Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 15:44:04 (2638)

1996-12-20 15:44:04# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[15:44]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þó að mig kunni oft að greina á um ýmislegt við hv. þm. Sturlu Böðvarsson og þá ágætu þingmenn sem skipa meiri hluta fjárln., geri ég mér grein fyrir því að þetta eru allt saman alvörumenn. Þeir kunna vel skil á þeim málum sem þeir eru að fjalla um. Það kom áðan fram í máli hv. þm., sem er varaformaður fjárln., að þegar kom að því að fjalla um þau markmið fjárlaganna sem tengjast heilbrigðiskaflanum, þá varð þeim ljóst að ekki var allt með felldu þar. Hv. þm. sagði einfaldlega að þegar kom að þeim þætti sem varðaði 160 millj. kr. sparnað sem var áætlaður á dreifbýlissjúkrahúsum, þá var heilbrrn. ekki í stakk búið til þess að útfæra það. Hv. þm. orðaði það svo efnislega að meiri hlutanum hefði verið það ljóst að það var ekki raunhæft að ná þessum sparnaði. Herra forseti. Hvað felst í þessum orðum hv. þm.? Það felst heldur þungur áfellisdómur yfir vinnubrögðum heilbrrn. Ég get ekki annað en dregið þá ályktun að hv. þm. sé hér að lýsa því yfir að meiri hluti fjárln. taki í raun undir þá hörðu gagnrýni sem stjórnarandstaðan hefur sett fram á þann málatilbúnað sem tengist einmitt þessum sparnaði, sem tengist heilbrigðiskaflanum. En hv. þm. sagði líka að það væri áætlað að ná fram 60 millj. kr. sparnaði. Ég spyr: Er eitthvað sem bendir til þess að hægt verði að ná því fram? Ég vísa til þess að hv. þm. sagði að meiri hlutanum hefðu verið kynntar einhvers konar hugmyndir um það en þó ekki fengið að sjá neitt á blaði.

Ég spyr í fyrsta lagi: Telur hann miðað við þessar lauslegu hugmyndir sem meiri hlutanum hafa verið kynntar að það sé einhver von til þess að þessum sparnaði verði náð? Og í öðru lagi: Telur hann ekki að það hefðu verið skynsamleg vinnubrögð að láta ekki bara meiri hlutann fá nasasjón af þessu heldur minni hlutann líka og e.t.v. hv. heilbr.- og trn. líka?