Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 15:53:45 (2642)

1996-12-20 15:53:45# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[15:53]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins nota þetta tækifæri til að árétta það sem kom fram í máli hv. þm. og varaformanns fjárln. um afstöðu hennar og meiri hlutans sérstaklega til menntamála og hvernig hann endurspeglast í þeim brtt. sem meiri hlutinn hefur flutt, bæði við þessa umr. og 2. umr. fjárlaganna. Það er alveg ljóst að af hálfu nefndarinnar hefur verið farið rækilega yfir menntamálin og það eru ýmsar tillögur, sem meiri hlutinn gerir, sem horfa til framtíðar og nægir þar að nefna t.d. afstöðu meiri hlutans til ritakaupasjóðsins sem stofnaður hefur verið með samvinnu Landsbókasafnsins -- Háskólabókasafnsins, að því er varðar nýjar fjárveitingar til Raunvísindastofnunar, að því er varðar fjárveitingar til framhaldsskólanna og að því er varðar fjárveitingar til Háskólans á Akureyri og Samvinnuháskólans, eins og rakið hefur verið, og einnig Kennaraháskólans svo að ekki sé rætt um þær áherslur sem fram koma um tölvubúnað, bæði hjá framhaldsskólunum og hjá Tækniskólanum við 2. umr. málsins. Það er alveg ljóst að fjárln. hefur farið rækilega ofan í menntamálaþátt fjárlaganna og vildi ég aðeins árétta það og láta í ljós þakklæti til nefndarinnar fyrir hvernig að þessu máli hefur verið staðið.

Einnig hefur hún tekið á viðkvæmum málum eins og kemur fram um stuðninginn við Handknattleikssamband Íslands sem var mikilvægt úrlausnarefni og einnig hefur hún tekið ákvarðanir um hækkanir til Kvikmyndasjóðs sem skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli fyrir framtíð kvikmyndagerðar í landinu.