í takt við þær framkvæmdir sem fylgja þegar fyrir liggur hver niðurstaðan verður af viðræðum um stóriðjuframkvæmdir.

Hvað sem verður ætti öllum að vera ljóst að hætta á enn frekari byggðaröskun er til staðar ef öllum framkvæmdum og úrbótum á vegum ríkisins er stefnt á einn landshluta. Því þarf að leita allra leiða til þess að efla atvinnulífið í byggðum landsins og standa vörð um þær þjónustustofnanir sem þar eru. Með því að ganga nærri eða draga mjög saman t.d. í heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni skapast vissulega hætta á að byggðin veikist. Það er þekkt að atvinnutækifæri kvenna eru mun takmarkaðri í sjávarbyggðum en á höfuðborgarsvæðinu eða í hinum stærri byggðakjörnum landsins. Þjónustustofnanir hafa einkum risið í stærri byggðarlögum og dregið til sín fólk eins og eðlilegt er og ekkert er út af fyrir sig við það að athuga. En það þarf því ekki að koma á óvart að stjórnvöld leitist við að stýra fjárfestingum með tilliti til þeirra staðreynda og til þess að leitast við að efla byggðina í landinu og hamla gegn óeðlilegri byggðaröskun.

Hæstv. forseti. Ég vil nú víkja að helstu breytingum sem hv. meiri hluti fjárln. gerir við þessa umræðu og fara nokkrum orðum um þau meginatriði sem lúta að þeim breytingartillögum. Í fyrsta lagi vil ég nefna að gert er ráð fyrir hækkun á framlagi til Byggðastofnunar upp á 14 millj. Þar er um að ræða að lögð er áhersla á að efla atvinnuráðgjafarstarfsemi í landshlutunum og nú þegar hefur Byggðastofnun lagt þar hönd á plóg, gert samninga við aðila í þremur kjördæmum, m.a. Reykjaneskjördæmi, þar sem heimamenn í samvinnu við Byggðastofnun leggja á ráðin um atvinnuþróunaraðgerðir. Ég tel að með þessum hætti eigi að vera hægt að vinna eðlilega að því að styrkja atvinnulífið á stöðunum og reyna að hlutast til um að þjónustustarfsemi eflist einnig.

Í öðru lagi vil ég nefna að Háskólinn á Akureyri fær 3 millj. kr. fjárveitingu sem út af fyrir sig er ekki há, en með því er lögð áhersla á að reynt verði að styrkja þessa mikilvægu háskólastofnun sem Háskólinn á Akureyri er og þær nýju námsbrautir sem þar er verið að vinna við að byggja upp. Þess vegna varð meiri hluti fjárln. sammála um að gera tillögu að þessari fjárveitingu. Ég lít svo á að þessi tillaga ásamt tillögu sem flutt var hér við 2. umr. um að veita aukið fé til Samvinnuháskólans á Bifröst sé augljóst merki um þá áherslu sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir og hæstv. menntmrh. leggja á uppbyggingu háskólanáms og viðurkenning fyrir það starf sem á þessum stöðum hefur verið unnið. Ég veit að hæstv. menntmrh. leggur ríka áherslu á að styðja við bakið á þessum háskólastofnunum og það er afar mikilvægt, ekki síst sem liður í því að styrkja byggðina í landinu, styrkja þær stofnanir sem eru úti á landsbyggðinni, um leið og það auðvitað styrkir í heild menntakerfið allt og er ekki á nokkurn hátt, svo að ég nefni það, stefnt gegn hinni mikilvægu stofnun, Háskóla Íslands.

Í þriðja lagi vil ég nefna það sem nokkuð var rætt við 2. umr. en það er tillaga meiri hluta hv. fjárln. um að veita fé til tölvubúnaðar á vegum framhaldsskólanna. Auðvitað er það mikilvægt að framhaldsskólarnir hafi úr nokkru að spila, en ríkisstjórnin hefur lagt á ráðin og markað stefnu hvað varðar uppbyggingu eða styrkingu margmiðlunar og alls sem lýtur að tölvuvæðingu. Framhaldsskólarnir hafa þar mikilvægu hlutverki að gegna og þess vegna leggur meiri hluti fjárln. áherslu á þetta starf og vísar til þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað á grundvelli starfs vinnuhóps um þessi málefni sem nefnt er upplýsingasamfélagið.

