Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 15:57:58 (2644)

1996-12-20 15:57:58# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[15:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þm., varaformaður fjárln., sagði að það hefur einnig vakið undrun mína hvað sú ákvörðun, að auka fjárveitingar til Kvikmyndasjóðs, hefur vakið litla umræðu. Ég held að þessi ákvörðun skipti ekki aðeins máli fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn heldur sé hún líka til marks um það gagnvart þeim aðilum sem við eigum samskipti við á alþjóðavettvangi um kvikmyndamál að hún sýni þeim aðilum að af hálfu íslenskra stjórnvalda er vilji til að taka ákvarðanir sem styrkja forsendur fyrir innlendri kvikmyndagerð með því að efla sjóð eins og þennan.

Ég vil nefna sérstaklega fjárveitingar til Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands því að bæði á aukafjárlögum og núna við fjárlagagerðina hefur verið ákveðið að setja nýja fjármuni til Raunvísindastofnunar og eiga þær ákvarðanir rætur að rekja til eldsumbrotanna í Vatnajökli. Við fórum nokkrir þingmenn í Raunvísindastofnun á dögunum og kynntumst þar af eigin raun þeim rannsóknum sem fram hafa farið bæði á vegum jarðeðlisfræðistofu og jarðfræðistofu Raunvísindastofnunar og á þeim fundi kom fram að til þess að þær stofnanir gætu sinnt sínum mikilvægu rannsóknum með viðunandi hætti þyrftu þær að fá aukafjárveitingu í ár og einnig auknar fjárveitingar á næstu árum til að rannsóknir verði stundaðar með sem bestum árangri. Það hefur nú gengið eftir bæði í fjáraukalögunum og einnig í fjárveitingunum á næsta ári, að rannsóknarumhverfi og rannsóknaraðstaða fyrir þessa vísindamenn verður bætt með auknum fjárveitingum. Ég er viss um að það á eftir að skila sér í meiri vitneskju en við höfum haft hingað til um aðstæður undir Vatnajökli og þær forsendur sem þar eru fyrir frekari eldsumbrotum.