Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 15:48:45 (2640)

1996-12-20 15:48:45# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[15:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. og varaformaður fjárln. kann vel til verka. Hann er sjóaður á sviði sveitarstjórnarmála og hann hefur yfirgripsmikla reynslu af störfum innan fjárln. Hann sagði að það kæmi honum á óvart að heilbr.- og trn. hefði ekki verið gerð grein fyrir hugmyndum sem eru einhvers staðar fyrir hendi um útfærslu þessa sparnaðar. Það kemur mér líka sem formanni þessarar nefndar mjög á óvart að ekki hefur verið gerður nokkur reki að því að kynna okkur þessar hugmyndir. En það er hins vegar ekki, herra forseti, vegna þess að nefndin, einstakir nefndarmenn og formaður nefndarinnar hafi ekki gengið hart eftir því. Í þessum sölum hafa verið haldnar margar ræður einmitt til að gagnrýna það verklag hæstv. heilbrrh. að fagnefndinni hefur ekki verið kynnt þetta. Og það var einmitt vegna þess að hv. fjárln. taldi að þetta mál væri svo losaralega unnið að hún treysti sér ekki til að fylgja hinum upprunalegu hugmyndum og það tel ég virðingarvert. En með allri virðingu og með djúpri virðingu fyrir hv. varaformanni fjárln. fannst mér bæði á svari hans áðan og eins á ræðu hans, að hann hefði óskaplega litlar hugmyndir um hvernig ætti að ná þessum 60 millj. kr. sparnaði. Hann talaði að það ætti að nást með því að sameina heilsugæslustöðvar og sjúkrahús. Ég var þeirrar skoðunar eftir að hafa hlýtt á hæstv. heilbrrh. hér í salnum og starfsmenn hans í nefndinni að það væri ekki sá partur sem ætti endilega að skapa þennan sparnað, heldur væri það eitthvað annað.

Hér liggur það einfaldlega fyrir að menn vita ekki út í hvaða sjóferð þeir eru að leggja. Ég tel skynsamlegt hjá nefndinni að hafa lagt til að einungis yrði gert ráð fyrir 60 millj. kr sparnaði, en ég leyfi mér að taka svo stórt upp í mig eftir þessa ræðu hv. varaformanns nefndarinnar að fullyrða að mjög óljóst sé í hans huga hvernig menn ætla að gera það að því er varðar þau vinnubrögð sem voru höfð uppi í Reykjavík. Ráðuneytið hefur haft nákvæmlega sama tíma til að vinna þetta gagnvart dreifbýlissjúkrahúsunum en munurinn var sá að í Reykjavík kom að verkinu sá stjórnmálamaður sem hv. þm. Sturla Böðvarsson hefur gagnrýnt hvað mest á síðustu dögum, borgarstjórinn í Reykjavík. Það var munurinn. Og það er ekki bitamunur heldur fjár.