Í fjórða lagi vil ég nefna allt annan hlut. Það er tillaga frá meiri hluta fjárln. um að veita Handknattleikssambandi Íslands 14 millj. kr. styrk. Hv. fjárln. fjallaði nokkuð um þetta mál. Handknattleikssambandið hefur verið í miklum fjárhagsörðugleikum eftir að heimsmeistarakeppnin var haldin hér. Það er öllum ljóst og þarf ekki að hafa mörg orð um það. Það er mat okkar að mjög mikilvægt sé að styðja Handknattleikssambandið út úr þessum þrengingum þó að það hafi verið þannig í gegnum tíðina að það hafi fyrst og fremst verið heildarsamtökin ÍSÍ og Ungmennafélag Íslands og ólympíunefndin sem hafi fengið beina styrki úr ríkissjóði. En við lítum svo á að þetta sé þvílíkt verkefni sem Handknattleikssambandið tók að sér á sinni tíð, og ýmsir óvæntir hlutir komu þar upp, að það sé eðlilegt að veita þeim þennan styrk, enda er það óumdeilt að Handknattleikssambandið hefur unnið hið prýðilegasta starf og allt sem tengist því er auðvitað mikilvægt innlegg í það að byggja upp æsku landsins og hafa fyrir henni góða hætti.

Í fimmta lagi vil ég nefna þá tillögu um sérstakt framlag, 60 millj. kr., vegna framkvæmda í fríhöfninni í Leifsstöð. Nú hefur það verið þannig að til Leifsstöðvar hafa ekki runnið fjármunir af flugmálaáætlun. En þarna er um það að ræða að þrátt fyrir að framkvæmdum við stækkun flugstöðvarinnar sé frestað, þá er gert ráð fyrir framkvæmdum við innritunaraðstöðu í flugstöðinni sem margir vita að þarf vissulega úrbóta við auk þess sem vinna þarf við undirbúning að stækkun flugstöðvarinnar.

Í sjötta lagi vil ég nefna mjög merkilegt mál sem hæstv. ríkisstjórn hefur kynnt og meiri hluti fjárln. fjallaði um, og reyndar nefndin öll að sjálfsögðu en meiri hluti nefndarinnar gerir tillögu um, en það er átak í landgræðslu og skógrækt. Gert er ráð fyrir 75 millj. og þetta er auðvitað þáttur í atvinnuuppbyggingu. Það fer ekki hjá því að þetta styrkir allt starf í kringum landgræðslu og skógrækt og þar eru vinnulaun tiltölulega hátt hlutfall þess kostnaðar. En þetta er auk þess að mínu mati afar brýnt málefni og mikilvæg viðbót við þær aðgerðir sem á vegum Landgræðslunnar og Skógræktar ríkisins hefur verið staðið að. Það er ekki vansalaust að okkur Íslendingum hefur ekki tekist að koma í veg fyrir uppblástur og gróðureyðingu og þess vegna fagna ég mjög þessari áætlun sem hefur verið sett upp, en auðvitað þarf að líta til þess að vel sé að verki staðið þannig að þessir fjármunir nýtist sem best og skipulag allt og tenging Landgræðslunnar og Skógræktarinnar við ráðuneyti og ekki síður heimamenn á þeim svæðum þar sem vinna á sé eðlileg og viðunandi.

Í sjöunda lagi, hæstv. forseti, vil ég nefna tillögu sem fjallar um aukin framlög til ríkisskattstjóraembættisins. Það hafa farið fram nokkrar umræður um það að innheimta á sköttum, ekki síst á virðisaukaskatti, sé e.t.v. ekki eins og best væri á kosið. Sú breytingartillaga sem hér er flutt af hv. meiri hluta fjárln. gerir ráð fyrir því að styrkja ríkisskattstjóraembættið með því að hækka framlög til skatteftirlits. Með þessu er lagður grunnur að breyttu skipulagi þannig að ríkisskattstjóraembættið styrki og efli þessa deild sem vinnur að skatteftirliti. Ég tel auk þess að embættið eigi og þurfi að líta til þess að færa eins mörg störf og hægt er út í skattumdæmin. Aðalatriðið að mínu mati hins vegar er að árangur náist og að það takist að styrkja skatteftirlitið. Ég tel að allt sem heitir undanskot í þeim efnum sé meinsemd í okkar þjóðfélagi og að það beri að leita allra leiða til þess að bæta þar úr.

[15:30]

Í áttunda lagi vil ég nefna tvær tillögur frá hv. meiri hluta fjárln. sem varða Sjúkrahúsið á Akranesi og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Það hafa farið fram miklar umræður um heilbrigðismál að undanförnu. Það hafa verið deilur og það hefur sprottið tortryggni á milli sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu, Ríkisspítalanna og Sjúkrahúss Reykjavíkur annars vegar og sjúkrahúsa í öðrum landshlutum hins vegar. Þetta er mjög óheppilegt en engu að síður er það þannig að þrátt fyrir mikilvægt hlutverk stóru sjúkrahúsanna þá er það mitt mat og það er niðurstaða og mat meiri hluta fjárln. að það beri að styrkja starfsemi á sjúkrahúsunum, ekki síst þeirra sem geta fengist við stærri verkefni á sviði heilbrigðisþjónustunnar úti í landshlutunum. Þess vegna er flutt tillaga um að heimila ráðningu tveggja sérfræðilækna á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri en það skiptir mjög miklu fyrir þá stofnun og skapar allt önnur skilyrði til þess að byggja hana upp. Hin tillagan sem varðar Sjúkrahúsið á Akranesi er um fjárveitingu til svokallaðra liðskiptaaðgerða þannig að hægt verður að vinna að þeim verkum hjá sjúkrahúsinu og draga þannig úr biðlistum sjúkrahúsanna.

Þetta vil ég nefna og undirstrika sérstaklega sem mikilvægan þátt í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og það vill einmitt brenna við að við ræðum um heilbrigðiskerfið í þinginu oft og tíðum allt of mikið sem eitthvert vandamál. Við þurfum að fjalla um heilbrigðismálin og ekki síst um skipulag heilbrigðisstofnana á þeim nótum að þarna eru feiknamikilvægar stofnanir. Engu að síður þarf að líta til þess að þær séu vel reknar og þar sé allt í góðu lagi. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því að þegar við ræðum um uppbyggingu stóriðju --- það er að vísu mjög fjarri umræðu um sjúkrahús, en samt sem áður --- þá erum við að leggja á ráðin um atvinnutækifæri sem í langflestum tilvikum eru atvinnutækifæri fyrir karlmenn. Þess vegna tel ég að það þurfi, jafnframt því að byggja upp atvinnutækifæri á borð við stóriðju, að huga að því að fjölskyldur þurfa að tengjast slíkum fyrirtækjum og það þarf ekkert síður að skapa atvinnutækifæri fyrir konur á þeim svæðum þar sem verið er að byggja upp stóriðju. Þess vegna hefði ég talið mjög eðlilegt að samhliða eflingu sjávarútvegs á Akureryri eins og hefur verið að gerast þar og samhliða eflingu stóriðju á Grundartangasvæðinu, þá sé ekki óeðlilegt að leggja á ráðin um að fjölga þeim atvinnutækifærum sem heilbrigðisstofnanir geta veitt, m.a. þessi tvö sjúkrahús sem ég hef orðið svo langorður um.

Í níunda lagi vil ég nefna tillögur sem varða annars vegar Ríkisspítalana og Sjúkrahús Reykjavíkur og svo hins vegar sjúkrahúsin á landsbyggðinni. Við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 1996 voru samþykktar fjárveitingar til Ríkisspítalanna og Sjúkrahúss Reykjavíkur upp á 444 millj. og 300 þús. kr. Umræður hafa hins vegar verið langmestar um að verið sé að skera niður á sjúkrahúsunum. Ég hef ekki orðið mjög var við það í fjölmiðlum að við séum nýbúnir að samþykkja nærri 500 millj. kr. til stóru sjúkrahúsanna í höfuðborginni. Þær ákvarðanir voru teknar á grundvelli samnings sem hefur verið hér til umræðu og ég var sammála þeirri niðurstöðu sem þar varð og fagnaði henni. Ég tel að þar hafi verið prýðilega vel að verki staðið hjá þeirri þriggja manna nefnd sem vann að því máli og tel að það horfi allt til betri vegar en engu að síður þurfi að vinna vel áfram í endurskipulagningu á Ríkisspítölunum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Það horfir allt til betri vegar hvað þetta varðar. Engu að síður varð það niðurstaðan eftir ítarlega skoðun að þessi sjúkrahús þyrftu meira fjármagn, Ríkisspítalarnir 84 millj. kr. og Sjúkrahús Reykjavíkur 120 millj. kr. auk þess sem 100 millj. kr. eru settar á sérstakan lið til þess að eiga borð fyrir báru og möguleika á að bæta þeim upp stöðu þegar líður á árið.

Þetta vil ég nefna sérstaklega og vekja aftur athygli á því að þarna er verið að leggja mjög mikla fjármuni til viðbótar við þá sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Í rauninni lá ekkert fyrir þegar fjárlagafrv. var unnið að þörf væri á 444 millj. kr. fyrir þessar sjúkrastofnanir eins og afgreitt var í fjáraukalögunum. Ég vænti þess að með þessum fjármunum takist stjórnendum sjúkrahúsanna að koma rekstri þeirra í viðunandi stöðu. Það verður að treysta á það, og ég geri það, að stjórnendurnir vinni á þeim nótum að nú takist að halda þessu innan ramma. Stjórnarandstaðan hefur vakið athygli á því að það muni vanta meira. Það kann vel að vera, en inn í þá útreikninga sýndist mér að ekki væri gert ráð fyrir því að nokkur árangur yrði af endurskipulagningunni, enginn árangur yrði af sameiningu þessara sjúkrastofnana innan Sjúkrahúss Reykjavíkur. Og læt ég þar með lokið umfjöllun um þau.

Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir því að lækka fjárveitingar til litlu sjúkrahúsanna úti um land um 160 millj. kr. Tillaga meiri hluta fjárln. er hins vegar sú að falla frá þessum áformum og gera ráð fyrir því að 60 millj. kr. verði færðar til lækkunar á hagræðingarlið heilbrrn. og gert er ráð fyrir því að unnið verði að endurskipulagningu tiltekinna sjúkrahúsa úti um landið þannig að 60 millj. kr. sparnaður geti orðið af því starfi. Þar er um að ræða hugmyndir um að sameina stofnanir og færa saman sjúkrahús og heilsugæslustöðvar o.s.frv. og hefur verið starfandi nefnd sem hefur reyndar ekki lokið störfum. Hugmyndir hafa verið kynntar hjá fjárln. Reyndar hafa ekki verið lagðar fram neinar formlegar tillögur en meiri hluta fjárln. var ljóst að þær hugmyndir sem voru uppi um 160 millj. kr. sparnað voru ekki raunhæfar eins og þær voru settar upp. Þess vegna er fallið frá þessu og gert ráð fyrir þessari aðferð sem hv. formaður fjárln. hefur í ræðu sinni gert rækilega grein fyrir, þ.e. hvernig gert sé ráð fyrir að staðið verði að málum.

Í þessu sambandi má ég til með að segja að auðvitað þarf að ná ýtrasta sparnaði í rekstri sjúkrahúsa úti á landi ekki síður en annars staðar. En ég tel að það þurfi að fara þar með gát og sjá til þess að ekki sé verið að færa störf burt úr landshlutunum, störf sem e.t.v. kosta hærri fjárhæðir að vinna í öðrum landshlutum. Ég tel að það þurfi að framkvæma skipulagsbreytingar í sátt við heimamenn og ég vænti þess að sú vinna sem gert er ráð fyrir að setja af stað í þessum efnum verði unnin þannig að hún verði til þess að efla þessa starfsemi. Ég ítreka að ég tel að vissulega sé hægt að endurskipuleggja og að ná sparnaði, en það verður að gerast með bærilega skynsamlegum hætti.

Hæstv. forseti. Í tíunda og síðasta lagi vil ég nefna að samkvæmt tillögu meiri hluta fjárln. er gert ráð fyrir því að hækka heimildagrein, þ.e. svokölluðu 6. gr., um nokkra fjárhæð, 65 millj. kr., til að hægt sé að veita 80 millj. til þess að vinna að atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkum í atvinnulífinu. Þetta er mikilvægt verkefni og ástæða er til að vekja athygli á því. Það skiptir mjög miklu máli hvernig að þessu verður staðið og það þarf að gæta þess að skipulag þeirrar úthlutunar verði skýrt og klárt og það verði til þess að styrkja þau svæði og styrkja þá landshluta sem úthlutað verður til.

Hæstv. forseti. Ég hef gert nokkra grein fyrir afstöðu minni og haft uppi nokkur varnaðarorð um að fara beri varlega við ákvarðanir um fjárfestingar. Tilgangur minn er að vekja athygli á nauðsyn þess að við hugsum til lengri tíma en eins árs. Með samþykkt þessa frv. tel ég að mikill árangur hafi náðst í ríkisfjármálum og fjárlögin geti orðið lykill að traustari efnahagsstefnu. Þær tillögur sem meiri hluti fjárln. flytur fela ekki í sér niðurskurð heldur kröfur um hagræðingu og frestun í nokkrum tilvikum á framkvæmdum sem er til hagsbóta þegar til lengri tíma er litið. Þær gera ráð fyrir frestun framkvæmda, en að hins vegar sé komið til móts við stofnanir og leitast við að undirbúa þær skipulagsbreytingar og úrbætur í opinberum rekstri sem nauðsynlegar eru og eðlilegar í okkar litla samfélagi þar sem opinber þjónusta hefur verið byggð upp til jafns við það sem best gerist hjá nágrannaþjóðum okkar.

Ég vil svo í lokin, hæstv. forseti, þakka fjárlaganefndarmönnum mjög gott samstarf. Þar hefur verið mikið vinnuálag síðustu vikurnar, en ég tel að niðurstaða af því starfi sé slík að hv. fjárln. geti verið ánægð með sitt verk.